Útflutningur hrossa

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:53:58 (7929)

2002-04-19 16:53:58# 127. lþ. 123.23 fundur 357. mál: #A útflutningur hrossa# (heildarlög) frv. 55/2002, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um útflutning hrossa á þskj. 1195 ásamt brtt. á þskj. 1196.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá landbúnaðarráðuneyti, frá Félagi hrossabænda, frá Landssambandi hestamannafélaga. Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Félagi hrossabænda, Hagþjónustu landbúnaðarins og Landssambandi hestamannafélaga. Þá bárust nefndinni tilmæli frá öðrum aðilum.

Með frv. er lagt til að sett verði ný heildarlöggjöf um útflutning hrossa. Veigamestu breytingarnar frá gildandi löggjöf eru ítarlegri ákvæði um útgáfu sérstaks vottorðs, svokallaðs hestavegabréfs, sem gert er ráð fyrir að fylgi (Gripið fram í.) hrossinu alla tíð og er það í samræmi við skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig sem upprunaland íslenska hestsins. (Gripið fram í.) Þá felst í frv. að útflutningsgjald verður fellt niður en í stað þess er gert ráð fyrir að útflytjendur greiði allan kostnað við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu hestavegabréfa en áfram verður þó innheimt gjald í stofnverndarsjóð.

Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að þónokkur andstaða var við ákvæði frv. og gildandi laga um forkaupsrétt innlendra hrossaræktenda að úrvalskynbótagripum. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað hefur forkaupsréttur aðeins verið nýttur einu sinni og virðist í ákveðnum tilfellum sem forkaupsrétturinn hafi haft hamlandi áhrif á viðskipti og útflutning hrossa. Nefndin telur því rétt að fella niður ákvæði um forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum en leggja í stað þess til að hrossaútflytjendur skuli tilkynna Bændasamtökum Íslands um útflutning á slíku hrossi. Tilkynningarskyldan ætti þannig að auðvelda samtökunum að hafa yfirsýn yfir útflutning úrvalskynbótagripa frá Íslandi.

Nefndin var einhuga í afgreiðslu sinni og leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nál. rita allir hv. nefndarmenn og Guðjón A. Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.