2002-04-19 11:50:08# 127. lþ. 123.5 fundur 683. mál: #A samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum# þál. 12/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. utanrmn. um till. til þál. um aðild að samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó og bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingu á sjó og bókun við þann samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu, sem gerð voru í Róm 10. mars 1988. Samningurinn og bókunin eru meðal þeirra samninga sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem hryðjuverkasamninga og hvatt ríki til að fullgilda í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Samningurinn kallar á lagabreytingar hér á landi. Fyrir nefndina hefur verið lagt frumvarp dómsmálaráðherra til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og utanrmn. er einróma í afstöðu sinni til málsins.