2002-04-19 12:10:23# 127. lþ. 123.7 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[12:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. getum verið ósammála um atvinnustefnu stjórnvalda og við erum það auðvitað. Hitt er annað mál að mikið í þessum málum hér eru staðreyndir og á bak við staðreyndirnar felast jafnvel tölulegar upplýsingar sem hægt er að draga fram í dagsljósið. Sannleikurinn er sá að það er alveg sama þótt íslensk stjórnvöld segi að þau standi sig voða vel á umhverfissviðinu. Það verður ekki þannig. Eftirfylgnin þarf að felast í því hvernig stjórnvöld haga sér.

Herra forseti. Lái mér hver sem vill að ég skuli halda því fram að íslensk stjórnvöld skreyti sig hér með vetnisfjöðrum og setji fjármuni í einhverja svona vetnisframhlið. En hvað er á bak við þá fínu framhlið og þau fínu áform? Þar er bullandi, mengandi stóriðjustefna. Þetta er tvískinnungur sem við eigum ekki að láta standa okkur að. Við eigum að hafa efni á því og möguleika að vera með hreinan skjöld. Ég hef sagt áður úr þessum ræðustól og segi enn einu sinni og nú við hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur: Ég skal standa með stjórnvöldum í vetnisvæðingunni í gegnum þykkt og þunnt. Ég skal vaða eld og brennistein með hv. þm. til þess að Ísland geti orðið fyrsta vetnisvædda hagkerfið í veröldinni. En það getur aldrei orðið nema við látum af stóriðjustefnu stjórnvalda. Það er ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana.