Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:17:23 (7950)

2002-04-19 18:17:23# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir að verið er að horfa til ákveðinnar hagkvæmni með því að setja þennan grunn undir Umferðarstofuna. En kannski er þetta líka meira hugsað þannig að úr því verið sé að vinna í þessu máli og búa hana til þá sé kannski ágætt að sæta lagi og hafa hana þarna undir vegna þess að í rauninni er alveg full þörf á því að ræða grunna. Þó svo að ég sé með ákveðnar efasemdir um hvað ríkislögreglustjóraembættið sé orðið bæði víðfemt og stórt og mikið þá erum við hins vegar að ræða um grunna, Schengen og SIRENE, lögreglumálin og síðan umferðarmálin og þau eru raun ekki nema lítið brot af þessum grunni.

Þó svo við gætum hagkvæmni í staðsetningu þá finnst mér Skráningarstofan alveg geta verið jafnsjálfstæð og áður. Þetta er bara spurning um samstarf sem maður mundi tala sig saman um. Það er auðvitað verið að sæta lagi og horfa til hagkvæmni af því við erum lítil og fá. En mér finnst ekki alveg lógískt hvernig þetta tengist.