Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:35:50 (7898)

2002-04-19 14:35:50# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil raunar vangaveltur hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar mjög vel út frá grg. sem hv. þm. las upp, þ.e. dæmi um ómálefnalega vöktun, með leyfi forseta:

,,Vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingahúsum o.s.frv.``

Út frá þessari upptalningu er ósköp eðlilegt að menn fari að velta fyrir sér hvað er verið að gera. Hér er á engan hátt verið að víkka út það sem er í gildi. Það er í rauninni verið að ramma þessar reglur betur inn. Það er mjög þröngt mat. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í framsögu minni, að hér er eingöngu um einkaaðila að ræða, eins og sjoppur, hótel og fleiri staði. En það má kannski líka hugleiða hvort atferli sumra, og ég hef kannski í huga það sem gerðist á hóteli á Austurlandi þar sem var komið fyrir myndavélum inni á klósetti eða einhvers staðar, hafi ýtt frekar á að taka þetta sérstaklega fram. Eftirlitsmyndavélar má einungis setja upp í öryggis- eða eignavörsluskyni og ekki út af neinu öðru. Auðvitað verður að fara mjög varlega og takmarkanirnar að vera mjög skýrar. Þar af leiðandi er matið á þessu mjög þröngt.

Okkar ágæti gestur, Páll Hreinsson, fór vel yfir þetta og tók m.a. sem dæmi að komið hefði fram ósk um að setja upp myndavélar í kennslustofu --- það er náttúrlega alveg út í hött --- til að fylgjast með hegðun barna. En um leið væri verið að fylgjast með því hvernig kennarar haga sér o.s.frv. Það kæmi t.d. alls ekki til greina og mundi ekki falla undir þetta.