Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:28:59 (7897)

2002-04-19 14:28:59# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil bæta aðeins örfáum orðum inn í þessa umræðu.

Ég verð að segja að ég hef nokkrar efasemdir um ágæti þessa frv. til laga um persónuverndina sem við ræðum. Það er ekki svo að ég átti mig ekki á því að hér er um afskaplega flókið og erfitt mál að ræða. En ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni þegar hún skilur þróun mála þannig að með þessari breytingu á gildandi lögum sé í raun verið að búa til í lögum undanþáguákvæði, heimildarákvæði, sem í sumum tilfellum er á hendi vinnuveitenda og annarra þeirra sem með þá ákvörðun fara og geta vísað til nauðsynjar þess að fram fari fari fram sjónvarpsvöktun í öryggis- og eignavörsluskyni. Það er breyting frá því sem áður var. Til þessa þurfti heimild frá Persónuvernd. Nú á sem sagt að veita þessa heimild lögum samkvæmt og síðar meir á það að vera samkvæmt mati Persónuverndar og nánari reglum hennar. Við erum að feta okkur hænufet áfram í þá veruna að gera þetta kleift.

[14:30]

Herra forseti. Mér bregður dálítið í brún við að lesa grg. með frv. sjálfur. Þar lýsa frumvarpshöfundar undir hvaða kringumstæðum svona sjónvarpsvöktun gæti átt rétt á sér. Því er að vísu haldið fram í grg. að heimild til vöktunar beri að skilgreina mjög þröngt. Þar eru og rakin dæmi um ómálefnalega vöktun, eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingahúsum o.s.frv.``

Ég spyr: Ber að skilja það svo að með þessari breytingu verði þetta seinni tíma skilgreining Persónuverndar? Erum við þá að færa þetta strik lengra en er í núgildandi lögum, þannig að það þurfi ekki heimild Persónuverndar fyrir fram til þess að koma upp slíkri vöktun? Nú dettur mér ekki í hug auðvitað að nokkur láti sér til hugar koma að setja á sjónvarpsvöktun á stöðum af þessum toga, en hver veit?

Ég spyr: Hvað þýðir í textanum það sem kallað er ómálefnaleg vöktun, og þar með ólögmæt? Hvar liggur það mat núna að breyttu breytanda? Í lagatextanum sjálfum, eins og hann birtist í þessu frv., virðist eftir því sem ég fæ best séð, að þeir sem vöktunina setja upp verði að meta það sem svo að hún sé í öryggis- og eignavörsluskyni. Það er auðvitað býsna loðið og teygjanlegt og nær býsna langt ef menn vilja hafa það þannig.

Ég hef haft nokkrar efasemdir um málið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta er ekki auðvelt viðureignar og menn verða að feta sig áfram í síbreytilegum heimi. En betra er að gera ekki neitt en eitthvað rangt. Þannig er kannski í því ljósi sem ég tek hér til máls.

Ég ætla hins vegar að nota ferðina og spyrja hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, formann nefndarinnar, hvort komið hafi til tals í nefndinni annað atriði sem frv. náði til reyndar ekki til í upphafi en er í gildandi lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hvað með það sem lýtur að tölvupósti og netnotkun starfsmanna? Maður fylgst með því og þótt lögin sem taka til þess séu frá árinu 2000 og þau ákvæði sem lúta að þeim þætti mála séu ný af nálinni og enn ekki mikil reynsla komin á þau þá heyrir maður af því víða að þar sé ekki allt með felldu og að starfsmenn séu oft og tíðum í óljósri stöðu þegar kemur að þeim málum.

Í því sambandi dettur mér í hug mikið fjaðrafok fyrir skömmu þegar Samkeppnisstofnun gerði húsleit hjá olíufélögunum. Raunar var það aðallega Verslunarráð sem kvartaði yfir því að við þessa húsleit hefðu lögreglan og Samkeppnisstofnun lagt hald á tölvugögn og þar með svokölluð einkagögn starfsmanna. Nú veit ég ekkert hvaða reglur gilda hjá olíufélögunum um þau efni. Ég bið hv. þm. hins vegar að hugsa aðeins með mér um spurninguna: Ef olíufélögin hefðu sett þær reglur sem lög heimila, að allur einkapóstur sé póstur viðkomandi vinnuveitanda, var þá ekki sjálfsagt og eðlilegt að lögreglan og Samkeppnisstofnun legðu hald á þann póst?

Nú veit ég ekkert um það mál. Ég bið hv. þm. að velta því upp með mér hvernig þau mál hefðu skipast ef við gæfum okkur að olíufélögin hefðu gert starfsmönnum sínum viðvart um að allur þeirra einkapóstur væri opinn og mætti vakta af hálfu vinnuveitandans. Bæri þá að líta svo á að hann væri ekki lengur ,,eign`` viðkomandi starfsmanns heldur fyrirtækisins og þar með væri þessi athugasemd Verslunarráðs algjörlega út í bláinn?

Þetta er ekkert tengt þessu frv. en tengist þráðbeint viðfangsefni þess og því sem nefndin hefur fengist við á síðustu vikum og mánuðum. Við ræðum þessi mál í þinginu og munum óhjákvæmilega ræða þau áfram á næstunni, á næstu árum. Þessi mál eru breytingum háð.