Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:20:33 (7916)

2002-04-19 16:20:33# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við getum alveg tekið þessi gatnamót í Reykjavík, Kringlumýrarbraut/Miklabraut, út af dagskrá því það er búið að ákveða að gera mislæg gatnamót þarna (ÞKG: Heyr, heyr.) og ég held að við getum öll fagnað því hvar í flokki sem við stöndum. Auðvitað eru þau búin að vera gífurleg slysagildra í gegnum árin og við erum öll sammála um að sú bragarbót sem kemur með mislægum gatnamótum beri vott um metnaðarfull áform. Við vitum líka að það eru gífurlega kostnaðarsöm áform en við vitum enn fremur að Reykjavík hefur ekki fengið sitt hlutfall af vegafé eins og eðlilegt gæti talist miðað við þann fjölda íbúa sem er hér. Ef við skoðun hlutfallstölurnar, þ.e. hvernig vegafé skiptist á íbúa í landinu vitum við öll sem hér erum í sal að þar hafa Reykvíkingar farið halloka. Þeir hafa ekki fengið sambærilegt fjármagn á íbúa til vegamála eins og veitt hefur verið til þeirra sem búa í dreifbýlinu.

Látum það þá liggja milli hluta. Gatnamótin eru væntanleg. Þau verða mislæg og við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir deilum sjónarmiðum í þessu máli. Við erum báðar sáttar við að hér skuli eiga að standa að málum á metnaðarfullan hátt. Við erum báðar bjartsýnar manneskjur, herra forseti, þori ég að fullyrða þannig að ég held að við getum öll staðið hér saman um að tekið verði á öflugan hátt á þessum málum í fjárlagavinnunni sem við komum að á hausti komanda.