2002-04-19 11:04:00# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanrmn. um till. til þál. um aðild að alþjóðasamþykkt um viðmiðanir fyrir menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um viðmiðanir fyrir menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa sem gerð var í Lundúnum 7. júlí 1995. Í samþykktinni eru ákvæði um lágmarksmenntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður skipstjóra, stýrimanna, vélstjóra og fjarskiptamanna um borð í fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd eða meira.

Aðild Íslands að samþykktinni kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur samgönguráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, til að uppfylla ákvæði samþykktarinnar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Utanrmn. er einróma í þeirri afstöðu sinni.