Útflutningur hrossa

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:56:22 (7930)

2002-04-19 16:56:22# 127. lþ. 123.23 fundur 357. mál: #A útflutningur hrossa# (heildarlög) frv. 55/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Um þetta mál hefur töluvert verið fjallað í hv. landbn. eins og lög gera ráð fyrir og voru gerðar nokkrar breytingar á frv. nú þegar það var afgreitt út úr nefndinni. Fyrsta breytingin er sú að í 1. gr. er ákveðið að fella niður ákvæði sem fjallar um að ekki megi flytja úrvalskynbótagripi úr landi nema málið fari í sérstakan farveg og að það sé innlendur forkaupsréttur.

Um þetta atriði reyndist vera gríðarlegt ósætti og ákvæðið sem hefur verið í lögunum hingað til reynist hafa verið óvirkt. Til dæmis stendur í einni umsögn sem við fengum og fjallar sérstaklega um forkaupsréttarákvæði, að hross með mjög hátt kynbótamat verði að auglýsa til forkaups eigi að senda það úr landi. Jafnvel þó svo að eigandi hrossins sé að flytja búferlum með eign sína er þetta ákvæði virkt. Aðeins í einu tilfelli hefur forkaupsréttur verið nýttur. Þá var keyptur hestur á háa upphæð af hrossaræktarsambandi en enginn áhugi reyndist fyrir hestinum hjá ræktendum hér á landi svo að um ári síðar var hesturinn seldur úr landi á mun lægra verði.

Eftir að hafa farið mjög vel yfir málið í hv. nefnd töldum við að þessu máli yrði jafnvel betur fyrir komið með því að það ríkti tilkynningarskylda, þ.e. ef hesturinn færi yfir ákveðinn stigafjölda og reyndist úrvalskynbótagripur þá væri skylt að tilkynna það ef hann væri seldur úr landi. Það er hugsað þannig að þá geti innlendir aðilar e.t.v. gengið inn í kaupin.

Nokkuð var rætt hvort ástæða væri til að óttast að þetta tilkynningarákvæði yrði misnotað þannig að ef menn vildu selja gripi á háu verði þá tilkynntu þeir að borist hefði tilboð í hann frá útlöndum til þess að reyna að særa fram innlent tilboð. En ekki reyndist vera mikill ótti um að um slíkt gæti verið að ræða í einhverjum mæli.

Eitt meginefni frv. var að öllum hrossum sem flutt eru úr landi skuli fylgja vottorð, svokallað hestavegabréf, gefið út af Bændasamtökum Íslands, sem skuli staðfesta uppruna og ætterni hrossins og hver eigendasaga þess sé, og að útflytjendur hrossa eigi að greiða gjald vegna kostnaðar við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem landbrh. staðfestir að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands. Svo eru tekin út úr 4. gr. ákvæðin um forkaupsréttinn sem ég vitnaði til áðan og kemur í staðinn viðbót við greinina um að sé áformað að selja úr landi hross sem hefur kynbótamat yfir þeim mörkum sem ákveðin eru um kynbótagripi skuli það tilkynnt Bændasamtökunum án tafar.

Ýmislegt áhugavert kom fram hjá þeim sem komu til viðtals við nefndina. Sérstaklega er til að taka að bændur og hrossaræktendur virtust almennt sáttir við að taka á sig þetta gjald með þeim hætti sem hérna er fyrirhugað og sjá sjálfir um heilbrigðisskoðun á þeim hrossum sem þeir hyggjast flytja út og fá fyrir þessi hestavegabréf. En hrossaræktendur höfðu miklar áhyggjur af öðrum atriðum, þ.e. markaðsmálum. Þeir ítrekuðu hjá nefndinni nauðsyn þess að það þyrfti að vinna að markaðsmálum á þann hátt að unnt væri að bæta afkomu í greininni. Þeir bentu á að komið hefði fram í umræðum um sameiningu og samþjöppun í hestageiranum að eitt brýnasta málefnið sem hestamenn þurfi að vinna að séu markaðsmálin og eins og málum sé háttað núna sé erfitt að finna þessum málaflokki stað, fyrst og fremst vegna fjárskorts. Því óskar Félag hrossbænda eftir því að leitað verði nýrra leiða til fjármögnunar markaðsstarfs hrossabænda og minntu þeir mjög á þetta baráttumál sitt þegar þeir komu fyrir nefndina.

Ég sit í hv. landbn. sem annar fulltrúi Samfylkingarinnar. Hinn fulltrúinn er Karl V. Matthíasson. Við skrifuðum undir frv. án fyrirvara þegar farið hafði verið vel yfir það innan nefndarinnar.