Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:23:57 (7935)

2002-04-19 17:23:57# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, LB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki kynnt mér í þaula hvort það sé rétt sem hér segir að þau markmið hafi náðst sem sagt er að hafi náðst á árunum 1997--2001, ég skal ekkert um það fullyrða. Hins vegar hefur komið fram í umræðunni að menn hafa dregið í efa að það sé rétt sem hérna kemur fram, það hefur a.m.k. verið dregið í efa en ég ætla ekkert að fullyrða neitt um það því að ég hef ekki kynnt mér það í þaula.

Hins vegar er engin tilviljun að verið sé að ræða hvað hér er á ferðinni og hvað verið er að samþykkja, því að sú umræða fór fram í allshn. Við erum bara að samþykkja þennan texta, þennan tillögutexta, það var skilningur okkar. Með því erum við ekki að samþykkja þá 15 punkta sem nefndir eru í athugasemdunum. Ég vil að þetta liggi alveg klárt fyrir þannig að menn viti nákvæmlega hvað það er. Þegar þáltill. er samþykkt verður auðvitað að samþykkja textann en hins vegar er ekkert óeðlilegt að skýra textann í samræmi við athugasemdir.

Það sem ég er að segja er að athugasemdirnar sem koma fram og þær tillögur sem þar koma fram eru þess eðlis að margar þeirra fengu mjög neikvæða umræðu í allshn., og þegar við ræddum þetta var ákveðið að taka þetta út og lýsa því yfir að að öðru leyti gerðum við ekki athugasemdir við þær tillögur, en fyrst og fremst værum við að samþykkja tillögutextann, ég vil að það liggi fyrir. Og ef hæstv. ráðherra fer þá leið að fylgja eftir þeim 15 tillögum eða svo þá er það ekki vegna þess að Alþingi hafi samþykkt það heldur vegna þess að hæstv. ráðherra hefur tekið ákvörðun um að gera það sjálf.