Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:24:05 (7840)

2002-04-18 23:24:05# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, EMS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:24]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Nokkuð löng umræða hefur staðið um þetta frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl., og er auðvitað ekki ástæða til að hafa hér mörg orð til viðbótar. Það eru þó örfá atriði, herra forseti, sem ég teldi eðlilegt að vekja athygli á og hugsanlega spyrja hæstv. forsrh. út í eða heyra álit hans á.

Það er auðvitað hið sjálfsagðasta mál að menn endurskoði og velti fyrir sér stöðu stofnana, jafnt ríkisstofnana sem annarra, en í þessu tilliti hefði maður talið eðlilegt að horfa á sviðið nokkurn veginn í heild sinni, þ.e. á það sem snýr að þáttum Þjóðhagsstofnunar og þær stofnanir aðrar sem koma að líkum þáttum. Menn hefðu átt að velta fyrir sér hvernig best yrði að þessu staðið. Manni sýnist hins vegar að í þessu máli hafi niðurstaðan verið ákveðin fyrir fram, það ætti að leggja Þjóðhagsstofnun niður og koma verkefnum hennar fyrir annars staðar. Ekkert tækifæri hafi verið gefið til að velta öðrum leiðum fyrir sér.

Það kom fram hér, m.a. í ræðu hæstv. forsrh. áðan, að hugsanlega væri ekki óeðlilegt að menn hefðu farið þessa leið því að 12 ára gömul samþykkt úr þessum sölum lægi fyrir þess efnis að leggja stofnunina niður, og ekki bara það heldur hefði ríkisstjórn sem mynduð var fyrir rúmum 10 árum haft slíkt í stjórnarsáttmála sínum. Það vekur því mikla athygli að svo langur tími skuli þurfa að líða þar til menn komast í það verk að framkvæma slíka samþykkt og slík stefnumið.

Það hlýtur líka að vekja athygli að þá skuli ekki vera betur frá málum gengið en í ljós hefur komið í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað varðandi ýmsa þætti sem er afar óljóst hvernig verða leystir. Vil ég helst gera það að umræðuefni mínu sem snýr að okkur hér í störfum á Alþingi og þá kannski ekki síst þeim tveim nefndum sem málið tengist helst, þ.e. efh.- og viðskn. og fjárln., því það var, og er, auðvitað eitt af hlutverkum Þjóðhagsstofnunar að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Þessi þjónusta hefur verið nýtt verulega af nefndum. Menn velta upp ýmsum möguleikum um hvernig þessu verði fyrir komið við það að Þjóðhagsstofnun verður lögð niður og hefur verið bent á að sumt fari til efnahagsskrifstofu fjmrn., annað til Seðlabanka og síðan hefur komið fram í umræðu, m.a. hjá hæstv. forsrh., að hugsanlegt væri að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mundi sinna þessu að einhverju leyti. Loks hefur verið rætt hér, og m.a. lögð fram brtt. um það, að stofnað verði sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem mundi þá sinna því sem snýr fyrst og fremst að þessum nefndum.

Ég verð að segja, herra forseti, að miðað við það sem hér blasir við, að þetta frv. verður væntanlega samþykkt á næstu dögum, hugnast mér best sú hugmynd að horft verði til þess að stofna sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis eða einhverja aðra nálgun á því. Það er örugglega ekki mikil hagræðing í því að Alþingi þurfi að gera samninga við ýmsar stofnanir úti í bæ um það að fá þau gögn sem áður hafa fengist hjá Þjóðhagsstofnun, og yrði það væntanlega einfaldast og til framtíðar litið trúlega faglegast líka og best fyrir þingnefndir ef möguleiki væri á því að koma upp slíkri starfsemi hér við Alþingi, þ.e. við nefndasvið eða skrifstofusvið Alþingis.

Þetta leiðir hins vegar hugann að því sem segir í upphafi athugasemda við lagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um hagræðingu í ríkisrekstri hefur að undanförnu verið unnið að endurskipulagningu verkefna á sviði efnahagsmála og hagskýrslugerðar. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til skyldra sviða`` o.s.frv.

Meginniðurstaðan til hagræðingar í efnahagsmálum og hagskýrslugerð virðist vera að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Nú hafa ýmsir bent á það í ræðum sínum að býsna djúpt sé á þessari hagræðingu, a.m.k. sé ekki að sjá að hún sé á næsta leiti. Hæstv. forsrh. hefur viðurkennt að það sé eitt af því sem er í raun innbyggt í kerfi okkar, að erfitt sé að ná hagræðingu fram með niðurlagningu stofnana, m.a. vegna biðlaunaréttar starfsmanna. Ef maður skoðar hins vegar þær tölur sem hér liggja fyrir er ekki að sjá að hagræðingin skili sér, ekki einu sinni þótt biðlaunakostnaðurinn sé tekinn frá. Það er að vísu óljóst hversu mikill þessi kostnaður verður en hluti af honum er nokkuð ljós, m.a. er gert ráð fyrir því að kostnaðurinn við rekstur Þjóðhagsstofnunar færist til þeirra stofnana sem nefndar eru í frv. Aukakostnaðinn, m.a. vegna þess sem hér er tilgreint, styrkingar hagdeildar ASÍ, og síðan þann kostnað sem óhjákvæmilega fellur þá væntanlega á Alþingi vegna þeirrar þjónustu sem Alþingi þarf að fá, ýmist með samningum við stofnanir eða með því að sinna þessu sjálft, þarf að greiða.

Það vekur verulega athygli þegar þessi mál eru loksins komin til framkvæmda eftir ýmist rúm 10 ár eða 12, eftir því hvenær við lítum á upphaf málsins, að ekki skuli nást meiri árangur í hagræðingunni en hér sést. Það vekur auðvitað líka athygli að um ýmsa hnúta sé ekki betur búið en hér kemur fram.

[23:30]

Það kemur m.a. fram í nál. minni hluta efh.- og viðskn. að forstöðumaður efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins hafi sagt á fundi í nefndinni að ekki yrði endanlega frá ýmsum hlutum gengið fyrr en búið væri að ganga frá samþykkt laganna. Vel má vera auðvitað að ekki sé hægt að hnýta alla enda, en mér sýnist of margt vera óljóst í frv. til þess að það sé boðlegt, ef menn hafa verið með þetta í huga í a.m.k. 10 eða 12 ár.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég mundi ekki hafa hér langt mál um þetta. Ég kemst þó ekki hjá því að minnast á nokkra þætti í starfsemi Þjóðhagsstofnunar sem koma fram í séráliti Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem átti m.a. sæti í þeim starfshópi sem undirbjó málið. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þessi reiknilíkön eru notuð við spágerð og áætlanagerð í efnahagsmálum en einnig í sérverkefnum af ýmsu tagi. Til marks um slík verkefni má nefna mat á áhrifum EES, ESB og evrunnar, stóriðju, loftslagssamninga, mismunandi nýtingar fiskstofna o.fl. Við má bæta verkefnum á sviði skatta og almannatrygginga.``

Hagræði af því að hafa þessi reiknilíkön öll á sama stað er auðvitað ljóst. En upplýsandi væri ef hæstv. forsrh. gæti frætt okkur um hvort búið sé að ganga frá hugmyndum um hvernig þessum reiknilíkönum verður fyrir komið og hvort hugsað verði til einhverra tenginga þarna. Mér er sérstaklega í huga það módel sem notað hefur verið við að gefa okkur upplýsingar t.d. um stóriðju vegna þess að ég tók eftir því að í ræðum nokkurra hv. þm. kom fram að traust þeirra til Þjóðhagsstofnunar og útreikninga þeirra og upplýsinga sem fram hafa komið að undanförnu var nær ómælt.

Ég get tekið undir það að mér þóttu býsna góð og notadrjúg þau gögn sem Þjóðhagsstofnun lagði okkur til um t.d. stóriðju á Austurlandi. Mér þykir það mjög mikilvægt vegna þess að nú hafa veður skipast svo í lofti að þau mál eru ekki öll í hendi og við gætum þurft á því að halda, vonandi fyrr en seinna, að fá hér nýjar tölur. Ég vænti þess að það verði þar af leiðandi tryggt að þeir ágætu hv. þm. sem lýst hafa yfir alveg sérstakri ánægju með og trausti á útreikninga Þjóðhagsstofnunar í þessu sambandi geti haldið því trausti og að það verði alveg tryggt og kristaltært hvar þetta módel verður hýst þannig að við séum viss um að hið sama reiknimódel verði notað þegar við förum að skoða stóriðjukosti á ný, og eins og ég sagði áðan, herra forseti, sem við vonum að verði sem allra fyrst.

Þau mál sem snúa að starfsmönnum eru síðan sérstakur kapítuli og búið er að ræða þau nokkuð. Það er athyglisvert að orðalag varðandi það hvernig ætlunin er að mæta þörfum starfsmanna er nokkuð breytt, þ.e. annað orðalag er í ákvæði til bráðabirgða í frv. heldur en manni virðist að hafi verið ætlunin þegar sá starfshópur sem undirbjó málið tók til starfa.

Herra forseti. Ég held að ég láti þetta duga að sinni um málið og geri ráð fyrir því að sú brtt. sem lögð hefur verið fram af minni hluta efh.- og viðskn. um sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis fái jákvæða meðhöndlun í efh.- og viðskn. og að við fáum síðan hér efnismikla umræðu um þá tillögu við 3. umr.