Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:50:22 (7850)

2002-04-19 10:50:22# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Þessi umræða er afar þörf og þakka ég hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hefja hana. Þessi mál eru alvarleg, og það er alvarlegt þegar fólk deyr af þeim sökum sem hér hefur verið talað um.

Eitt hefur ekki verið minnst á í umræðunni. Það er þáttur barna. Það eru mjög mörg börn sem eru á lyfjum sem fíklar hafa mikinn áhuga á að komast í og er ég þá að taka um ritalín sem dæmi, og það er amfetamínlyf. Ég held að ástæðan fyrir því að svo mikið er gefið af ritalíni og að börnum eru gefin geðlyf líka geti m.a. legið í því að heimili fyrir geðfötluð börn og ofvirk eru ekki nægjanlega mörg og veita ekki nægjanlega þjónustu. Þess vegna sé það svo, herra forseti, að til þess að börnin geti verið hæf á heimilum sínum vegna þess hvernig þau eru, þá þarf að gefa þeim gífurlega mikið magn af lyfjum sem þyrfti ekki að gera ef þjónusta á þessu sviði væri nægilega góð og mikil því hægt er að beita atferlismótandi aðferðum þar sem barnið hefur fleira fólk til stuðnings og aðhalds við sig en hægt er að gera á nokkru heimili.

Það skal einnig tekið fram að þetta tengist náttúrlega öllum eiturlyfjaheiminum. Ég hef heyrt dæmi um að jafnvel foreldrar nái ritalíni út á börnin sín af því að þau eru sjálf í neyslu og það er náttúrlega mjög alvarlegt mál.