Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 11:29:40 (7865)

2002-04-19 11:29:40# 127. lþ. 123.8 fundur 716. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fjárfestingar hlutafélagsins) frv. 75/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

Norðurál hf. var í upphafi stofnað í þeim tilgangi að reisa og reka álbræðslu á Grundartanga. Í heimildarlögunum og fjárfestingarsamningi er ekki með beinum hætti kveðið á um heimildir Norðuráls til þátttöku í öðrum félögum eða öðrum atvinnurekstri. Lögum nr. 18/977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og aðalsamningi ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse Lonza hefur verið breytt á þá leið að Íslenska járnblendifélaginu og Íslenska álfélaginu er heimilt að taka þátt í öðrum félögum og öðrum atvinnurekstri. Hið sama átti við um Kísiliðjuna hf. þar til ríkissjóður seldi hlut sinn í verksmiðjunni. Engin rök standa til þess að takmarka starfsheimildir Norðuráls umfram það sem gildir um önnur sambærileg fyrirtæki hér á landi.

Í samræmi við þetta er lagt til að lögunum verði breytt á þá þá leið að kveðið verði á um að Norðuráli sé heimilt að taka þátt í öðrum félögum og jafnframt að stunda annan atvinnurekstur með því að stofna dótturfélög um þann rekstur. Með þessu er tryggt að sérákvæði laga nr. 62/1997 og fjárfestingarsamnings ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures og Norðuráls, gilda ekki um rekstur álbræðslunnar á Grundartanga. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri um fjárfestingar á vegum Norðuráls, þar sem félagið telst atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum samkvæmt þeim lögum.

Hæstv. forseti. Ég mæli með því að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.