Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:21:46 (7839)

2002-04-18 23:21:46# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:21]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta bréf sem lesið var upp úr hvorki málefnalegt né faglegt. Í því fólust miklir sleggjudómar sem ég tel ekki ástæðu til fyrir mig að fjalla um að öðru leyti. Þetta er umsögn til nefndarinnar og er ekki á mínu borði.

Sérstaklega var líka um það spurt hvort fullyrðingar í umsögn um að kostnaður af þessu öllu saman mundi tvöfaldast vegna tengslanna við hagsmunasamtökin. Þetta er fjarri öllu lagi og styðst ekki við neinar staðreyndir.

Síðan spurði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hvernig líta bæri á þau ummæli frá Seðlabankanum að menn væru reiðubúnir til að láta aðilum í té upplýsingar og ráðgjöf, til að mynda þinginu, eftir því sem um semst. Ég tel að hér sé ekki verið að tala um í hverju falli heldur er hér um breytingu að ræða á starfsháttum Seðlabankans vegna þessara breytinga. Það er augljóst að menn eru að tala um að semja um eða ræða um fyrirkomulagið. Það á auðvitað við ráðuneytið annars vegar og yfirvöld þingsins hins vegar hvernig fyrirkomulag á þessu megi vera. Þetta orðalag þýðir það bersýnilega en ekki að samið verði við þingmenn í hvert einasta skipti.

Varðandi hvort ekki væri um sparnað að ræða, ég hef áður fjallað um það en vandinn er sá sem við þekkjum öll að þegar menn leggja niður stofnanir, færa þær til eða hagræða á vegum ríkisins er lagaramminn frá 1996 svo sterkur að yfirleitt er kostnaðurinn við þær sparnaðaraðgerðir töluverður í fyrsta falli vegna biðlaunaréttar og annars þess háttar. Ef við létum það ætíð stöðva okkur yrði aldrei um neina hagræðingu á vegum ríkisins að ræða.