2002-04-19 11:11:37# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í örstuttu máli taka undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um þetta mál. Ef við samþykkjum hér aðild að alþjóðasamþykktum sem kveða á um ákveðin skilyrði varðandi mönnun bæði farþegaskipa og fiskiskipa --- mér skilst að fyrst og fremst sé verið að fjalla hér um minni skip --- og samtímis er í samgn. frv. til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa þá tel ég alveg einboðið, herra forseti, að þessi atriði séu skoðuð saman.

Ég vil spyrja hv. frsm. nefndarinnar hvernig samhengið sé hugsað. Að vísu er rétt að þessi alþjóðasamþykkt verður ekki skuldbindandi fyrr en líklega ein 15 ríki hafa fullgilt hana og þá ákveðinn mánaðafjölda eftir það. Nú hafa einungis tvö ríki þegar fullgilt eða staðfest þessa alþjóðasamþykkt, Rússland og Danmörk. Það er a.m.k. gefið upp hér. Getur því liðið ófyrirsjáanlega langur tími þar til 15 ríki hafa staðfest hana. Hvernig er þá sú staða hugsuð að við erum með samþykkt sem ekki hefur hreint skuldbindandi gildi en hlýtur óbeint og beint að hafa áhrif á lagasetningu okkar? Hvernig er þetta samspil hugsað í þennan óvissa tíma þangað til 15 ríki hafa staðfest þetta? Mér finnst að horfa þurfi á hlutina í samhengi þegar við erum með lagafrv. og þáltill. í tveimur nefndum sem lúta í raun efnislega að því sama í framkvæmd.

Eins væri líka ágætt ef hv. frsm. nefndarinnar, Sigríður Anna Þórðardóttir, gæti gert í örstuttu máli grein fyrir því hvaða áhrif þessi samþykkt mundi hafa á þá lagasetningu sem við erum nú með í höndunum um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Virðulegi forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að eðlilegra væri að þessir hlutir væru skoðaðir í samhengi og þá líka í tíma. Hvað á þetta að gerast hratt eða hvað sjá menn fyrir sér að þetta eigi að gerast hratt og hvaða áhrif hefur það á lagasetningar og framkvæmd þessara mála á Íslandi?