2002-04-19 11:27:28# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Út frá orðum síðasta ræðumanns vildi ég aðeins skerpa á því að ég tel fulla ástæðu fyrir okkur að endurskoða sjómannanámið eins og það er í dag. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að það fara náttúrlega allt of fáir í skólann. Það er áhyggjuefni hvernig við ætlum að viðhalda fiskiskipaflotanum í þeim vanda sem við blasir og nú þegar eru veittar undanþágur svo með ólíkindum er.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir einu. Ef við lítum á vélstjóramenntunina þá hafa útskrifast að meðaltali á ári um 20--25 vélstjórar með fjórða stigið. En hvert fara þeir að loknu námi? Aðeins tveir til þrír fara til sjós. Hinir fara í ágætlega launuð störf í landi vegna þess að það er kallað eftir tæknimenntuðum mönnum til starfa vegna tækniþróunarinnar hér á landi. Það þarf stöðugt fleiri með þekkingu á vélum.

Ég held að við þurfum að endurskoða sjómannamenntunina með þessa staðreynd í huga, t.d. hvernig er með fjórða stigs vélstjóramenntun. Við verðum að mennta sjómennina þannig að menntunin sé aðlæg sjómannsstarfinu og menn eigi líka möguleika á að fara í aðra skóla að loknu námi --- eins og að vísu er boðið upp á núna að hluta til.

En ég tek undir það með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að þetta er áhyggjuefni. Þess vegna kom ég að því hér áðan að ég vona að samþykkt STCW-F varðandi fiskimennina muni verða eins og vítamínsprauta í sjómannamenntunina og menn muni taka á þessu máli af krafti.