Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:21:32 (7934)

2002-04-19 17:21:32# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nú vita hv. þm. að við höfum verið með umferðaröryggisáætlun í gildi hér á síðustu árum og það vill svo vel til að það markmið sem sett var í þeirri áætlun, þ.e. að fækka slysum í umferðinni, hefur náðst og það þrátt fyrir að bifreiðum hafi fjölgað alveg gríðarlega. Það er því ekki spurning að ég hef þegar lagt mikla áherslu á umferðaröryggismál og það er líka gert með aðstoð þingsins þar sem þingið þarf auðvitað að samþykkja í fjárlagagerð auknar tillögur t.d. til löggæslu. Ég tel að þegar sé búið að ná miklum árangri í þessum málum. En það breytir því ekki að alvarleg slys eru allt of mörg og þess vegna þurfum við að efla enn frekar þetta átak og standa saman í því.

En ég skil ekki alveg af hverju hv. þm. er alltaf að tala um að það þurfi að koma skýrt fram að þingið sé ekki að samþykkja þær tillögur sem hér koma fram. Hér er verið að fjalla um þáltill. sem þýðir það að þegar hún er samþykkt eftir síðari umræðu þá er það tillaga þingsins. Það er vilji þingsins sem kemur fram í þeirri tillögu. Það er því náttúrlega alveg ljóst að eftir að hv. þm. hafa fjallað um þáltill. í hv. allshn. og jafnframt um umferðaröryggisáætlun þá er verið að lýsa ákveðnum vilja í þessu sambandi, verið er að styðja þarna ákveðna áætlun. En í áætlun felst ekkert endilega það að allt verði framkvæmt frá a til ö sem talið er upp í smáatriðum í þeirri skýrslu. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þm. að þar geta verið ýmis atriði sem geta verið deildar meiningar um.

Ég tók eftir því fyrr í umræðunni að m.a. var minnst á það að Ísland kæmi ekki nógu vel út í samanburði við önnur lönd. Mig langar til að benda á mynd nr. 6 í skýrslunni til að sýna það að þar er Ísland í þriðja sæti, aðeins Noregur og Svíþjóð hafa náð meiri árangri, og það held ég að sé mjög góður árangur.