Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:57:16 (7955)

2002-04-19 18:57:16# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er líka búin að fara yfir það í dag hvaða hugsanlega hagkvæmni geti komið út úr því þegar verkefnastjórnin samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sem fylgir frv. verður búin að ákveða hvaða hlutverk renni til Umferðarstofunnar og hvaða hlutverk verði hugsanlega annars staðar.

Varðandi kostnað við Umferðarráð í dag þá er hann 77 millj. kr. Skráningarstofan hf. sem er 100% í eigu ríkisins kostar 230 millj. kr. Það þýðir að hin nýja stofnun kemur til með að kosta um 307 milljónir og það eru þau samlegðaráhrif sem verða. Það er alveg skýrt að þessi stofnun kemur ekki til með að kosta meira en þetta. Hugsanlega kemur þessi sparnaður fram þegar verkefnisstjórnin kemur með tillögur sínar eins og fjmrn. kemur inn á, en þessi verkefnisstjórn sem kemur til með að taka strax til starfa hefur einmitt það hlutverk að undirbúa stofnunina og sjá hvort hægt sé að spara eitthvað. En alla vega kemur hún ekki til með að kosta meira. Hún kostar ekki meira en það sem Umferðarráð hefur í dag, 77 millj. kr. og 230 millj. kr.

Hv. þm. nefndi líka hugsanlegan biðlaunakostnað. Eins og staðan er í dag hefur enginn hjá Umferðarráði lýst yfir öðru en því að ætla að taka þau verkefni sem bjóðast hjá Umferðarstofunni. En ef svo verður ekki mun ríkið að sjálfsögðu standa við þær skuldbindingar sem það þarf að standa við lögum samkvæmt.