Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:05:24 (7945)

2002-04-19 18:05:24# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki um neinn geðþótta ráðherra að ræða. Ég hef m.a. getið þess sem komið er inn á í ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að dómsmrh. skipi verkefnisstjórn sem hafi það hlutverk að undirbúa stofnun Umferðarstofnunar, eða Umferðarstofu eins og þessi stofnun kemur væntanlega til með að heita.

Ég tel ljóst að við erum að leggja þessar tvær stofnanir saman, annars vegar Skráningarstofuna hf., sem er eins og nafnið gefur til kynna einkaaðili en 100% í eigu ríkisins, og Umferðarráð, því að verkefnin sem falla undir Skráningarstofuna hf. eru stjórnsýsluleg.

Það er alveg ljóst að ýmis stjórnsýsluleg verkefni koma m.a. til með að falla undir Umferðarstofu. Með stjórnsýslulega hlutann gilda stjórnsýslulög og lög um persónuvernd þar sem um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða. Ég veit að hv. þm. Ögmundur Jónasson þekkir þau mál mætavel eftir að hafa setið í allshn. og tekið þátt í mjög góðri umræðu um persónuvernd. Þarna er um að ræða viðkvæmar upplýsingar sem heyra m.a. undir Schengen-upplýsingakerfið. Það er mjög líklegt að sá hluti verkefnanna sem byggist á stjórnsýslulögum fari til Umferðarstofu.

En varðandi þessa verkefnisstjórn held ég að það komi af sjálfu sér. Verkefnisstjórnin hefur í raun það hlutverk að ganga formlega frá þessum hlutum og til að reyna að skilgreina nákvæmlega hvert hlutverk Umferðarstofu verður.