Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:18:31 (7915)

2002-04-19 16:18:31# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Rétt aðeins varðandi Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Það vita allir sem vilja vita að aldrei hefur staðið á þinginu varðandi það að setja pening akkúrat í þessi gatnamót, slysamestu gatnamót landsins. Verkurinn var bara sá að Reykjavíkurborg, R-listinn, gat ekki forgangsraðað því. Á ég að þurfa að rifja upp sögu frá fyrrverandi borgarfulltrúum R-listans um að við skyldum ekki leggja áherslu á einkabílinn heldur setja fólkið allt í almenningsvagna og á reiðhjólin? Það var rökstuðningurinn fyrir því að ekki mátti fara í mislæg gatnamót á Miklubraut/Kringlumýrarbraut. En gott og vel.

Varðandi fjármagnið er alveg hárrétt hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að setja þarf fjármagn í þennan málaflokk. En ég verð að segja það, herra forseti, að ég er nokkuð bjartsýn á að þessi umferðaröryggisáætlun gangi eftir. Og af hverju segi ég það? Það er út af því að það kom skýrt fram í máli margra gesta, ef ekki allra gesta, sem komu á fund allshn. að markmið umferðaráætlunar sem enn er í gildi hafa eiginlega að öllu leyti náðst (EMS: Nema ... ) --- já, nema reyndar ákveðin slysagildra við Miklubraut/Kringlumýrarbraut, það er rétt hjá hv. þm. Einari Má Guðmundssyni, hvað heitirðu aftur? (EMS: Heyrðu, þetta er alger skáldskapur.) Engu að síður, herra forseti, þetta er náttúrlega vísbending um að þessi metnaðarfulla umferðaröryggisáætlun sem við erum að ræða hér, herra forseti, komi til með að ganga eftir. Og ég ítreka það að hv. allshn. lagði áherslu á það í nál. sínu að fjármagn væri tryggt til áætlunarinnar en það er ekki sama hvaða leiðir eru farnar í því að fjármagna þessa áætlun eins og ég kom inn á í framsögu minni.