Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:05:20 (7931)

2002-04-19 17:05:20# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, LB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræddum fyrr í dag stefnumótun um aukið umferðaröryggi og sá sem hér stendur óskaði eftir því að hæstv. dómsmrh. kæmi til fundar. Hæstv. dómsmrh. hefur orðið við þeirri ósk minni og fagna ég því sérstaklega að hún skuli heiðra okkur með nærveru sinni.

Ég hef mál mitt á því að gera grein fyrir hvers vegna ég óskaði eftir að hæstv. dómsmrh. væri viðstödd sem hefði þó kannski ekki átt að þurfa að bera fram sérstaka ósk um, eðlilegt hefði verið að hún hefði verið hér í upphafi. Ástæðan er sú að stefnumótun um aukið umferðaröryggi sem við ræðum hér mun fyrst og síðast taka mið af því hvaða fjármagn verður lagt í málaflokkinn. Hún mun algerlega standa og falla með fjármagni frá Alþingi, þ.e. hvaða árangri hæstv. ráðherrar munu ná í þeirri baráttu að draga fé til málaflokksins. Yfirleitt er það sem kemur þaðan afgreitt héðan úr þinginu. Það skiptir því grundvallarmáli hvaða áherslu hæstv. dómsmrh. mun leggja á málið og hvaða fjármuni um er að ræða. Þetta eru atriði sem er algjörlega nauðsynlegt að liggi fyrir í umræðunni um stefnumótun um aukið umferðaröryggi vegna þess að annars eru þetta bara hugguleg orð á blaði, merkingarlaus. Þess vegna er gott að kalla fram yfirlýsingu um þessa hluti á hinu háa Alþingi þannig að við getum áttað okkur á því hvað hér er í raun og veru á ferð. Við áttum okkur á markmiðunum en við áttum okkur ekki á því hvað á að leggja til þess að ná þeim, hvort auka eigi fjármuni til þessara hluta o.s.frv. Vitaskuld gátum við ekki fengið neinar skýrar upplýsingar um það í nefndinni, eðli málsins samkvæmt. Ég beini því þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.: Hvernig hyggst hún beita sér í því að fá aukið fjármagn í þetta verkefni?

Síðan vil ég segja það, virðulegi forseti, að í nefndinni átti sér stað talsverð umræða um hvað verið væri að samþykkja, hvort hér væri verið að taka undir þá áherslupunkta sem fram koma í athugasemd með tillögunni eða hvort verið væri að samþykkja tillöguna og tillögutextann einan og sér. Eftir talverða umræðu skildi ég það svo að fyrst og fremst væri verið að samþykkja þann texta sem hér er, og er ekki langur. Hann er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að á næstu ellefu árum, eða fyrir lok ársins 2012, skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og áhugahópa um umferðaröryggismál. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.``

Ég vil segja það sem mína skoðun, virðulegi forseti, að hér eru markmið sem eru vel þess virði að stefna að enda stöndum við öll sem erum í allshn. að baki þessum markmiðum en við verðum hins vegar að átta okkur á því hvernig á að ná þeim.

Ég held að vissast sé að árétta líka, virðulegi forseti, vegna þess sem kemur fram í athugasemdum með tillögunni þar sem vitnað er til 15 punkta að ég lít svo á --- og ég held að flestir í nefndinni geri það --- að ekki sé verið að samþykkja áherslupunktana sem hér eru og ekki þann fjölda nefnda sem ætlað er að stofna um alla skapaða hluti þannig að það liggi alveg fyrir hver vilji þingsins er í þessu máli. Í nál. frá allshn. segir líka um þessa punkta, með leyfi forseta:

,,Nefndin tekur að öðru leyti ekki afstöðu til fyrrnefndra atriða í athugasemdum með tillögunni þótt þau hafi verið rædd í nefndinni en telur rétt að leggja áherslu á eftirfarandi`` o.s.frv.

Það eru líka nokkrir punktar nefndir hér sem var alveg augljóst að nefndin stóð alls ekki að, a.m.k. stór hluti nefndarinnar, svo að því sé haldið til haga. Reyndar held ég að hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir hafi nefnt það í framsögu sinni að því er varðar punkt nr. 6 að nefndin hafi ekki tekið undir þær hugmyndir sem þar koma fram þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Starfshópurinn gerir tillögu um að sektir sem innheimtast vegna aksturs gegn rauðu ljósi, hraðaksturs og ölvunar við akstur renni í sérstakan sjóð, ,,eftirlits- og þróunarsjóð lögreglunnar``.``

Vissulega voru mismunandi sjónarmið uppi en eins og ég skildi þá umræðu sem fram fór held ég að stór hluti nefndarinnar hafi talið að ekki væri verið að samþykkja þennan punkt, og var það sérstaklega tekið fram.

Eins er með nokkur önnur atriði sem koma fram í athugasemdunum. Þess vegna er mikilvægt að fá líka yfirlýsingu um það frá hæstv. ráðherra hvort hún hyggist skipa allar þær nefndir sem þessar tillögur gera ráð fyrir. Að sumu leyti eru það brosleg verkefni sem þeim er ætlað að framfylgja, m.a. í tölulið 2 þar sem talað er um helstu niðurstöður starfshópsins. Þar er lagt til að komið verði á fót nefnd sem ákvarði frekar verkaskiptingu einstakra ráðuneyta o.s.frv. Ég er sannfærður um að ef ætlunin er að skipta verkum frekar upp á milli ráðuneyta mundi Alþingi vilja koma að því verkefni á einhvern hátt, og ekki eins og hér segir:

,,Lagt er til að skipuð verði nefnd sem leggi fram tillögur um verkaskiptingu og ábyrgð aðila.``

Ég vil að það liggi alveg fyrir, virðulegi forseti, að þennan punkt er ég ekki að samþykkja, og ég held satt best að segja fæstir í allshn. ef ég leyfi mér að nefna það.

Þá er hér líka í töluliðum 3 og 5 gert ráð fyrir sérstökum nefndum sem eigi að koma --- virðulegi forseti, ég verð að biðjast afsökunar á því að þetta stendur eitthvað í mér og þarf ekki að koma á óvart --- á laggirnar. Það sem við leggjum miklu frekar áherslu á er að við sjáum fjármagn koma í þennan málaflokk og við sjáum einhverjar aðgerðir en ekki að sú nefnd sem skipuð verður leggi til að fleiri nefndir verði skipaðar. Og einhvers staðar í þessu öllu saman er m.a. nefnt að ekki væri síðra að í einhverjum af þessum nefndum sæti fólk sem situr bæði í allshn. og samgn. Nú vill svo til að formaður allshn. situr einnig í samgn., og sá sem hér stendur sömuleiðis. Ég tók þetta eiginlega eins og hæstv. ráðherra ætlaði að skipa mig í einhverja nefnd --- það hefur ekki komið fram berum orðum en ég skil textann þannig á meðan hann hefur ekki verið leiðréttur --- ekki nema verið sé að leggja grunn að formanni í einhverjum nefndum á vegum hæstv. ráðherra. Í 3. tölulið kemur t.d. fram það sem ég er að nefna:

,,Starfshópurinn leggur til að skipuð verði umferðaröryggisnefnd á ný og að hún verði skipuð á svipaðan hátt og gert er hjá mörgum öðrum þjóðum. Nauðsynlegt er að í hana veljist þingmenn, t.d. úr allsherjar- og samgöngunefnd.``

Ég tók því þannig, virðulegi forseti, að með þessu væri hæstv. ráðherra að gera því skóna að hún ætlaði að skipa mig í umferðaröryggisnefnd þar sem ég á sæti í báðum þessum nefndum og ég er tilbúinn að skoða það komi það til umræðu. Og kannski hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sitji þar einnig. (Gripið fram í: Þarf ekki einhver að vera formaður?) Ja, mér sýnist, virðulegi forseti, að ég uppfylli öll hæfisskilyrði til að taka að mér forustu í þessari nefnd ef marka má það sem fram kemur í þessum tölulið.

En að öllu gamni slepptu finnst mér vera mikilvægt áður en þetta mál verður afgreitt að vilji þingsins liggi fyrir, og að skilningur hæstv. ráðherra liggi líka fyrir í því hvað verið er að samþykkja. Umræðan tók talsverðan tíma í allshn. og menn töldu að hér væri verið að samþykkja þessa tillögu en ekki gefa undir fótinn með neitt af þeim áhersluatriðum sem hér koma fram.

Virðulegi forseti. Það eru fyrst og fremst þessar tvær grundvallarspurningar sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra, þ.e. í fyrsta lagi hvernig hún hyggist beita sér í því að fá inn í þennan málaflokk fjármagn þannig að við munum eiga möguleika á að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Það er vitaskuld forsendan fyrir því að við getum samþykkt till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi og þá ekki síður að við séum að samþykkja þann texta sem hér er en hitt séu aðeins hugmyndir sem þingið tekur ekki á neinn hátt afstöðu til. Ég held að þetta verði að liggja fyrir áður en við afgreiðum tillöguna Þá þætti mér líka vænt um, virðulegi forseti, af því að hæstv. ráðherra hefur heiðrað okkur með nærveru sinni í þessari umræðu að hún komi í ræðustól og geri Alþingi grein fyrir þessum hlutum.