Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 21:43:37 (7825)

2002-04-18 21:43:37# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða þetta þingmál hér, um brottfall laga um Þjóðhagsstofnun, síðan fyrir hádegi í dag. Nokkuð langt er um liðið síðan ég setti mig á mælendaskrá og heilmikið hefur komið fram í þessari umræðu.

Ég vil byrja á að taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram í umræðunni, að það er ámælisvert að koma með hvert stórmálið á fætur öðru svo seint inn í þingið, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi mála sem komu nógu fljótt fram er til vinnslu í þinginu og í nefndunum. Þau eiga eftir að koma hér inn en síðan koma þessi stóru mál of seint fyrir þingið og á að keyra þau áfram fyrir þinglok. Vissulega vildu menn hafa rýmri tíma til að skoða þau mál og hefði verið eðlilegt að þetta mál hefði komið inn fyrir tilsettan tíma.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að engin ríkisstofnun sé heilög og sjálfsagt sé að endurskoða tilgang, hlutverk og verkefni stofnana í samfélaginu. Við þurfum auðvitað alltaf að meta hvort við eigum að reka stofnanirnar eins og þær eru reknar í dag eða einhvern veginn öðruvísi. Við þurfum að skoða hvort verkefnunum sé betur komið fyrir annars staðar og hvort það sé hagkvæmara.

[21:45]

Í umræðunni í dag hafa þingmenn Samfylkingarinnar fært fyrir því allmörg rök hvers vegna þeir eru á móti þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til, þ.e. að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður. Ég ætla að nefna nokkur atriði þó að ég telji að svo mikið sé búið að ræða um þetta mál í dag að það sé við það að verða útrætt.

Eftir að málið kom úr efh.- og viðskn. þar sem það var til umræðu hefur komið á óvart að heyra að það virðist verða mun dýrara að leggja stofnunina niður en að reka hana. Þetta hafa þeir þingmenn sem störfuðu í efh.- og viðskn. bent á, og einnig stjórnarþingmenn eins og Pétur Blöndal sem benti á þetta í fréttum, í hádeginu minnir mig. Auðvitað veltir maður fyrir sér hvort hagkvæmnissjónarmið hafi ekki verið höfð þarna í fyrirrúmi. Þau sjónarmið hafa komið upp að eðlilegra hefði verið að efla sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar og færa henni aukin verkefni í stað þess að leggja hana algjörlega af.

Þó að það hafi komið fram í nokkrum andsvörum hjá hæstv. forsrh. hvernig skipa skuli verkefnum stofnunarinnar er það áhyggjuefni að hvergi eru verkefnin lögbundin eftir að þessi lög verða felld úr gildi. Það er hvergi lögbundið hver skuli sinna þessum verkefnum. Mig langar að koma inn á eitt atriði sem hæstv. forsrh. nefndi áðan í andsvari, þá hugmynd að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sinni þeirri vinnu fyrir þingmenn sem Þjóðhagsstofnun hefur unnið hingað til, og gerður verði sérstakur samningur. Ég velti fyrir mér: Hvers vegna er ekki gengið frá slíku um leið og verið er að leggja til að þessi stofnun verði lögð niður? Hvers vegna kemur þá ekki samhliða í þingið þingmál eða upplýsingar um það hvernig þessum málum skuli skipað? Í ræðum í dag hefur verið nefnt hver verkefni Þjóðhagsstofnunar eru, og þau eru auðvitað fjölmörg eins og margir vita og flestir jafnvel, a.m.k. þeir sem hafa kynnt sér þessi mál. Ég ætla, herra forseti, að nefna þau hér ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum að hverju Þjóðhagsstofnun hefur unnið hingað til og hver þau miklu verkefni sem hún hefur haft með höndum eru.

Það er t.d.:

1. Að færa þjóðhagsreikninga.

2. Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum.

4. Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála.

5. Að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.

6. Að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Þetta eru lögbundin verkefni Þjóðhagsstofnunar samkvæmt gildandi lögum. Síðan má auðvitað nefna, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að auðvitað eru fjölmörg önnur verkefni sem stofnunin hefur verið að vinna og vitnaði hún þar í heimasíðu stofnunarinnar þar sem liggja fyrir ýmis erindi og gagnlegar upplýsingar.

Það verður auðvitað að segjast eins og er að þegar breytingar af þessu tagi koma inn í þingið með svona stuttum fyrirvara eru menn áhyggjufullir yfir því hvar skuli vinna þessi verk, þessi fjölmörgu verk. Eins og margoft hefur verið bent á í dag virðist mjög ómarkvisst hvernig menn ætla að skipa verkefnum þeim sem Þjóðhagsstofnun hefur sinnt. Bent hefur verið á að eitthvað af verkefnunum flytjist til Hagstofu, þar á meðal þjóðhagsreikningarnir, og þjóðhagsspár og -áætlanir til efnahagsskrifstofu fjmrn. Jafnframt hefur verið bent á að varhugavert sé að setja ákveðin verkefni undir fjmrn., undir framkvæmdarvaldið, þannig að það er ýmislegt sem þarf auðvitað að skoða miklu betur í því hvernig þessum málum skuli skipað. Hvert á t.d. að setja þau reiknilíkön sem Þjóðhagsstofnun hefur séð um? Ég hef a.m.k. ekki heyrt neitt um það. Talað er um að þjóðhagslíkanið flytjist inn á efnahagsskrifstofu fjmrn. en fleiri reiknilíkön eru á vergangi, t.d. sjávarútvegslíkan, skatta- og almannatryggingalíkan.

Eins og segir í áliti minni hlutans í efh.- og viðskn. kom fram hjá fulltrúum LÍÚ á fundi með nefndinni að samtökin hafa verið mjög háð upplýsingum um verðvísitölu sjávarafurða og mati á afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir telja nauðsynlegt að óháður aðili vinni slíkar upplýsingar en t.d. ekki sjútvrn. Bent hefur verið á það í vinnunni í efh.- og viðskn. að mikið hagræði væri að því að hafa þessi líkön öll á einum stað hjá óháðri stofnun, allmikið óhagræði fylgi því að flytja þau á marga staði, auk þess sem Þjóðhagsstofnun hefur getað samnýtt upplýsingar úr þessum líkönum.

Mig langar t.d. til að benda á það sem kemur fram í séráliti Þórðar Friðjónssonar, fyrrv. forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem átti sæti í starfshópnum sem undirbjó málið --- það er vitnað í álit hans í minnihlutaáliti efh.- og viðskn. --- þar sem hann telur, með leyfi forseta, að það sé hagkvæmt við aðstæður eins og hér á landi ,,að hafa eina opinbera greiningar- og þjónustustöð sem getur í senn þjónað Alþingi, stjórnvöldum og almenningi. Þetta stafar m.a. af því að slík stofnun þarf að sjá um og viðhalda mörgum reiknilíkönum og gagnagrunnum eins og Þjóðhagsstofnun gerir nú. Þessi líkön eru flókin og viðamikil og byggjast að hluta á upplýsingum og gagnavinnslu sem á varla heima í ráðuneyti. Jafnframt þarf auðvitað sérþekkingu og reynslu til að vinna með þau. Þessum málum eru hvorki gerð viðhlítandi skil í frumvarpinu né voru þau rædd að gagni við undirbúning þess. Sem dæmi um reiknilíkön sem stofnunin hefur á sínum vegum eru þjóðhagslíkön (til langs og skamms tíma), sjávarútvegslíkön, loftslagslíkan og skatta- og almannatryggingalíkön.``

Þetta kemur fram í minnihlutaálitinu, og síðan segir í séráliti Þórðar Friðjónssonar, með leyfi forseta:

,,Þessi reiknilíkön eru notuð við spágerð og áætlanagerð í efnahagsmálum en einnig í sérverkefnum af ýmsu tagi. Til marks um slík verkefni má nefna mat á áhrifum EES, ESB og evrunnar, stóriðju, loftslagssamninga, mismunandi nýtingar fiskstofna o.fl. Við má bæta verkefnum á sviði skatta og almannatrygginga. Jafnframt eru þessi líkön oft notuð vegna fyrirspurna frá Alþingi og umsagna um frumvörp. Umræða um þetta efni í frumvarpinu er lítil og byggð á veikum grunni.``

Þetta er sem sagt úr séráliti Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem var í starfshópnum sem undirbjó þetta frv. Ég verð að segja að þegar maður horfir til þessarar athugasemdar hans finnst manni þetta vera frekar fljótfærnislegt, bara í ljósi þess hvernig verkefnum stofnunarinnar er ekki komið fyrir. Þá kemur fyrir lítið þótt hæstv. forsrh. hafi haldið því fram hér að þetta hafi verið sérlega vel undirbúið mál. Ég verð að segja að ég hefði viljað sjá þetta mál betur unnið og sett á dagskrá þingsins frekar í haust þegar búið væri að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að þessi verk verði unnin. Auðvitað þarf að vinna þessi verk þó að þau verði unnin annars staðar, og þá þarf að vita hvar.

Hér kemur fram að kostnaðurinn mun blása út við það að leggja stofnunina niður og skipta verkefnunum upp milli Hagstofu og fjmrn. Kostnaður við rekstur Þjóðhagsstofnunar á fjárlögum 2002 er 132 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn verði um 50 millj. kr. til viðbótar vegna biðlauna og kostnaðar við flutning á verkefnum. Þetta er aldeilis ekki gert fyrir ekki neitt. Síðan má auðvitað búast við því að þegar á að fara að vinna þessi verkefni í ráðuneytunum, á Hagstofunni og úti um allar trissur, uppi í háskóla og ég veit ekki hvað, má búast við því að þær stofnanir sem taka þessi verkefni að sér kalli eftir auknu fjármagni til að vinna þessi verk.

Eins og komið hefur fram í umræðunni, og náttúrlega í fréttum og allri umfjöllun um þetta mál, mun ASÍ fá stuðning við hagdeild sína til að vinna þau verkefni sem þau telja sig þurfa að vinna. Ekki hefur verið gert ráð fyrir að önnur samtök launafólks fái slíkt og þó er ekki óeðlilegt að þau fái stuðning, jafnvel sambærilegan, til að sinna þeim verkum. Þótt ekki væru önnur atriði en þau sem ég hef nefnt sýna þau auðvitað að kostnaður mun margfaldast við þessa breytingu.

Nokkuð hefur verið rætt um það að sjónarmið starfsmanna hafi verið hunsuð. Hæstv. forsrh. hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að álits starfsmanna Þjóðhagsstofnunar hafi verið leitað --- en starfsfólk hafi verið andvígt ráðagerðinni. Þar hafa sjónarmið stangast á við ráðagerðir stjórnvalda og í ljósi þess hefur ekkert tillit verið tekið til sjónarmiða þessa starfsfólks.

Aftur á móti verður auðvitað að gagnrýna það sem kemur hér fram, að gert er ráð fyrir að starfsfólkið fái önnur störf hjá þeim stofnunum sem taka við þessum verkefnum en ekki að þeim verði tryggð sambærileg störf. Ég verð að segja að mér hefði fundist það stórmannlegra ef það hefði verið samþykkt að viðkomandi starfsmenn fengju sambærileg störf --- ef þeir þá vilja taka við störfum hjá þeim stofnunum sem munu sinna þeim verkefnum sem hafa verið unnin hjá Þjóðhagsstofnun.

Hér hefur auðvitað komið fram, og hæstv. forsrh. hefur bent á það, að að mörgu leyti hafi sú vinna sem fór fram í Þjóðhagsstofnun einnig verið unnin á öðrum stöðum. Auðvitað þarf að skoða og endurmeta ef tvíverknaður er í gangi. En það er mjög mikilvægt að vinna eins og Þjóðhagsstofnun hefur verið að vinna sé unnin hjá óháðri stofnun, hún sé ekki á vegum framkvæmdarvaldsins. Þessar stofnanir heyra ekki undir stjórnvöld, eins og t.d. það að færa fjölda verkefna á sviði efnhagsmála til hagstjórnaraðila eins og Seðlabankans og fjmrn. sem auðvitað lúta pólitískri forustu.

[22:00]

Í minnihlutaáliti efh.- og viðskn. er einmitt bent á að Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, hafi sagt, með leyfi forseta:

,,Það er mjög erfitt að sjá t.d. að fjármálaráðuneytið geti tekið við miklu af þessum þjóðhagsspárverkefnum og greiningum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft vegna þess að fjármálaráðuneytið er bara hluti af eða heyrir undir fjármálaráðherra sem er í ríkisstjórninni og vinnur mjög náið með ríkisstjórninni. Þannig að þær spár yrðu alltaf heldur vandræðalegar því það væri erfitt að túlka hvort þetta væru faglegar spár eða hvort þetta væru spár sem væru byggðar á vilja og ósk ríkisstjórnarinnar. Það er miklu betra að það sé óháð stofnun, og jafnvel mun sjálfstæðari en Þjóðhagsstofnun hefur verið, sem annast slíkar spár og greiningu.``

Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Fleiri voru með efasemdir um að réttmætt væri að fjmrn. sinnti slíkum verkefnum, t.d. voru fulltrúar Þjóðhagsstofnunar með slíkar efasemdir. Og kannski má segja að ef fjmrn. á t.d. að vera með þjóðhagsspár í tengslum við fjárlagafrv. og síðan endurskoðun hennar á ársfjórðungsfresti þá séu menn komnir nokkuð beggja vegna borðs í þeirri vinnu, a.m.k. get ég ekki séð annað. Ég hefði því talið eðlilegt að sú vinna færi fram annars staðar.

Varðandi stöðu þingsins, sem hefur náttúrlega verið gagnrýnt hér harðlega því ómetanlegt hefur verið fyrir þingið að geta leitað til óháðrar stofnunar eins og Þjóðhagsstofnunar, þá hefur hæstv. forsrh. bent á að gerður verði samningur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Maður veltir fyrir sér hvort hægt væri að koma með slíkt á einhvern annan hátt, t.d. að ráða hagfræðinga til starfa í þingið til þess að liðsinna þingmönnum. Hér er fjöldinn allur af lögfræðingum og kannski ekki ástæðulaust að hér kæmu einnig aðrir fagmenn til starfa.

Staða stjórnarandstöðunnar hefur alltaf verið nokkuð erfið og sérstaklega í seinni tíð þegar menn hafa ekki fengið upplýsingar, þegar menn hafa túlkað upplýsingarétt þingmanna ákaflega þröngt eins og hefur því miður viljað brenna við hér í þinginu, þá óttast maður að þegar búið er að leggja Þjóðhagsstofnun niður að áfram muni verða erfitt að sækja upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að veita stjórnvöldum aðhald sem er auðvitað skylda stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma, að veita ríkisstjórn hverju sinni málefnalegt aðhald.

Varðandi Seðlabankann og þau verkefni sem talað hefur verið um að verði flutt til hans þá verður nú að segjast sem er að Seðlabankinn er ekki óháður aðili þó svo að sjálfstæði hans hafi verið aukið. Það er því auðvitað mjög margt sem ber að skoða nánar að mínu mati hvað varðar þau verkefni og einnig hvert þau fara. Ég verð að segja, herra forseti, að ég harma eiginlega að það skuli vera farið í þessa aðgerð núna á síðustu dögum þingsins, verið að gera breytingar sem eiga eftir að verða skattborgurum mun dýrari en sá háttur sem hafður er á í dag, þ.e. með því að reka Þjóðhagsstofnun, og hefði ég viljað og tek undir með síðasta ræðumanni að óskandi hefði verið að ríkisstjórnin hefði ákveðið að vera ekki að koma þessu máli í gegn hér á síðustu dögum en biði með það svo hægt væri að gera viðhlítandi ráðstafanir að því sem snýr að verkefnum Þjóðhagsstofnunar og það yrði þá lögfest að einhverju leyti og ljóst hvar þau verkefni verði unnin í framtíðinni.