Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:38:23 (7922)

2002-04-19 16:38:23# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst nú velvirðingar á því að hafa ekki áttað mig á hvernig staðan var varðandi það að breyta hér orðalagi, en ástæðan fyrir því að ég fór að vekja athygli á þessu var að ég rak augun einmitt í þetta orðalag og miðað við þau gögn sem ég hafði undir höndum, þá fannst mér þetta ekki passa. Og það var einmitt það sem ég ætlaði að koma inn á varðandi fyrra andsvar hv. þm. sem var um það að ekki væri hægt að bera saman eitt ár eða tvö þegar verið væri að bera saman svona tölur.

Ég vil taka undir það með hv. þm. vegna þess að það er nákvæmlega það sem ekki má gera. Þess vegna verður að taka hið minnsta þrjú ár eða svo og jafnvel lengri tíma. Og það var það sem ég var að gera þegar ég bar saman tímabilin frá 1992--1994 og 1998--2000. Það var akkúrat þá, á því tímabili sem þessi þróun hefur því miður átt sér stað. Það er auðvitað ekkert gleðiefni að slíkt skuli gerast og þess vegna finnst mér að við eigum auðvitað að sameinast í því. Úr því sem komið er verðum við að treysta því að á haustdögum þegar við förum að vinna í fjárlagafrv. fyrir árið 2003, þá verði fullur taktur í málunum og fjármagn muni koma og það vonandi í tillögum hæstv. dómsmrh. um að menn ætli sér að standa við þá áætlun sem hér verður vonandi samþykkt á næstu dögum og þá þurfi menn ekki að deila um það hvort einhver gatnamót eru eins og menn vilja hafa þau, eða að menn hafi verið eitthvað lengur eða skemur að taka ákvarðanir.

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. sé með það algjörlega 100% á hreinu að aldrei hafi tekið langan tíma að taka eina eða neina ákvörðun um gatnamót í Hafnarfirði sem hafi þurft að breyta. En herra forseti, væntanlega verður nú breyting á hvernig ákvarðanir verða teknar í Hafnarfirði eftir næstu bæjarstjórnarkosningar því ýmislegt eins og við vitum, herra forseti, bendir til þess að þar verði breytingar á meiri hluta þrátt fyrir að hv. þm. geri sér fulla grein fyrir að það eru engar líkur á að breyting verði á meiri hluta í Reykjavík.