Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:51:28 (7941)

2002-04-19 17:51:28# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að skýrslan sýni einmitt að það markmið hafi náðst sem miðað var við í áætluninni frá 1997. Hér segir t.d. á bls. 10, með leyfi forseta:

,,Bráðabirgðatölur fyrir árið 2001 gefa til kynna að heildarfjöldi alvarlega slasaðra og látinna hafi verið innan viðmiðunarmarkmiða umferðaröryggisáætlunar en á árinu létust 24 og um 170 slösuðust alvarlega.`` --- Þó er tekið fram á bls. 11 að ekki hafi ,,náðst eins góður árangur við fækkun minni háttar meiðsla og óhappa þrátt fyrir að framfarir í hönnun bíla hafi orðið nokkrar og notkun bílbelta hafi aukist en það hefur hjálpað til við að draga úr alvarlegum slysum.`` Það er því alveg ljóst að ákveðinn árangur hefur náðst.

Hitt er annað mál, og ég tek þar undir með hv. þingmanni, að umferðarslys, sérstaklega svo alvarleg sem við erum að ræða um og ég tala nú ekki um banaslys, valda sorg og miklum þjáningum. Þau eru auðvitað allt of mörg og við eigum öll að leggja krafta okkar sameiginlega í að reyna að fækka þeim.