Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:55:29 (7836)

2002-04-18 22:55:29# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það algjörlega siðlegt að þess sé gætt að sömu reglur gildi um þau fyrirtæki sem lúta ákveðnu formi, óháð því hver eigandinn sé. Ég tel þýðingarmikið að ein regla gildi og að þó að ríkið eigi t.d. 90% eða jafnvel meira, eins og í Símanum, og svo einhverjir litlir karlar eins og ég 100 þúsund kall, að ég viti að sama regla gildi í þessu félagi eins og öðrum, að það lúti sömu lögmálum þó að þessi tiltekni eigandi sé fyrir hendi. En mér finnst það ekki óeðlilegt samt sem áður að meðan ríkið eigi 50% þá eigi ríkisendurskoðandi sérstakan lögtryggðan atbeina að því að endurskoða það fyrirtæki. Það er undantekning frá reglunni og ég sé ekkert athugvert við það.

En vegna þess að menn vilja endilega tala um að verið sé að refsa þjóðhagsstofustjóra sérstaklega út af deilum um þjóðhagsspár þá vek ég bara athygli á þál. um Þjóðhagsstofnun sem hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar og meta hvort ekki sé hagkvæmt að fela öðrum verkefni hennar.``

Þetta er samþykkt í þinginu 1987 þannig að þá voru að byrja að koma upp stofnanir sem gátu sinnt svona verkefnum. En þær voru að slíta barnsskóm á þeim tíma. Nú er kominn fjöldi sterkra, öflugra stofnana sem getur og er að gera það sama og Þjóðhagsstofnun. Hafi þetta verið hægt 1987 að mati þingsins --- ekki ríkisstjórnarinnar, þingsins --- hvað þá nú þegar komnar eru stofnanir úti um allt? Ráðuneytin hafa styrkst. Það er rétt hjá hv. þm. Bankastofnanirnar og launþegasamtökin, hver á fætur öðrum gefa yfirlýsingar um fjárlög, um þetta og hitt, hvort rauðu strikin haldi og hvað eina, dag eftir dag, Kaupþing, Íslandsbanki, Búnaðarbanki og fleiri og fleiri stofnanir, Talnakönnun eða hvað þetta allt saman heitir. Fram koma endalausar yfirlýsingar manna sem þykjast búa yfir þekkingu og búa reyndar yfir þekkingu. Hafi þetta verið hægt 1987 þá hlýtur það að vera sjálfsagt núna.