Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:50:54 (7834)

2002-04-18 22:50:54# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svarað þessu síðasta áður og það er ekki fótur fyrir því enda, eins og ég segi, hefði þingið fyrir tólf árum síðan varla rætt um að leggja þessa stofnun niður og samþykkt það í rauninni með ályktun, varla hefðum við hv. þm. sett það í stjórnarsáttmála okkar, eins og við gerðum, að hluta þessa stofnun í sundur eins og var í stjórnarsáttmála okkar, ef það væri hægt að rekja til atburða sem áttu sér stað sjö, átta, níu eða tíu árum síðar. Ég á ekki von á því.

Vegna stöðu hlutafélaga í eigu ríkisins að öllu eða mestu leyti þá hef ég ekki séð neina ritgerð sem gengur þvert á þá ritgerð sem liggur fyrir frá Stefáni Má Stefánssyni. Ég hef ekki séð neina slíka. Ég hef ekki séð neinn lögfræðing skriflega draga það í efa þannig að ég held að það standi. Ég vek athygli á því að það er ekki rétt sem hv. þm. sagði að þar með fengju menn engar upplýsingar. Það lýtur þeim lögmálum að þá fá menn sömu upplýsingar og hluthafar mundu fá almennt, hluthafar á hluthafafundi.

Númer tvö þá höfum við það í lögum að meðan ríkið á yfir 50% í slíku fyrirtæki þá skuli það lúta endurskoðun Ríkisendurskoðunar og Ríkisendurskoðun er auðvitað skylt að láta vita af því ef þar ber eitthvað út af sem Ríkisendurskoðun rekur augun í sem ekki er samkvæmt góðri endurskoðunarvenju eða réttum reglum og lögum. Þar er því út af fyrir sig ákveðið aðhald.

Varðandi sparnaðinn þá ítreka ég það, eins og hæstv. utanrrh. sagði í framsöguræðu sinni, að gert er ráð fyrir því að þegar fram í sækir verði sparnaður. En við lögðum höfuðáherslu á það að staða starfsmanna sem nú eru í Þjóðhagsstofnun yrði áfram tryggð. Ef við hefðum við þær aðstæður sagt að við ætluðm jafnframt að spara peninga þá hefði það ekki verið trúverðugt. En þegar fram í sækir mun minnkun tvíverknaðar auðvitað leiða til sparnaðar.

Vegna fjölgunar starfsmanna ríkisins á undanförnum 25 árum vil ég segja að íbúum þessa lands hefur fjölgað um 50--60 þúsund (GÁS: Tíu árum.) á sama tíma. Nokkrum sinnum voru nefnd 20 ár og svo 25 ár, svo tíu ár. Á tíu árum hefur íbúunum væntanlega fjölgað um 20--30 þúsund manns. Það eru svona um það bil tveir Hafnarfirðir eða svo. Ekki veit ég hvað margir starfsmenn eru þar en þeir eru örugglega þó nokkrir.