Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:41:19 (7901)

2002-04-19 14:41:19# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að í upphafi megi segja að öll sú mikla tækni sem þróast hefur undanfarin ár, tölvutækni, sjónvarpstækni, gervihnattatækni o.s.frv., geri það að verkum að tækifærin til að láta alls konar tæki og tól fylgjast með einstaklingum og því sem þeir gera og ná með því að taka upp og safna viðkvæmum upplýsingum, leggi okkur mjög ríkar skyldur á herðar. Ég hef verið þeirrar skoðunar frá því að þessi umræða kom upp að við eigum að fara mjög varlega og setja mjög strangar reglur, eins strangar reglur og kostur er.

Við þurfum að tryggja með öllum tiltækum ráðum að einkalíf manna sé virt eins og hægt er. Það á að vera útgangspunkturinn í þeirri umræðu sem við erum að efna til og að mínu viti útgangspunkturinn í því regluverki sem við erum að setja og ætlum að láta gilda um þessa hluti.

Ég tek því undir margt í þeim hugleiðingum sem tveir hv. þm., Kolbrún Halldórsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson, hafa lagt fram í þessari umræðu, enda segir þetta litla frv. sem við fjöllum um hér, sem er nú reyndar ekki nema fimm greinar, í hvaða tilvikum megi safna efni með viðkvæmum persónuupplýsingum við rafræna vöktun og hvernig skuli fara með slíkt efni. Þetta er efni þess frv. sem við hér ræðum.

Það er ljóst að í 1. gr. er kveðið á um að hér sé um undantekningarákvæði að ræða, þ.e. að þrátt fyrir að skilyrði 1. mgr. 9. gr. séu ekki uppfyllt sé heimilt, í tengslum við rafræna vöktun, að safna efni sem verður til við vöktunina, svo sem hljóði og myndefni með viðkvæmum persónuupplýsingum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau eru síðan talin upp.

Í fyrsta lagi er talað um að þau fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni. Við lestur grg. er í sjálfu sér ekki farið mikið í að skilgreina nákvæmlega hvað hér er við átt, þ.e. öryggis- og eignavörslu og því er lagt á herðar Persónuverndar að meta slík mál vandlega.

Ég á reyndar sæti í allshn. en sat ekki fund þegar málið kom út úr nefndinni. Ég hefði talið mjög æskilegt að við hefðum reynt að skilgreina þetta frekar en gert er. Allar slíkar upptökur frá stöðum sem almenningur getur sótt geta verið mjög viðkvæmar. Það er mjög vandmeðfarið, valdið til að heimila að taka upp slíkt efni.

[14:45]

Þá er ekki síður vert að nefna hér 2. tölul. 1. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,2. að það efni sem til verður við vöktunina`` --- þessa rafrænu vöktun, þessar upptökur --- ,,verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar;`` --- svo kemur undantekningarákvæðið --- ,,heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu;``

Virðulegi forseti. Enginn telst sekur fyrr en sekt hans hefur verið sönnuð. Það getur því verið mjög matskennt þegar við tölum um refsiverðan verknað. Það er líka til þess að líta að vöktunin eða upptakan þarf kannski ekki að lúta beint að því sem gerðist heldur getur kannski varpað ljósi á eitthvað sem tengist þessu. Er í þeim tilvikum hægt að afhenda lögreglunni þessar upplýsingar? Ég held að það sé ágætt að beina þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar hvort vöktunin geymi með sér upplýsingar sem sýna beint að refsiverður verknaður hafi verið framinn eða hvort upplýsingarnar í vöktuninni sýni aðeins aðdraganda eða eitthvað sem getur varpað ljósi á þetta. Hvaða skilyrði eru sett í þessum efnum?

Í miðbænum eru t.d. myndavélar og ef eitthvað gerist þar, má þá taka allt það efni sem tekið er upp á þeim vélum og nota það? Má túlka þetta þannig? Ég held að mjög mikilvægt sé að menn séu með það á hreinu hvað þarna sé á ferðinni og hvað menn eru að tala um. Hið sama á vitaskuld við um upplýsingar um slys því að það getur verið ýmislegt sem sýnir aðdragandann eða eitthvað sem gerist á undan. Það getur verið vandmeðfarið að heimila mjög víðfeðma túlkun á þessu. Ég held að þetta sé eitt af því sem við verðum að hugleiða í þessu samhengi.

Í þessari umræðu hafa einnig verið rædd orð sem koma m.a. fyrir í 3. tölul. 1. gr. frv. sem við ræðum hér, þ.e. orðin ,,málefnaleg ástæða``. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og fleiri hafa farið yfir þetta og velt því upp að þetta sé nú ekki skýrt sem skyldi.

Ein meginröksemdin sem hefur verið sett fram í þessu máli er sú að það eigi að tryggja ákveðna skilvirkni. Hins vegar mega þeir hagsmunir sem felast í skilvirkni afgreiðslu og því að við minnkum skriffinnsku og annað þess háttar, aldrei verða á kostnað persónuverndarinnar. Þeir mega aldrei verða á kostnað einkalífsins. Þetta er grundvallaratriði sem við þurfum að líta mjög vandlega til.

Síðan hörmungaratburðirnir áttu sér stað í Bandaríkjunum þann 11. september hefur mér nefnilega fundist að ríkur vilji hafi verið mjög víða til þess að herða á öllum reglum í kjölfarið og stundum hefur mér þótt að menn noti þann atburð til þess í raun að víkka út heimildir til alls konar vöktunar og eftirlits umfram það sem áður var. Maður veltir því líka fyrir sér og spyr: Af hverju er þetta eftirlit allt orðið svona miklu ríkara og alvarlegra en áður var? Hvað í samfélaginu kallar á miklu meira eftirlit? Við erum að mörgu leyti einfaldlega bara að eltast við tæknina. Við eigum nýja möguleika í tækninni en það er ekkert í samfélaginu sem kallar á allt þetta aukna eftirlit. Mér finnst stundum í þessari umræðu að menn séu að hlaupa miklu meira eftir nýjustu tækni og þeim möguleikum sem eru uppi en að velta fyrir sér hvort allt þetta eftirlit þurfi, hvort það sé nauðsynlegt. Hvernig var þetta hér á árum fyrr? Komust menn af án alls þessa eftirlits?

Án þess að ég sé að gera nokkrum stjórnmálaflokkum eða einstaklingum eitthvað upp þá hefur nú sá stjórnmálaflokkur sem er stærstur hér á þingi oft og tíðum kennt sig við frelsi einstaklingsins og reynt að halda því á lofti, a.m.k. á hátíðisdögum og hátíðisstundum. Það finnast mér vera sjónarmið sem kannski ekki er gert eins hátt undir höfði og ætti að vera.

Þá eru ekki síður athyglisverðar hugleiðingar hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur frá því fyrr í dag um undanþágur sem kveðið er á um í 3. gr. og reyndar komu dálítið til umræðu í allshn. Um er að ræða tilvik þegar sá sem upplýsingarnar lúta að veit af því að einhvers konar vöktun er í gangi, en spurningin er í hvaða tilvikum heimilt sé að afhenda þessar upplýsingar án þess að láta þann vita sem upplýsingarnar varða. Hér er a.m.k. í fjórum töluliðum kveðið á um undanþágur og undanþágan er náttúrlega metin af þeim sem safnar þessum upplýsingum. Þeim aðila sem safnar þessum upplýsingum er þá í sjálfsvald sett, svo framarlega sem hann getur hengt það mat sitt á þessa fjóra töluliði, að afhenda þriðja aðila upplýsingar um einhvern sem er verið að vakta.

Í 1. tölulið þessarar undanþágugreinar segir m.a að:

,,1. óframkvæmanlegt er að láta hinn skráða vita eða það leggur þyngri byrðar á ábyrgðaraðila en með sanngirni má krefjast,``

Í þessu tilviki er það þá sá sem safnar upplýsingunum sem vegur það og metur hvort það leggi á hann einhverjar byrðar eða hvort það teljist sanngjarnt að hann fái að afhenda þriðja aðila upplýsingar á kostnað þess sem upplýsingarnar lúta að. Þetta er vitaskuld mjög víðtæk og víðfeðm undanþága og það er fyrst og fremst lagt á herðar þess sem safnar upplýsingunum að meta hana.

Í öðru lagi segir:

,,2. ætla má að hinum skráða sé þegar kunnugt um vinnsluna,``

Það er væntanlega vinnsla þriðja aðila, mundi maður ætla, þó ekki sé sjálfgefið að skilja það þannig, því þegar verið er að safna þessum upplýsingum þá verða menn að fara mjög varlega og menn eiga að vera upplýstir um það. Jafnvel þó að þeim sem verið er að safna upplýsingum um sé kunnugt um að einhver annar sé að vinna einhverjar annars konar upplýsingar þá er dálítið langsótt að láta það duga sem undanþágu fyrir því að afhenda þetta þriðja manni, einkanlega í ljósi þess útgangspunkts sem ég lagði upp með í ræðu minni, að meginatriðið er náttúrlega að reyna að vernda og tryggja einkalíf einstaklinganna. Það er m.a. grundvallarregla sem finna má í stjórnarskránni og við göngum almennt út frá og viljum virða. Við verðum að gæta okkar í öllu þessu kapphlaupi við tímann og tæknina og við að fylgja eftir vísindunum og öllum möguleikum þeirra, svo að við förum ekki fram úr okkur. Við verðum að rifja upp þá grundvallarhagsmuni sem einstaklingar hafa af því að fá notið friðhelgi einkalífs. Mér finnst stundum þessum sjónarmiðum ekki gert nægilega hátt undir höfði.

Þriðja undanþágan er:

,,3. lagaheimild stendur til skráningar eða miðlunar upplýsinganna ...``

Kannski er erfitt í sjálfu sér að gagnrýna það. Við göngum út frá því að á bak við slíka hluti séu nákvæmar reglur og skýrar heimildir.

Í fjórða lagi segir:

,,4. hagsmunir hins skráða af því að fá vitneskju um upplýsingarnar þykja eiga að víkja fyrir veigamiklum almannahagsmunum eða einkahagsmunum, þ.m.t. hagsmunum hans sjálfs.``

Enn og aftur er lagt á herðar þess sem safnar upplýsingunum að meta þetta.

Ég tel að allir þessir hlutir beri það með sér að þeir hafi ekki verið hugsaðir sem skyldi. Við megum ekki tapa okkur í skilvirkninni, tapa okkur í því að skriffinnska minnki, tapa okkur í því að ekki safnist um of verkefni hjá stofnunum o.s.frv., ef það er á kostnað jafnmikilla hagsmuna og friðhelgi einkalífs. Þetta er algjört grundvallaratriði sem við verðum að huga að og passa mjög vandlega.

Kannski er það tímanna tákn sem kemur fram í greinargerð á bls. 4 og menn hafa nú vikið að hér áður. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta. Þar segir um 1. gr. sem ég fjallaði örlítið um fyrr í ræðu minni:

,,Í fyrsta lagi þarf vöktunin að vera nauðsynleg og fara fram í öryggis- og eignavörsluskyni, sbr. ákvæði 1. tölul. Skv. 7. og 8. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er lögmæti rafrænnar vöktunar háð því að hún eigi sér málefnalegan tilgang og sé nauðsynleg fyrir viðkomandi.``

Þessi málefnalegi tilgangur og að eitthvað sé nauðsynlegt fyrir viðkomandi er náttúrlega mjög matskennt og alltaf matskennt á kostnað þess sem upplýsingarnar lúta að.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Til skýringar er hér, að því er varðar rafræna vöktun, lögð til sú viðmiðun að fari hún fram í öryggis- og eignavörsluskyni teljist hún eiga sér málefnalegan tilgang.``

Ef vöktun fer sem sagt fram í öryggis- og eignavörsluskyni þá telst hún eiga málefnalegan tilgang. En öryggis- og eignavörsluskynið er ekki á neinn hátt skilgreint í frv. og því segir þetta kannski óskaplega lítið og er að litlu leyti til þess fallið að skýra tilganginn sem með þessu er.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Í áskilnaði um nauðsyn felst m.a. að þeim sem vaktar ber að meta kosti og galla þess að viðhafa slíka vöktun og falla frá vöktun verði niðurstaða slíks mats sú að vinnslan sé ekki nauðsynleg.``

Ég er nú ekki frá því, virðulegi forseti, að þetta sé eitthvert ráðuneytismál sem kannski er ekki sjálfgefið að skilja svona í einu vetfangi. En ég mun gera mitt besta.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

,,Vera kann að fyrirtæki hafi sérstaka þörf fyrir að vakta svæði þar sem takmarkaður fjöldi fólks fer um að jafnaði, t.d. á vinnustað. Skilyrði um sérstaka nauðsyn getur t.d. verið uppfyllt ef vöktun er nauðsynleg til að tryggja öryggi starfsmanna eða hindra að hættuástand skapist.``

Það er eins og að af þessu megi ráða að menn séu nýbúnir að stofna vinnustaði, að þeir séu algjörlega nýir í samfélaginu og að menn séu fyrst að átta sig á því nú að upp kunni að koma sú staða á vinnustað sem kallar á einhver sérstök vandræði sem nauðsynlegt er að hafa sjónvarpsvélar til þess að fylgjast með.

Þó segir hér áfram, með leyfi forseta:

,,Almennt ber þó að túlka heimildir til vöktunar á vinnustað þröngt og gæta þess að virða einkalífsrétt starfsmanna, ...``

Talin er sérstök þörf á að taka það fram í greinargerðinni að virða beri einkalífsrétt starfsmanna. Þó er kveðið á um þetta í stjórnarskránni sjálfri og hefði því kannski ekki verið sérstök ástæða til þess að þurfa að taka það hér fram. Það er þetta sem ég er að segja þegar ég vek máls á því að við erum aðeins að gleyma okkur í þessu öllu saman. Við eðlilegar aðstæður hefði ekki þurft að taka sérstaklega fram í greinargerð að rétt væri að virða einkalífsrétt starfsmanna. Það er eitthvað sem við göngum út frá sem sjálfgefnu. En í þessum undanþáguákvæðum er talið nauðsynlegt að rifja það upp.

[15:00]

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

,,... m.a. rétt þeirra til að halda út af fyrir sig félagslegum og persónulegum samböndum á vinnustað.`` --- Ég held að það sé rétt að endurtaka þetta: ,,... m.a. rétt þeirra til að halda út af fyrir sig félagslegum og persónulegum samböndum á vinnustað.``

Það er sérstaklega tekið fram að þeir hafi rétt á þessu. Það er ekki eins þeir hafi rétt á þessu þrátt fyrir nauðsynina á vöktuninni. Það er farið að snúa öllum þessum hlutum dálítið á haus. Þetta eru verðmætin sem á að vernda --- hitt ætti að vera undanþága. En í greinargerðinni er sérstaklega tekið fram að þeir hafi þó rétt til að halda út af fyrir sig félagslegum og persónulegum samböndum á vinnustað. Það er talið nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram.

Svo segir hér, með leyfi forseta:

,,Lögmæti vöktunar á vinnustað sem miðar að því að mæla gæði vinnu og afköst starfsmanna er m.a. háð því að starfsmenn hafi fengið nauðsynlega fræðslu um tilvist hennar, eftir atvikum við gerð ráðningarsamnings eða með öðrum sannanlegum hætti og að samkvæmt skipulags-, framleiðslu- eða öryggissjónarmiðum sé slíkrar vöktunar þörf.``

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að endurtaka þetta. Ég vil endurtaka þessa setningu í heild sinni því að hún er nú svona ákveðin snilld á sinn hátt. Með leyfi forseta:

,,Lögmæti vöktunar á vinnustað sem miðar að því að mæla gæði vinnu og afköst starfsmanna`` --- þ.e. hvernig eru starfsmennirnir og hvernig er vinnan, það verður náttúrlega að hafa þetta allt undir kontról, þannig er eftirlitssamfélagið, það verður náttúrlega að taka þetta allt saman upp --- ,,er m.a. háð því að starfsmenn hafi fengið nauðsynlega fræðslu`` --- það er nú eðlilegt og skynsamlegt --- ,,um tilvist hennar, eftir atvikum við gerð ráðningarsamnings eða með öðrum sannanlegum hætti`` --- og svo kemur snilldin hérna í lokin --- ,,og að samkvæmt skipulags-, framleiðslu- eða öryggissjónarmiðum`` --- þ.e. skipulagi á vinnustað, væntanlega, framleiðslu á einhvers konar vöru --- ,,sé slíkrar vöktunar þörf.``

Af hverju hefur samfélag okkar breyst svona svakalega mikið? Eftir hverju erum við í raun að hlaupa? Hvað gerir það að verkum að skipulags-, framleiðslu- og öryggissjónarmið á vinnustað geti réttlætt að sjónvarpsvöktun sé á fólki allan sólarhringinn eða á meðan það er á vinnustað? Erum við ekki einhvers staðar að missa fótanna í þessu? Erum við ekki einhvers staðar komin þar sem við ættum kannski ekki að vera? Stundum finnst mér rétt að við hugsum aðeins til baka og veltum fyrir okkur, kannski með heimspekilegum hætti, þeim hagsmunum sem við viljum vernda og hvers konar samfélag við viljum hafa, þegar það er talið réttlætanlegt, vegna skipulags-, framleiðslu- og öryggissjónarmiða, að vakta starfsfólk á vinnustað á meðan það er þar og taka þarf sérstaklega fram að fólk megi hafa félagsskap og eiga persónuleg sambönd á vinnustöðum. Það þarf að taka það sérstaklega fram í greinargerð.

Síðan kemur hér í þessum merka parsus í þessari greinargerð, sem þó hefur komið til umræðu áður, dæmin um ómálefnalega vöktun og þar með ólögmæta, með leyfi forseta:

,,Dæmi um ómálefnalega vöktun, og þar með ólögmæta, er vöktun sem leiðir til þess að einstökum hópum manna verði mismunað, svo sem ef hún beinist að hópum á grundvelli skoðana þeirra, kynferðis, uppruna, kynþáttar eða þjóðernis.``

Það sem vekur mann til sérstakrar umhugsunar er af hverju þarf að taka þetta fram. Þetta er eiginlega bara ,,common sense``. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um að við séum að missa okkur í þessu öllu saman. Svo kemur náttúrlega þessi parsus í lokin sem menn hafa vakið sérstaka athygli á, með leyfi forseta:

,,Vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingahúsum o.s.frv.``

Þetta ber eiginlega með sér, virðulegi forseti, hugmyndaflugið sem menn hafa, þ.e. að taka þurfi sérstaklega fram að vöktun af þessum toga sé ólögmæt. Það er ekki nema von að menn séu dálítið hugsi yfir þróun þessara mála.

Með þessu er ég ekki að halda því fram að þetta tiltekna frv. sé afleitt í alla staði. Ég vil fyrst og fremst vekja eftirtekt á þessari hugsun, hvar við erum stödd í hugmyndafræðinni og afstöðu okkar til eftirlitssamfélagsins sem við erum eiginlega að fara að taka eins og það sé sjálfgefið, líkt og það sé allt í besta standi, allt í lagi og taka þurfi sérstaklega fram að vöktun í mátunarklefum og á salernum sé ólögmæt. Er nema von að menn staldri aðeins við þetta? Og í hótelherbergjum og í káetum. Það er nú reyndar kannski orð sem tilheyrir frekar fortíðinni að vera að tala um káetur en það var oft talað um káetur í skipum. Svo eru vínveitingahúsin talin með. En það hlýtur nú að breytast. Menn hljóta að þurfa að athuga hverjir þar eru á ferðinni.

Svo segir hér áfram, með leyfi forseta:

,,Óheimil er hins vegar uppsetning eftirlitsmyndavéla sé þeim gagngert beint að híbýlum nágranna.``

Enn og aftur vek ég eftirtekt á því sem menn telja ólögmætt. Enn og aftur vil ég vísa til stjórnarskrárákvæða sem kveða á um vernd friðhelgi heimilisins. Menn virðast einhvern veginn horfnir frá þessum grundvallarsjónarmiðum og þurfa að taka þetta sérstaklega fram í greinargerðum. Þetta er svo sjálfsagt.

Nei, virðulegi forseti, ég held að mikilvægt sé að þingmenn fari að hugsa um þessa hluti og forgangsraða á annan hátt en gert hefur verið undanfarið.

Ég ætla svo að leyfa mér, virðulegi forseti, að fjalla aðeins um undanþáguákvæðin í 3. gr. og þá greiningu sem þar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Meginreglan samkvæmt ákvæðinu er sú að láta skal hinn skráða vita um leið og upplýsinga er aflað. Ábyrgðaraðili vinnslu í skilningi lagaákvæðisins er sá sem safnar upplýsingunum og ákveður tilgang vinnslunnar.``

,,Hinn skráði`` er viðkomandi kallaður í þessu merka frumvarpi. Þetta eru ekki lengur einstaklingar heldur ,,hinir skráðu``.

Síðan er hér í grg. fjallað um, reyndar ekki á mörgum síðum en alla vega nokkrum málsgreinum, það hvenær veita má þessa undanþágu og vitnað til ýmissa erlendra laga og tilskipana því til stuðnings.

Svo segir hér í grg., með leyfi forseta:

,,Þá er lagt til að lögfest verði ný undanþága`` --- með öðrum orðum er verið að víkka út undanþáguákvæðin --- ,,frá tilkynningarskyldunni, sbr. 4. tölul. 4. mgr., en samkvæmt því verður ekki skylt að tilkynna hinum skráða um vinnslu persónuupplýsinga ef hagsmunir hans þykja eiga að víkja fyrir veigamiklum almannahagsmunum eða einkahagsmunum eða hagsmunum hans sjálfs. Þessi undanþága er nánast samhljóða þeirri undanþágu er fram kemur í 1. mgr. 30. gr. dönsku persónuupplýsingalaganna.``

Það má kannski spyrja: Af hverju má hún ekki vera algerlega samhljóða? Hér segir að hún sé nánast samhljóða. Það hefur verið dálítil lenska hjá þeim sem hér ráða ríkjum í dómsmálum reyni að sníða ákvæðin ekki eins þröngt og þau eru í löndunum í kringum okkur.

,,Ákvæðinu er einvörðungu hægt að beita að undangengnu mati á hverju tilviki fyrir sig. Einkahagsmunir sem heimilt er að verja samkvæmt ákvæðinu eru t.d. viðskiptahagsmunir, sem sanngjarnt er að leynd ríki um, þagnarskylda um einkahagsmuni þriðja manns og vernd mannréttinda þriðja manns. Sem dæmi um tilvik þar sem kæmi til greina að beita undanþágunni má nefna mál sem barnaverndarnefnd rannsakar. Við slíka rannsókn eru oft veittar upplýsingar um einstaklinga og í mörgum tilfellum eru hagsmunir barnsins af því að tilkynningarskyldu verði ekki sinnt ríkari en hagsmunir hins skráða`` --- sem er einstaklingur og rétt að halda því til haga --- ,,af því að fá upplýsingar um skráninguna.``

Ég hef, virðulegi forseti, farið yfir nokkuð af því sem hér kemur fram og reynt að vekja athygli á því að við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar um eftirlitssamfélagið. Við eigum ekki að rýmka út eða veita frekari undanþágur í hvert skipti sem ný tækni verður til sem gerir kleift að taka upp og skrá upplýsingar um einstaklinga. Við verðum að tryggja að fólk njóti persónufrelsis og frelsis til þess að sinna sínum persónulegu áhugamálum án þess að eiga sífellt það á hættu að verið sé að taka það upp eða safna um það upplýsingum. Þegar menn þurfa að taka það sérstaklega fram að ómálefnalegt sé að taka upp í mátunarklefum og á salernum þá finnst mér eins og við höfum einhvers staðar villst af leið.

Það breytir þó ekki hinu, virðulegi forseti, að í sjálfu sér er þetta frv. engin vatnaskil í þessum efnum. Ég held hins vegar að það sé hollt fyrir okkur að hugleiða hvort við séum á réttri leið.