Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:53:14 (7835)

2002-04-18 22:53:14# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um tímasetningar. Það deilir enginn um það og ég fór mjög rækilega yfir það í ræðu minni að það er ekkert nýtt að menn hafi rætt um hlutverk Þjóðhagsstofnunar. Þar eiga 25 árin við því hún er rúmlega 25 ára. Í upphafi síðasta áratugar, 1991, fóru menn að ræða þetta og raunar fyrr og síðar.

Ég vakti einfaldlega athygli á því að tímasetningin er a.m.k. þá mjög mikil tilviljun því að eftir að upp úr sýður milli forsrh. og þjóðhagsstofustjóra í opinberri umræðu um verðbólguspár og fleira þá fer þetta mál á fljúgandi ferð. Það er bara einfaldlega það sem ég er að segja og það er ekki bara ég heldur langtum fleiri sem draga af því þessar ályktanir. Kannski eru menn að sjá meira úr þessu en efni standa til. Það kann vel að vera. En þá lesa fleiri en ég vitlaust í þá stöðu.

Varðandi álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar þá höfum við nú oft rætt hana í okkar hóp. Við þingmenn Samfylkingarinnar búum bara hins vegar ekki við það hér að geta gengið í sjóði sem borga laun sérfróðra aðila nema að vissu marki. Við höfum verið að láta skoða þessi mál fram og til baka. Það er alveg hárrétt hjá forsrh. að fyrir liggur ekki skrifleg álitsgerð í þessa veruna. Nú er ég ekki að gefa mér að sú álitsgerð sé yfir gagnrýni hafin. En ef hún reynist laukrétt, finnst forsrh. þá siðlega rétt að háeff-væðingin ein og sér geri þessar eðlisbreytingar á samskiptum þings og þessara ríkisstofnana, hvort sem þær eru háeffaðar eða ekki?

Ég vil minna á að ég er með frv. hér í þinginu og hef haft umliðin þrjú ár þar sem ég legg til breytingar á þessu, tek af allan vafa um að hér er um opinber málefni að ræða sem varða þingið. Ég geri raunar breytingar á hluthafalögum líka þannig að þeim hluthöfum sem hugsanlega eiga með ríkinu í viðkomandi hlutafélögum sé það ljóst líka að þingið hefur um þessi mál að segja.