Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:35:31 (7846)

2002-04-19 10:35:31# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa borist fréttir þess efnis að neysla morfíns og tengdra lyfja hafi stóraukist á síðustu árum og í kjölfar þess fjölgi þeim sem láta lífið vegna of stórra lyfjaskammta. Fjölmiðlar greindu frá því að vísbendingar séu um að frá áramótum megi rekja fimm dauðsföll til ofneyslu eiturlyfja.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, segir að misnotkun morfíns hafi farið ört vaxandi og á síðasta ári hafi 77 fíklar sem sprauta sig með morfíni komið til meðferðar hjá SÁÁ. Jafnframt segir hann að hundruð sprautufíkla séu í landinu og fari þeir að sprauta sig með morfíni sé mikil hætta á ferð.

Lítill munur er á þeim skammti sem kemur fíklinum í vímu og skammtinum sem dregur hann til dauða. Stjórnvöld hafa gjarnan hrósað sér af því að hér sé allt á leið til betri vegar þegar rætt er um baráttuna gegn vímuefnanotkun. Í ljósi þess eru upplýsingar sem komið hafa fram á síðustu dögum sláandi, ekki síst vegna þess að vitneskjunni fylgir sú staðreynd að morfínið er í flestum tilvikum fengið gegn ávísun starfandi lækna.

SÁÁ hefur afhent landlæknisembættinu nöfn fimm lækna sem eru sagðir hafa ávísað ítrekað ótæpilegu magni morfíns til fíkla. Dæmi eru um að fíkill hafi fengið ávísanir frá lækni á morfín á 15 daga fresti í einhver ár. Viðkomandi er morfínfíkill en hefur að mati læknis hjá SÁÁ engin þau verkjaeinkenni sem réttlæta notkun morfíns en hann fékk einnig lyfseðla á fjölda róandi og örvandi lyfja.

Önnur frétt síðustu daga greinir frá því að einstaklingur fékk á árinu 1999 ávísanir á 920 morfíntöflur á 95 dögum. Það er alveg ljóst að illa kominn neytandi hefði getað tekið of stóran skammt í sprautuna af slíku magni og að sá skammtur var ekki afhentur vegna alvarlegra verkja. Viðkomandi einstaklingur var á þeim tíma illa haldinn af eiturlyfjafíkn og á köflum ekki sjálfráður gerða sinna. Það var og er algerlega óverjandi að afhenda honum slíkt magn af morfíni. Þrátt fyrir þá staðreynd ávísaði læknirinn þessum 920 morfíntöflum til hans. Það er engin afsökun fyrir því að ávísa slíku magni á svo stuttum tíma. Slíkt er ekki einu sinni gert vegna alvarlegra veikinda að afhenda sjúklingnum sjálfum slíkt magn í einu því þá eru lyf gefin undir eftirliti starfsmanns heilbrigðiskerfisis.

Viðkomandi læknir hlýtur að hafa gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgdi þessum ,,greiða``. Illa kominn neytandinn hefði getað tekið of stóran skammt í sprautuna eða selt öðrum með sömu afleiðingum. Er fíkillinn með brenglaða dómgreind? Ber hann ábyrgð á dauðsfalli sem verður af slíkri neyslu? Það held ég ekki. Hér er því um vítavert saknæmt athæfi að ræða hjá þeim sem ávísar á lyfið og því miður eru dæmin fleiri en ég hef nefnt þar sem læknir ávísar vísvitandi á skammta sem eru langt umfram það sem einstaklingi er ætlað að nota án þess að ástæða sé til vegna erfiðra veikinda, án eftirlits heilbrigðisþjónustunnar, heldur vegna augljósrar fíknar og að ætlunin er að selja öðrum fíklum hluta lyfjanna.

Þess eru einnig dæmi að læknir skrifi út í einu lagi til fíkils lyfseðla með mismunandi dagsetningar og mælist til þess að skammtarnir séu ekki teknir út í sömu lyfjaverslun. Er nema von að spurt sé: Hvernig getur þetta gerst? Við hvers konar eftirlitskerfi búum við og hvernig getur læknir brugðist svo algerlega því trausti sem til hans er borið?

Hér er áreiðanlega ekki um að ræða nema fá einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins. En þeir hafa á samviskunni að leika sér að og vanvirða einstaklinga og fjölskyldur ásamt því að kasta rýrð á störf og vekja tortryggni í garð starfssystra og -bræðra. Það verður að bregðast strax við. Þetta er ekki mál sem hægt er að vísa í nefnd.

Hér dugar ekkert tiltal, áminning eða svipting starfsleyfis. Ef þetta er allt saman rétt hafa þessir einstaklingar ekki bara brotið af sér í starfi, athæfi þeirra er saknæmt. Að ávísa ótæpilega morfíni eða öðrum efnum sem valda eða viðhalda fíkn er ekki meðferð, það er ekki lækning, það er sakhæft athæfi. Ég vil því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Í hve mörgum tilvikum hefur landlæknisembættið fengið ábendingar um óeðlilegar lyfjaávísanir lækna á síðustu fimm árum?

Í hve mörgum tilvikum leiddu þær ábendingar til ítarlegrar athugunar embættisins og um hve marga lækna er að ræða?

Í hve mörgum tilvikum leiddi athugun landlæknis til tiltals, áminningar eða leyfissviptingar?

Hefur eitthvert af þessum málum verið meðhöndlað sem sakamál? Þá hve mörg og að frumkvæði hvers?

Mun ráðherra beita sér fyrir hertum reglum, harðari refsingum og skilvirkara eftirlitskerfi með ávísun lækna á ávanabindandi lyf? Ef svo er, hvernig og hvenær má vænta þeirra úrbóta?