Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 21:41:44 (7824)

2002-04-18 21:41:44# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[21:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Það er rétt, herra forseti, að ég brá mér úr húsi klukkan hálffjögur til að fara á ársfund Rannsóknarráðs Íslands. Þar hlustaði ég á Ólaf Davíðsson, sem er nú ráðuneytisstjóri hæstv. forsrh., sem lýsti því yfir að nú hefði ríkisstjórnin látið í minni pokann fyrir þrýstingi frá vísindasamfélaginu og ákveðið að hætta við að þrýsta í gegnum þingið nú í vor þeim þremur frumvörpum sem varða stuðning við vísinda- og rannsóknarstarfsemi í landinu.

Ég þarf auðvitað að fylgjast með því líka. Ég á sæti í menntmn. og þegar þessir hlutir gerast á elleftu stundu á síðustu dögum þingsins, hvert stórmálið fer í gegn á fætur öðru, er eðlilegt að þingmenn þurfi að skipta tíma sínum á milli verkefna.

Eitt verkefnið er Þjóðhagsstofnun. Ég hlustaði á umræðuna hér eftir því sem ég gat. Ég hef verið að reyna að fylgjast með og læra af umræðunni um vísindasamfélagið. Ég fór þess vegna út af örkinni í dag og lærði þar heilmargt, m.a. að ríkisstjórnin leyfir sér að láta í minni pokann fyrir þrýstingi vísindasamfélagsins og nú eru þeir hættir við að troða í gegn því stórmáli. Það er þakkarvert. En það eru fleiri stórmál sem þeir ættu að sjá sóma sinn í að bakka með út úr þingsölunum því að það er ekki forsvaranlegt að koma með svo mörg stórmál fram á elleftu stundu, á síðustu dögum þingsins, og halda þingmönnum uppi með vökustaurum, talandi um mál sem þeir vildu auðvitað kynna sér mun betur og tala um af meiri fagmennsku og meiri kunnáttu. Það er ekki við þá að sakast heldur óðagoti og skammsýni í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.