Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 13:55:20 (7887)

2002-04-19 13:55:20# 127. lþ. 123.9 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota þetta form sem andsvarið er til að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að minnast á það hvernig þjónustuhlutverk Tryggingastofnunar er ítrekað í þessum lögum. Verið er að snúa hlutverki hennar við þannig að henni beri að þjóna og upplýsa, og útskýra réttindi bóta --- verið er að gera rétt lífeyrisþegans mun ríkari, og skyldur Tryggingastofnunar sömuleiðis. Þarna er verið að innleiða nýja hugsun í almannatryggingarnar sem ég fagna mjög.

Varðandi tryggingaráð tek ég undir með hv. þingmanni. Ég tel nauðsynlegt að Tryggingastofnun, með alla þá fjármuni og alla þá umsýslu sem þar er innan dyra, hafi yfir sér stjórn. Í dag lít ég á svo á að tryggingaráð sé í raun stjórn stofnunarinnar sem eigi að vera forstjóra til liðsinnis. Þetta eru allt þættir sem þurfa auðvitað að koma fram í þessari umræðu. Ég ætlast ekki til þess að hv. þm. svari þessu andsvari mínu en vildi a.m.k. koma þessum skoðunum mínum á framfæri í þessu andsvari.