Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:03:45 (7944)

2002-04-19 18:03:45# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að sækjast eftir nánari skýringum. Hér hefur verið haft á orði að verið sé að snúa við hlutafélagavæðingu og færa undir ríkið starfsemi sem áður var á vegum hlutafélags. Staðreyndin er sú að eftir stendur að sjálf skurnin verður á vegum hins opinbera en það er í valdi dómsmrh. hvert af þeim verkefnum sem tilgreind eru í 7. gr. frv. yrði falið öðrum aðilum.

Hv. formaður allshn. lýsti skoðun sinni á hvað ætti að heyra til hinu opinbera og hvað ætti að fara til aðila á markaði. Í lagatextanum segir að það verði í valdi dómsmrh. hverju sinni hvernig þessum verkefnum verður ráðstafað. Finnst hv. formanni allshn. ekki nauðsynlegt að skilgreina nánar í lögunum hvernig þessum málum skuli háttað í stað þess að það sé háð geðþóttavaldi dómsmrh. hverju sinni hvert hann setur verkefnin?