Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:48:17 (7912)

2002-04-19 15:48:17# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KolH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Það er sannarlega tímabært að Alþingi Íslendinga taki á dagskrá þessa umferðaröryggisáætlun því eins og alþjóð mun kunnugt rann síðasta umferðaröryggisáætlun út um áramótin 2000/2001 þannig að í eina 16 mánuði hefur engin umferðaröryggisáætlun verið í gildi á Íslandi.

Það í sjálfu sér er auðvitað alvarlegt, herra forseti, og við fyrri umr. þessa máls orðaði ég það við hæstv. ráðherra Sólveigu Pétursdóttur að auðvitað þyrfti að standa betur að málum en mér finnst hafa verið gert þó að allir séu jafnfegnir að áætlunin skuli nú hafa litið dagsins ljós. Ég tek undir þau orð hv. frsm., hv. formanns allshn., Þorgerðar Gunnarsdóttur, en hún gat um það þegar hún fylgdi nál. úr hlaði að það hefði verið einhugur meðal nefndarmanna. Það er alveg satt. Ég sat þessa fundi sem fjölluðu um málið í allshn. sem varamaður Ögmundar Jónassonar, hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, og það er alveg rétt, herra forseti, að mikill einhugur ríkir hjá alþingismönnum um þetta mál. Allir alþingismenn eru sammála um að hér þurfi að standa fagmannlega og vel að verki og gera öflugt átak í alvöru. Herra forseti, þegar ég segi í alvöru meina ég að sú áætlun sem hér er verið að fjalla um verður að vera þess eðlis að hún nái fram að ganga, að markmiðssetningin sé ekki bara orð á blaði sem sé hægt að veifa upp á punt þegar mikið liggur við heldur verður áætlun af þessu tagi að ná, ekki bara til málaflokksins heldur út á göturnar, út í vegakerfið okkar, til vegfarendanna okkar, til þeirra sem leið eiga um göturnar. Það þarf að tryggja í alvöru að umferðaröryggi sé virkt og að markmiðssetning þessarar umferðaröryggisáætlunar, og hvaða umferðaröryggisáætlunar sem er, náist. Hvernig gerum við það best, herra forseti? Við gerum það best með því að tryggja fjármagn til málsins.

Það er kannski einmitt þar sem skórinn kreppir. Við sem fjallað höfum um þessi mál og komið að umræðunni, bæði í allshn. og við fyrri umr., höfum öll lýst því yfir að markmiðssetningin í umferðaröryggisáætlun sé göfug og metnaðarfull en þegar farið er að rýna í hana felur hún í sér að Alþingi lýsir yfir vilja sínum til þess að fyrir lok ársins 2012 hafi alvarlegum umferðarslysum og dauðaslysum í umferðinni fækkað um 40% miðað við fjölda slysa eins og þau voru árin 2000 og 2001. Alþingi kemur til með að lýsa því yfir, verði þessi ályktun samþykkt sem ég geri ráð fyrir, að þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, áhugahópa og almennings. Við gerum ráð fyrir því að í byrjun hvers árs kynni dómsmrh. stöðu umferðaröryggismála og hvernig miði í átt að settu marki. Sömuleiðis er í þessari ályktun gert ráð fyrir því að starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.

Í sjálfu sér er þessi efnisgrein mjög fín, við getum alveg sagt að hún sé metnaðarfull, en þó er eitt atriði sem þarf að rýna í sérstaklega. Það er, herra forseti, viðmiðunarárin tvö, árin 2000 og 2001. Kannski erum við ekki nægilega framsýn eða höfum ekki nægilega yfirsýn þegar við bindum markmiðið, þ.e. 40% fækkunina, við þessi tvö ár. Frá því að allshn. fjallaði um málið hafa borist í mínar hendur gögn sem sýna mér að þessi tvö ár hafi tíðni dánarslysa í umferðinni verið gífurlega há. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna til lítils línurits sem birtist í Fréttablaðinu þann 8. nóv. 2001 en þar er sýndur myndrænn samanburður á því hvernig tíðni dánarslysa í umferðinni hefur verið á Norðurlöndunum á hverja 100 þús. íbúa. Samkvæmt því línuriti sést að dauðsföllum í umferðinni fjölgar alveg gífurlega mikið á Íslandi á árunum 1995--2000. Þeim fjölgar svo mikið að Íslendingar lenda í efsta sæti --- það má kannski ekki orða það svo --- en á árinu 2000 er dánartíðni í umferðarslysum á Íslandi orðin meiri en alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum. Áður, á árunum 1992--1995, erum við neðst í dánartíðni í umferðarslysum. Þegar við förum að rýna í þetta erum við kannski á óheppilegu árabili að miða við að skera fjöldann niður, frá viðmiðunarárunum 2000 og 2001. Við hefðum kannski þurft að hafa prósentutöluna jafnvel enn þá hærri ef við hefðum ætlað að reyna að halda sæti okkar á skala Norðurlandanna, að vera í neðsta sæti yfir dánartíðni í umferðarslysum á Norðurlöndum.

Ég held, herra forseti, að við verðum að setja markmiðin mjög hátt í þessum efnum. Sumum finnst það kannski þegar horft er á töluna 40% að við setjum markið mjög hátt en kannski gætum við gert enn þá betur. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að við skoðum tölfræðina í þessum málum, skoðum vel með hvaða hætti við getum borið okkur saman við Norðurlöndin, skoðum vel hvort við erum þar hálfdrættingar eða framúrskarandi eða kannski dragbítar. Ég held því að ef við hefðum eðlilegan tíma til umfjöllunar þessa máls væri í samanburðinum milli Norðurlandanna fullt af efni sem við gætum fjallað hér um frekar en hægt er á þeim tíma sem við höfum til umráða á síðustu dögum þingsins. Allir þingmenn eru orðnir sér meðvitandi um það að mörg mál eru til afgreiðslu og ekki kannski eðlilegt svigrúm fyrir umræðu um jafnþýðingarmikið mál og hér ber á góma.

Eitt af því sem ég gagnrýndi við fyrri umr. þessa máls var að hæstv. ráðherra skyldi ekki leggja fram með þessari tillögu sinni fjárhagsáætlun um aðgerðaúrbætur, þ.e. öllum er fullljóst að umferðaröryggi verður ekki aukið nema til komi auknir fjármunir. Það gengur enginn að því gruflandi, herra forseti. Hæstv. ráðherra benti mér á við fyrri umr. að ekki mætti sýna of mikið bráðlæti, auðvitað kæmi framkvæmda- og kostnaðaráætlun þegar nefndirnar sem tillagan kveður á um að skipa þurfi hefji störf. Gott og vel, herra forseti. Með það í farteskinu hóf ég störfin í nefndinni með samþingmönnum mínum sem, eins og ég sagði áðan, eru allir jafnáhugasamir um að umferðaröryggi á Íslandi verði aukið.

Eins og kom fram í máli hv. frsm. nál., hv. þm. Þorgerðar Gunnarsdóttur, er getið um það í nál. að nefndin geri sér fulla grein fyrir því að umferðaráætlunin feli í sér viðamiklar aðgerðir sem muni kalla á aukið fjármagn til umferðarmála. Þess er líka getið í nál. að nefndin telji að þessar aðgerðir muni jafnframt leiða til verulegs sparnaðar því auðvitað er samfélagskostnaður okkar af umferðarslysum, ég tala nú ekki um alvarlegum umferðarslysum og dauðaslysum, svo gífurlegur að ef okkur tekst að auka öryggið í umferðinni, fækka slysum, erum við líka að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til sparnaðar.

Nefndin er sér meðvituð um að fá þurfi nauðsynlegt fjármagn og tryggja það. Ég hvet hv. alþingismenn til að hafa þetta í huga við næstu fjárlagagerð. Og við megum auðvitað ekki gleyma því við neina fjárlagagerð að hafa umferðaröryggið á oddinum því við náum ekki þessum markmiðum nema við séum á verði þegar fjárlög eru ákveðin. Þó að við skipum nefndir sem við ætlum það hlutverk að búa til kostnaðaráætlanir er það ekki ávísun á fjármagn. Ávísunin á fjármagnið kemur úr þessum sal þegar fjárlög eru ákveðin.

Mig langar í þessu sambandi, herra forseti, að minna á ályktun frá umferðarþingi sem samþykkt var í Reykjavík 1. des. árið 2000 en á því þingi var samþykkt ályktun sem mig langar, með leyfi forseta, til að fá að lesa hér upp. Hún er svohljóðandi:

,,Umferðarþing, haldið í Reykjavík 30. nóvember og 1. desember árið 2000, fagnaði þeirri myndarlegu stefnumörkun dómsmrh. að miða við 40% fækkun dauðaslysa og meiri háttar slysa í umferðinni á næstu 12 árum á Íslandi.

Umferðarþing bendir á að fullnægjandi umferðaröryggisáætlun verður að innihalda fjárhags- og framkvæmdaáætlun og tryggja verður að til hennar renni nægjanlegt fé úr opinberum sjóðum.

Umferðarþing lýsir vonbrigðum sínum yfir því að í fjárlögum fyrir árið 2001 sem nú er verið að afgreiða á Alþingi verður nánast ekkert vart við aukna fjármuni til þessarar baráttu. Umferðarþing skorar á ríkisstjórn og Alþingi að lýsa því nú þegar yfir að væntanleg 12 ára áætlun muni uppfylla framangreind skilyrði.``

Þetta var ályktun umferðarþings frá 1. des. 2000.

Það sama var uppi á teningnum í umfjöllun um fjárlög ársins 2002. Ég hvet hv. alþingismenn til að gera bragarbót og láta þetta ekki henda okkur við næstu umfjöllun fjárlaga, þ.e. þá umfjöllum sem fram fer hér næsta haust um fjárlög 2003. Við verðum að standa saman um að marka þessum málaflokki það mikið fé að við getum sagt að sá árangur sem tillagan og nál. gefa til kynna að menn vilji standa vörð um sé í sjónmáli.

[16:00]

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að nefndir þær sem taka til starfa --- ef vilji allshn. nær fram að ganga er alveg ljóst að nefndin vill að þær taki til starfa sem allra fyrst. Í nál. er fjallað um að skipaðar verði m.a. tvær nefndir, annars vegar umferðaröryggisnefnd og hins vegar framkvæmdanefnd, og þar segir að allshn. geri ráð fyrir því að nefndirnar verði skipaðar sem fyrst og umferðaröryggisnefnd forgangsraði án tafar þeim verkefnum sem áætlunin gerir ráð fyrir. Það er því alveg ljóst að nefndin vill að þessi málaflokkur fái forgang, í hann verði sett mikil orka, mikill kraftur --- og fjármunir. Það verður aldrei of ítrekað að það var einhugur í nefndinni varðandi þetta atriði. Þess vegna er engin ástæða til að aðrir þingmenn sem ekki komu að afgreiðslu málsins í allshn. liggi á liði sínu þegar til á að taka, þegar framkvæmdaáætlunin verður gerð og vonandi kynnt hér eigi síðar en fljótlega á næsta löggjafarþingi.

Mig langar til að vitna hér í, herra forseti, umferðaröryggisáætlun til ársins 2000 sem stjórnvöld í Reykjavík létu gera. Þar fylgdi framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætluninni. Hún er í mjög einföldu formi og þar er getið helstu aðgerða sem borgin hyggst fara í á ákveðnu árabili --- þetta var á árunum 1996--2000 --- og það er ekki nóg með að aðgerðanna sé getið heldur er einnig getið um fjármagnið sem ætla á í málaflokkinn þannig að á árinu 1996 er ljóst hversu mikið fé Reykjavíkurborg ætlar að láta í umferðaröryggismál á árinu 2000. Áætlun sú var til fyrirmyndar. Við hana var staðið að langmestu leyti, þ.e. þangað til á lokaárinu að smámisbrestur varð á fjármagninu. Ég hvet alþingismenn og stjórnvöld og nefndarmenn sem skipast í þessar nefndir, sem á að fara að skipa í þessum tilgangi, til að kynna sér það starf sem unnið hefur verið í Reykjavík sem ég tel að hafi verið til fyrirmyndar í alla staði. Áætlunin sem Reykjavíkurborg gaf út í hálfgerðu bókarformi var þannig aðgengileg að borgarbúar gátu kynnt sér hvenær sem var hvað Reykjavíkurborg eða yfirvöld í Reykjavík höfðu ætlað sér í umferðaröryggismálum, og þá jafnframt hversu mikið fjármagn menn hugðust setja í málaflokkinn.

Eitt af því sem rætt var í allshn. þegar málið var til umfjöllunar var umferðaröryggisáætlunin sjálf, þ.e. tillaga starfshópsins sem hæstv. dómsmrh. skipaði, en hún er í þessu formi, var dreift til allra alþingismanna um svipað leyti og málinu var útbýtt hér á þinginu. Þessi ítarlega áætlun fékk svo sem ekki efnislega meðferð hjá allshn. Auðvitað hefði verið full ástæða til þess því hér eru mjög margir þættir sem ég veit að áhugasamir alþingismenn vildu gjarnan fá að tjá sig um og kannski færa eitthvað til betri vegar. En það var í raun og veru samdóma skilningur nefndarmanna að þó að með tillögugreininni fylgi athugasemdir sem vísi í þessa áætlun sé ekki þar með verið að samþykkja þáltill. sem hér liggur fyrir. Við skulum því gæta þess að það verði svigrúm fyrir það fólk sem kemur að þessari vinnu núna í náinni framtíð til að bæta þar um betur, fara yfir hugmyndir með krítísku auga, forgangsraða hlutum og sjá til þess að hér verði jafnvel enn meira vítamín sett inn, enn meira kjöt á beinin og kannski enn aðgengilegri framsetning en hér getur að líta.

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að nefna rannsóknarnefnd umferðarslysa í þessu máli mínu. Eitt af því sem bar á góma í umfjöllun nefndarinnar var það hversu illa búið er að rannsóknarnefnd umferðarslysa á Íslandi. Um það er getið í greinargerð með þáltill. í lið nr. 5 en sá liður er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Starfshópurinn`` --- þ.e. sá sem vann þessa tillögu að áætlun --- ,,leggur til að rannsóknarnefnd umferðarslysa verði efld og í hana bætt manni með sérfræðikunnáttu varðandi ökutæki. Einnig verði hlutverk hennar skilgreint við gerð umferðaröryggisáætlana.``

Þessi punktur, herra forseti, er gífurlega mikilvægur. Í umfjöllun allshn. kom fram að rannsóknarnefnd umferðarslysa gerir sitt besta af mjög svo takmörkuðum efnum. Þegar starfsmaður nefndarinnar var beðinn að gera grein fyrir starfsumhverfi nefndarinnar og bera það saman við það sem best gerist á Norðurlöndunum kom auðvitað í ljós, herra forseti, að þar er himinn og haf sem skilur að. Starfsmaður rannsóknarnefndarinnar benti okkur á að rannsóknarnefndin hefur nýlega lokið gerð tveggja skýrslna sem nefndarmönnum voru sendar og þeir höfðu tök á að kynna sér. Önnur þeirra fjallar einmitt um samanburð á vinnubrögðum rannsóknarnefnda á Norðurlöndunum. Þar kemur í ljós að Norðurlöndin hafa staðið vörð um þennan málaflokk af gífurlegum metnaði. Það kemur líka fram hversu aftarlega á merinni við Íslendingar sitjum.

Ég nefndi í umræðu nefndarinnar hvernig rannsóknarnefnd umferðarslysa stæði að vígi, t.d. samanborið við rannsóknarnefnd flugslysa. Það kom auðvitað í ljós að þar eru algjörlega ósambærilegir hlutir til staðar. Ástæðan fyrir því að ég nefndi þetta, herra forseti, og vil að það komi fram hér er sú að nú horfum við á Íslandi í auknum mæli upp á hópslys í umferðinni. Þau gerast æ tíðari. Við erum ferðamannaþjóð sem vill gera allt til að auka hér ferðamannaþjónustu en við verðum þá líka að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka öryggi ferðamanna.

Við vitum sannleikann í þeim málum, herra forseti, sem lúta að vegakerfinu okkar. Við vitum auðvitað að þar er pottur brotinn mjög víða og þar er ástandið sannarlega ekki eins og best verður á kosið. Nægir þar að nefna einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, að ekki sé talað um allar aðrar einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins. Auðvitað vitum við að það stendur yfir átak til að fækka einbreiðum brúm en við vitum líka að við erfiðar aðstæður þar sem þröngar brýr eru annars vegar verða alvarleg slys.

Þegar við bjóðum erlendum ferðamönnum hingað heim, til landsins okkar, til að kynna sér það og njóta þess með okkur verðum við að geta boðið þeim upp á það öryggi sem er nauðsynlegt til að líf og limir þessara gesta okkar séu ekki í hættu.

Verði hins vegar slys verðum við líka að geta boðið upp á að rannsókn þeirra verði sem best hugsanleg í slíkum málaflokki, við verðum að sjá til þess að við séum ekki eftirbátar annarra þjóða í þeim efnum. Við höfum Norðurlöndin til að miða okkur við. Við höfum kortlagt mjög nákvæmlega í skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa hvernig haldið er á málum annars staðar á Norðurlöndunum og það er engin ástæða fyrir okkur, herra forseti, til að gera annað en jafn vel og hinar Norðurlandaþjóðirnar í þessum efnum.

Við höfum dæmin fyrir okkur um alvarleg slys á hópferðabílum. Við höfum dæmi um að þar hafi verið gagnrýni uppi varðandi frammistöðu okkur í rannsókn slysanna og við verðum að bæta þar úr. Það þarf að efla rannsóknarnefnd umferðarslysa og gera hana að þeirri stofnun sem þörf er til þess að við getum verið stolt og sátt við það hvernig á málum er haldið varðandi rannsókn umferðarslysa.

Herra forseti. Það kom líka fram í umfjöllun nefndarinnar að auðvitað er löggæslan gífurlega mikilvægt atriði í þessum málaflokki. Manni fannst kannski ekki alveg nógu rismikil yfirlýsing frá Vegagerðinni um að hún hlaupi undir bagga með lögreglunni og aðstoði hana við að tækjavæðast. Þegar við hugsum um umferðaröryggi verðum við líka að hugsa um löggæsluna. Og við verðum að segja: Ef við ætlum að efla umferðaröryggi þurfum við líka að efla umferðaröryggisgæsluna hjá lögreglunni. Ef það er rétt sem á hefur verið bent og hefur verið í umræðunni að lögregluna vanti fé til að sinna umferðaröryggismálum sem skyldi verðum við líka að taka þar á. Þegar til fjárlagaumræðu kemur á hausti komanda er því ekki nóg fyrir hv. alþm. að skoða liðinn Umferðaröryggisáætlun, við verðum líka að skoða liðinn Löggæsla.

Við verðum að sjá til þess að þeir fjármunir sem settir eru til löggæslunnar skili sér líka til umferðaröryggismálanna. Það er ekki nóg að standa vel að Schengen. Það er ekki nóg að standa vel að landamæravöktun fyrir Evrópusambandið. Það þarf líka, og ekki síður, að standa vel að þeirri vöktun sem þarf að eiga sér stað á þjóðvegum þessa lands og á þéttbýlisstöðum. Það er alveg ljóst að fjármagnið er alfa og omega í umferðarörygginu. Við þurfum að fá aukið fjármagn til málaflokksins, annars verður sú umferðaröryggisáætlun sem hér er um fjallað tóm orð á blaði sem veifað verður á tyllidögum. Slíkt vilja engir alþingismenn sjá. Það þori ég að fullyrða, herra forseti, og þess vegna verður þessi brýning mín að hljóma hér. Ég ætla að heita sjálfri mér því og þingheimi að ég mun minna okkur öll á þetta þegar umferðaröryggisáætlunina og löggæsluna ber á góma í næstu fjárlagaumræðu.

Það kom fram í málflutningi gesta nefndarinnar --- af því að við erum að tala um hvernig við stöndum okkur samanborið við Norðurlöndin --- að hjá Dönum fylgir kostnaðaráætlun hverri einustu aðgerð. Það er alveg ljóst að Norðurlandabúar eru komnir svo langt fram úr okkur í þessum efnum að við höfum virkilega mikið forskot upp að vinna. Sömuleiðis voru athyglisverðar ábendingar frá Vegagerðinni, að kannski værum við bara að setja allt of mikið fjármagn í vegina. Kannski eru þeir fjármunir sem fara í vegina sjálfa ekki upphaf og endir alls í þessum málum heldur kannski hvernig skiptingin á fjármagninu er til málaflokksins. Kannski þurfum við að setja hluta af vegafé í umferðaröryggi. Við eigum þá líka að vera menn til að taka þá umræðu og skoða þau mál alvarlega ofan í kjölinn.

Herra forseti. Ég sem á sjálf ákveðna forsögu varðandi umferðaröryggismálin --- ég hef starfað í áhugahópi um bætta umferðarmenningu sem ég stofnaði ásamt nokkrum vinkonum mínum fyrir einum 15 árum sennilega --- hef miklar áhyggjur af því að við drögum lappirnar í þessum málaflokki og sýnum ekki nægilega forsjálni. Þannig má nefna að í umfjöllun í nefndinni kom fram að við bregðumst oft við meira af kappi en forsjá. Þannig var fjallað um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og upphófst þá í nefndinni mjög athyglisverð umræða um aðgerðir til að auka umferðaröryggi. Það er kannski ekki alltaf einfaldasta leiðin að breikka vegina, tvöfalda þá eða fara í svo gífurlega kostnaðarsamar framkvæmdir. Kannski eru aðrar aðgerðir ódýrari og einfaldari alveg jafnraunhæfar ef við erum að fjalla um að draga úr slysum.

Ég held að allar framkvæmdir okkar í vegamálum þurfi auðvitað að vera þannig úr garði gerðar að umferðaröryggismálin séu skoðuð í tengslum við hverja einustu framkvæmd, meðfram því að ekki sé verið að bruðla þar með fé. Engin vegaframkvæmd ætti að fara á áætlun hjá okkur án þess að við sem hér höldum á málum, alþingismenn sem setja lög í þessu landi, skoðuðum jafnframt umferðaröryggisþátt framkvæmdanna.

Herra forseti. Eins og ég áður vék að í máli mínu er hálfósanngjarnt að ætla alþingismönnum það á lokadögum og lokamínútum þinghalds að fjalla á einhvern vitrænan hátt um þessi mál. Það er erfitt að ætlast til þess að umræða um málið verði frjó eða umfangsmikil því auðvitað er hér mikill málafjöldi og það er rekið á eftir okkur með að reyna að komast í gegnum hann. Það er kannski skiljanlegt að einhverju leyti en ég gat ekki látið hjá líða að stikla á stóru í þeim hugmyndum eða þeim tilfinningum sem farið hafa gegnum huga minn í þessari vinnu. Mér er mjög mikið í mun að hér verði staðið þannig að málum að umferðaröryggisáætlun á Íslandi verði ekki bara orð á blaði sem flaggað verði á tyllidögum heldur látum við verkin tala og setjum til málaflokksins alla þá fjármuni sem þarf þannig að umferðaröryggisáætlun á Íslandi standi undir nafni.