Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:24:33 (7918)

2002-04-19 16:24:33# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, EMS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Ég ætla fyrst að gera að umtalsefni ákveðið atriði sem fram kemur í nál. frá allshn. af þeirri ástæðu að þar tel ég í raun og veru nokkuð óvarlega orðaðan ákveðinn hlut. Með leyfi forseta segir í nál.:

,,Í máli gesta nefndarinnar kom fram að markmið síðustu umferðaröryggisáætlunar hafi í meginatriðum gengið eftir þrátt fyrir mikla fjölgun bíla í umferð en það hafi fyrst og fremst verið samstöðu og einhug viðkomandi aðila að þakka og er því mikilvægt að eins vel verði staðið að framkvæmd þessarar umferðaráætlunar.``

Herra forseti. Því miður er það ekki svo að síðasta umferðaröryggisáætlun hafi verið framkvæmd með slíkum glæsibrag að ástæða sé til að vekja sérstaklega athygli á því að hin nýja umferðaröryggisáætlun skuli framkvæmd á sama hátt. Því miður, herra forseti, hefur alvarlegustu slysunum, þ.e. banaslysunum, fjölgað. Þróunin hefur því miður orðið sú að á ákveðnu árabili höfum við farið úr því sem við getum kallað efsta sæti, þ.e. að vera með fæst dauðaslys á hvern íbúa af Norðurlöndunum, niður í neðsta sætið. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, og svo alvarlegt að það gengur auðvitað ekki að í áliti nefndarinnar skuli þetta alvarlega mál vera orðað á svo óvarlegan hátt. Með því er verið að gefa í skyn að menn hafi náð öllum þeim markmiðum sem þeir ætluðu sér. Þarna er hins vegar ekki um slíkt að ræða og til viðbótar verður að bæta því við að þegar síðasta tímabili umferðaröryggisáætlunar lauk var ný umferðaröryggisáætlun ekki tilbúin. Nú um nokkurt skeið hefur engin áætlun verið í gildi.

Þessu til viðbótar, herra forseti, er auðvitað eðlilegt að vekja athygli á því að auðvitað hefur fyrst og fremst skort fjármagn til að ná þessum markmiðum. Enn á ný er auðvitað ekki verið að tryggja það. Verulega skortir á að það sé nægjanlega vel að verki staðið með nákvæmri framkvæmdaáætlun. Um það hlýtur að verða tekist á á komandi haustdögum, þ.e. þegar fjárlög koma til umræðu. Við krefjumst þess að það verði taktur í þessum málum og að einmitt verði ekki staðið að þessum málum eins og verið hefur á undanförnum árum.

Þess vegna, herra forseti, tel ég að áður en tillagan verður afgreidd þurfi nefndin að velta því mjög alvarlega fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að breyta þarna örlítið orðalagi. Að vísu er verið að vísa til gesta en hefur ekki nefndin sjálf einhverja skoðun á því hvort ekki væri rétt að setja inn eins og eina setningu um það frá sjálfri sér að það væri ráð að reyna að bæta sig örlítið frekar en að taka þetta sem sérstaka fyrirmynd um framkvæmd? Ástæðan er, herra forseti, eins og ég nefndi áðan að því miður --- og ég legg áherslu á það --- hafa menn ekki náð að fækka þessum alvarlegu slysum. Það held ég að hljóti að vera sameiginleg markmið okkar allra, að ná betri árangri þar. Við hljótum auðvitað að setja okkur það mark að við verðum í efsta sæti meðal Norðurlanda í þessum efnum en ekki í því neðsta.

Þess vegna, herra forseti, er heldur ekki nægjanlegt að setja sér það mark sem mér skilst á heimildum mínum að sé sama markið og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa, þ.e. að fækka slysum og það alvarlegum umferðarslysum um 40%. 40% fækkun mun þá, herra forseti, ef við náum sömu markmiðum og aðrar Norðurlandaþjóðir, tryggja okkur áfram það sæti sem við því miður erum núna í.

Herra forseti. Það var auðvitað athyglisvert í andsvari áðan að hv. formaður allshn. og frsm. nefndarinnar var afar viðkvæm fyrir því að vitnað væri til umferðaröryggisáætlunar Reykjavíkurborgar. En, herra forseti, það er í raun og veru afar skiljanlegt vegna þess að miðað við mínar heimildir virðast menn hafa náð markmiðum sínum með umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgur fyrir árin 1996--2000, m.a. vegna þess að þar er framkvæmdaáætlunin nákvæm og fjármagnið veitt til umferðaröryggismála í samræmi við þessa áætlun. Það er auðvitað það sem skiptir ekki hvað minnstu máli, að fullur taktur sé í því sem fólk er að gera, það sé ekki bara með fögur orð á blaði og síðan fylgi ekki framkvæmdir og peningar. (Gripið fram í: Þetta er ekki eins og hjá íhaldinu.)

[16:30]

Nei, herra forseti, það er nákvæmlega munurinn. Þess vegna skildum við auðvitað vel þegar hv. þm. lagði á flótta í málinu og fór að ræða um allt annað en það sem hér er á dagskrá og vildi fara að ræða um ein einstök gatnamót sem við erum að sjálfsögðu ekki að ræða hér, en það er líka skiljanlegt að hv. þm. vildi með því reyna að ýta örlítið undir flokkssystkini sín í borginni, enda mun nú ekki af veita. En ég efast um, því miður, herra forseti, að það muni nokkrum árangri skila. Vegna þess, eins og ég sagði áðan, að á allt annan hátt hefur verið staðið á að málum við þá áætlun sem menn hafa verið að ná fram og náð markmiðum sínum. Þess vegna er það eðlilegt, herra forseti, að hv. þm. beri saman sambærilega hluti og beri saman árangurinn í þeim málum sem hér er verið að ræða.

Þá var líka sérstakt að hlusta á hv. þm. með þá söguskýringu sem fram kom af þeirri einföldu ástæðu að flokkssystkini hv. þm. voru óvart við völd, herra forseti, og allt of lengi við völd í þessari borg og skipulagsmálin voru óvart ákveðin í valdatíð þess flokks sem hv. þm. tilheyrir, þ.e. þessi gatnamót voru byggð af þeim meiri hluta sem þá var í borginni. En þar má auðvitað rekja uppruna málsins og þess vegna held ég að hv. þm. ætti ekki að fara nánar út í söguskýringar.

Herra forseti. Ég legg höfuðáherslu á að auðvitað er mikilvægt að sú umferðaröryggisáætlun sem hér er til umræðu verði afgreidd nú á vordögum af þeirri einföldu ástæðu að í raun hefði þurft að vera búið að því miklu mun fyrr. En ég legg líka jafnmikla áherslu á að samræmi verði síðan haft í hlutunum þannig að á haustdögum þegar lagt verður fram frv. til fjárlaga fyrir þingið, verði því fylgt eftir í tillögum frá dómsmrn. svo tryggt sé að nægilegt fjármagn verði til staðar, þannig að það megi ná markmiðum þeirrar áætlunar sem við munum vonandi samþykkja á næstu dögum.