Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:27:25 (7830)

2002-04-18 22:27:25# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hæstv. forsrh. að staða þingsins er sterk enda á hún að vera sterk. Það bera að gjalda varhuga við því að gera neitt sem veikir stöðu þingsins. Ég held að við verðum stöðugt að hafa það í huga.

Styrk staða þingsins og lýðræði er ekkert sjálfgefið mál, ekki einu sinni í lýðræðisþjóðfélagi sem við öll viljum hafa. Það er ekki sjálfgefið mál. Því miður er það svo að viss samkeppni er, eða það má orða eins og hæstv. forsrh. gerði þó ég mundi ekki hafa sagt það með þeim hætti, að það er samkeppni á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Engu að síður held ég að við upplifum það öll sem staðreynd að báðum finnst þarna stundum skarast þannig að mörk séu ekki alltaf skýr. Það þarf í sjálfu sér ekkert að vera óeðlilegt við það. En það er bara svo að mínu mati.

Þess vegna ber okkur þingmönnum að vera á stöðugu varðbergi, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ábyrgð þingmanna í ríkisstjórn er ekkert minni hvað varðar þingræðið en þingmanna í stjórnarandstöðu. Ábyrgð þeirra er kannski enn meiri ef eitthvað er. Annars held ég að hún sé að mínu viti bara jöfn. Forsendur þingmanna til þess að fá upplýsingar til þess að meta stöðu mála, meta hvað skuli næst gjöra, eru því afar mikilvægar fyrir þingræðið. Á það var ég einmitt að leggja áherslu að hér ætti að huga betur að.