2002-04-19 11:05:20# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um alþjóðasamþykkt um viðmiðanir fyrir menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa og staðfestingu hennar.

Að mörgu leyti er hér um ágætismál að ræða sem kveður m.a. á um þjálfun áhafna fiskiskipa og grunnmenntun þeirra og ýmis önnur grundvallaratriði sem fylgja ber við siglingar og vakt um borð í fiskiskipum.

Ef ég veit rétt þá hafa aðeins tvö ríki samþykkt þessa ályktun. Við erum þá þriðja ríkið, er það ekki rétt? Auðvitað þarf fleiri ríki til að staðfesta þessa samþykkt svo að hún öðlist alþjóðlegt gildi. Eftir sem áður erum við skuldbundin af því sem við höfum samþykkt.

Fyrir þinginu eða í samgn. er hins vegar frv. um áhafnir fiskiskipa sem m.a. tekur mið af þessu máli sem við erum hér að samþykkja og þetta mál mun leggja okkur ýmsar skyldur á herðar varðandi þjálfun áhafna og annað sem að því kemur.

Þegar líta ber til þjálfunar áhafna fiskiskipa þá eiga, samkvæmt þessari samþykkt sem við erum að fjalla um, undirmenn að ganga vaktir undir handleiðslu yfirmanns og fá til þess leiðbeiningar, uppáskrift og eðlilega starfsþjálfun þannig að samþykktin leggur víðtækari kröfur á yfirmenn skipa eftir að hún hefur verið samþykkt og m.a. snýst það frv. sem er inni í samgn. um þá tilhögun alla. Þess vegna höfum við undirgengist ákveðnar skuldbindingar þegar að þessari samþykkt samþykktri. Til þeirra ber sérstaklega að líta þegar frv. kemur hér til umræðu, ef það kemur þá strax út úr nefnd. Ég tel þó eðlilegt að svo verði ekki og menn geymi sér það til næsta þings að fara betur yfir það mál. En það er alveg ljóst að samþykkt sú sem við erum með í höndunum og erum að ræða leggur á okkur kvaðir sem okkur ber að undirgangast. Ég tel að í frv. sem liggur fyrir samgn. sé ekki farið nákvæmlega að reglum sem í þessum reglugerðum og alþjóðasamþykktum eru. Ég vildi vekja athygli á því við þessa umræðu þannig að mönnum sé ljóst að þessi samþykkt leggur á okkur ábyrgð hvað varðar þjálfun undirmanna undir handleiðslu yfirmanna. Ef svo er að í frv. sem er í samgn. eigi að fækka yfirmönnum á skipum þá kem ég ekki auga á hvernig þjálfuninni verður við komið því það er nú einu sinni þannig að áhöfnin á að ganga vakt undir handleiðslu stýrimanns. En þegar aðeins tveir eru á skipi, þ.e. skipstjóri og 1. stýrmaður, þá ganga þeir 12 tíma vaktir. Er þá orðinn ansi lítill tími til þess að framfylgja því fyrirkomulagi sem m.a. þessi alþjóðasamþykkt kveður á um, þ.e. að fylgjast með og sjá til þess að þjálfun og eftirlit eigi sér stað því ekki gera menn mikið meira en að stjórna skipi úr brú hver á sinni á 12 tíma vakt. Ekki er heimilt samkvæmt alþjóðasamþykktum, m.a. þessari, að brúin sé mannlaus. Það er algerlega bannað. Þar af leiðandi komum við að því að ef það á að fækka yfirmönnum á skipunum en samt að uppfylla þessa alþjóðasamþykkt þá erum við alveg komin í kross við sjálf okkur.

Á þessu vildi ég vekja athygli. Að öðru leyti hef ég ekkert við þessa samþykkt að athuga. Hún er af hinu góða, kveður á um mörg atriði sem okkur ber að fylgja. Sem betur fer uppfyllum við nú þegar mikið af þeim skilyrðum sem eru í þessum reglugerðum. Ég vil bara vekja athygli á því að gangi breytingarnar í frv. eftir þá kann að vera að við stöndum frammi fyrir því að Alþingi ætli sér að samþykkja eitthvað sem gengur algjörlega í berhögg við þessa samþykkt sem við erum núna að fara að samþykkja. Á þessu vil ég vekja sérstaka athygli og mun gera þetta að umræðuefni þegar kemur að því að ræða frv. sem er í samgn. ef menn ætla að klára það á þessu vori án þess að gera þá á því breytingar sem falla að þessari alþjóðasamþykkt.