Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:41:29 (7911)

2002-04-19 15:41:29# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er auðvitað afar mikilvægt mál á ferðinni, og eins og hv. formaður nefndarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur gert grein fyrir fékk nefndin mjög marga gesti til fundarins. Þar gátum við spurt allra þeirra spurninga sem við óskuðum eftir, og þær voru auðvitað fjölmargar. Af þessu sköpuðust mjög líflegar og málefnalegar umræður í nefndinni.

Það er hins vegar afar mikilvægt að halda því til haga að í rauninni er tillagan sjálf einungis þessi litli texti sem er efstur á blaðinu því síðan eru athugasemdirnar meira eða minna úr mjög góðu plaggi sem heitir Umferðaröryggisáætlun frá 2002--2012. Þar var samþykkt að fjalla ekki einungis um alvarleg umferðarslys heldur einnig banaslys sem er auðvitað einn mesti vágestur sem við eigum við að glíma ásamt auðvitað alvarlegum umferðarslysum. Það var afar fróðlegt að hlusta á það að ef öryggisbelti væru meira notuð gætum við fækkað slysum um 28%. Það er hreint út sagt algjörlega ótrúlegt.

Maður veltir líka fyrir sér af hverju við erum með árin 2002--2012, ellefu ár. Það er til þess að fylgja því eftir með vegáætlun. Því má heldur ekki gleyma að bæta þarf umferðarmannvirki og til þess að af því verði þurfum við að taka á öllu okkar.

Líka hefur verið talað um að þetta væri mjög kostnaðarsamt. Þá er afar mikilvægt að fá inn einhverja peningalega framkvæmdaáætlun þannig að hægt verði að setja áætlunina niður á einhvern árafjölda. Það er verulega hnykkt á því í nál. allshn. þótt það komi ekki inn í sjálfan textann. Því má heldur ekki gleyma að nál. er líka lögskýringargagn. Það hnykkir mjög á um margt sem kemur fram í þessari tillögu að umferðaröryggisáætluninni.

Einn gestur nefndarinnar, Sigmar Ármannsson, var fulltrúi tryggingafélaganna og leiddi huga okkar að ýmsu í þeim málum. Við erum með vegáætlun, við erum með samgönguáætlun og við erum með flugáætlun. Við erum með áætlanir í öllum þessum stóru málaflokkum. Þetta er allt undir samgrn. og það kom auðvitað fram af hverju umferðaröryggið væri ekki jafnframt þar undir þannig að yfirsýnin héldist. Það væri eðlilegt að skoða slíkt. Hins vegar er auðvitað alltaf ákveðið samstarf við dómsmrn. og lögreglu, og það á ekki að hindra slíkt. Þá fengjum við heildarsýn í rauninni á samgöngur, hvort sem þær væru í lofti, á sjó eða landi. Það var eitt af því sem var talsvert rætt í nefndinni.

Eins og ég segi náðum við að hnykkja gríðarlega á mjög mörgum góðum þáttum í þessu nál. Við vitum vel að eitt stærsta heilbrigðisvandamál þessarar þjóðar er bílslys. Það sem er líka lögð mjög mikil áhersla á, og við hnykkjum jafnframt á í nál., er að þetta höfðar líka til almennings og almenningsvitundar. Í þessari umferðaröryggisáætlun sem er gríðarlega stórt og mikið plagg er mjög mikið rætt um það að höfða til almennings, virkja almenning, virkja grasrótina, því auðvitað eru orð eitt og framkvæmd annað. Þess vegna er afar mikilvægt að fá góða framkvæmdaáætlun, þ.e. fjárhagsáætlun, í þennan málaflokk eins og hann leggur sig þannig að hægt sé að forgangsraða innan hans og jafnframt kannski skerpa á því að það verði fín pólitísk samræða um þessi mál, aðallega til að virkja grasrótina til að tala við hið venjulega fólk.

Hins vegar hefur líka verið nýtt vel hér á Íslandi að þeir sem lenda í alvarlegum umferðarslysum hafa gengið til liðs við ýmis samtök og orðið miklir áróðursmeistarar til stuðnings jafngóðu máli og umferðaröryggi er.

Ekki er búið að skipa umferðaröryggisnefndina þannig að við vitum ekki enn hverjir verða í henni en hún hefur ærin verkefni og afar mikilvæg.

Hér á eftir, aðeins síðar á dagskránni, er líka mál sem tengist þessu, breytingar á Umferðarráði og allri þeirri stjórnsýslu. Sú umræða kemur til með að tengjast aftur inn í það mál á eftir. Eins og við segjum, laga þarf vegina --- þeir eru ákveðinn áhrifavaldur þótt auðvitað sé manneskjan sjálf í fyrsta sæti þar. Við þurfum líka að leggja áherslu á sýnilegu löggæsluna. Við þurfum að koma í veg fyrir dauðaslysin og við þurfum að herða áróðurinn með öryggisbeltin.

Jón Baldursson, læknir á Borgarspítalanum, kom á fund nefndarinnar og við ræddum mikið um svefnleysi og þreytu, og að þeir þættir geti valdið slysum. Ég mun eflaust taka til máls aftur um málið, herra forseti, en lýk máli mínu í bili.