2002-04-19 15:29:53# 127. lþ. 123.20 fundur 427. mál: #A almenn hegningarlög og refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns (hryðjuverk)# frv. 99/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hann varðar skilgreininguna á hryðjuverkum. Umræða í nefndinni um öll þessi mál varð mjög fín. Við ræddum t.d. muninn á skemmdarverkum og hryðjuverkum. Kannski er fyrirvari minn af tilfinningalegum toga, þá e.t.v. vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem við tölum um hryðjuverk í íslenskum lögum. Einhvern veginn erum við komin að hluta til inn í þennan raunverulega heim sem okkur hefur, sem betur fer, verið hlíft við, þ.e. að þurfa að ræða um hryðjuverk og taka þau upp í lögin okkar. Í rauninni er þetta frv. fyrst og fremst til að taka á þeim samþykktum sem Ísland er búið að undirrita. Það kemur fram í nál., með leyfi virðulegs forseta:

,,Með frv. eru gerðar nauðsynlegar breytingar á refsilögum til að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt þremur alþjóðasamþykktum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum. Þetta eru alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. des. 1997, alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. des. 1999 og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 28. sept. 2001.``

Þetta mál hefur líka að hluta til auðvitað verið rætt í utanrmn. og aðalatriðið er, eins og kemur fram í nál., að við göngum ekki lengra en samþykktir kveða á um. Hins vegar urðu mjög fróðlegar umræður um hryðjuverk og skemmdarverk. Á meðan við höfðum ekki þetta orð í okkar lögum töluðum við frekar um skemmdarverk, og þá sáum við t.d. að sprengingarnar á Mývatni sem bændur voru með í eina tíð, og voru talin skemmdarverk, mundu sennilega flokkast undir hryðjuverk í dag. Nú mega bændur passa sig ef þeir hugsa sér til hreyfings varðandi slík mál á nýjan leik.

Ég var fyrst og fremst með fyrirvara um að við erum komin með þennan grimma raunveruleika upp að bænum.