Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:32:33 (7919)

2002-04-19 16:32:33# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Við erum öll sammála um að einn þátturinn til að auka umferðaröryggi er sá þáttur að bæta gatnakerfið. Ég nefndi það og ég skil ekki þá viðkvæmni þingmanna að þó ég nefni þessi stærstu og fjölförnustu gatnamót landsins, Miklubraut/Kringlumýrarbraut, að menn verði viðkvæmur fyrir því að ekki var búið að taka ákvörðun um þetta fyrr en núna, að fara í mislæg gatnamót. Hvaða viðkvæmni er þetta? Það vita allir sem vilja vita að forseti borgarstjórnar 1995 eða 1996 ákvað það og sagði að ekki ætti að fara í þau mislægu gatnamót því fólk gæti alveg eins tekið almenningsvagnana eða farið á reiðhjólum. Flettið bara upp í þessu, ágætu þingmenn.

En að öðru leyti (Gripið fram í.) langar mig að fara í það sem hv. þm. sagði út af nefndaráliti og mér finnst miður að hann skuli ekki hafa ráðfært sig við þann þingmann Samfylkingarinnar sem sat fundinn og heyrði í þessum, ja, við skulum þá skilgreina betur gestina, gestirnir voru sérfræðingar (LB: Já) --- í umferðaröryggismálum þjóðarinnar. Og hvað kemur þar? (Gripið fram í.) Hvað kemur fram þar, herra forseti? Er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á mælendaskrá? (LB: Já, já.) Er hann á mælendaskrá, herra forseti?

(Forseti (ÁSJ): Já.)

Já, þá kemur að honum. Þannig er það bara.

En svo við höldum áfram með þetta, þá kom sérstaklega fram þar að markmiðin hefðu náðst og það væri ekki hægt að taka þetta eins og hv. þm. gerði áðan, einhver eitt eða tvö ár því slysin hér eru svo fá miðað við erlendis, smæðin er mikil, eitt árið erum við kannski í efsta skala og annað árið erum við í neðsta skala. En að öllu þessu samanlögðu þá sögðu þeir sérfræðingar að áætlunin sem enn er í gildi hefði náðst í meginatriðum. Ég trúi því ekki að hv. þm. Einar Már Sigurðarson skuli efast um þau orð.