Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 19:07:20 (7960)

2002-04-19 19:07:20# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Margur heldur mig sig. Nei, ég er afskaplega kátur og glaður. Ég sef ágætlega á nóttunni þótt Sjálfstfl. víki af vegi dyggðarinnar og geri annað en hann segir á hátíðis- og góðviðrisdögum. Það truflar mig ekkert sérstaklega þegar Sjálfstfl. segist vera flokkur frelsisins og er flokkur helsis. Það truflar mig ekkert sérstaklega þó að Sjálfstfl. segist vera í hinum almennu aðgerðum í atvinnumálum þar sem frelsi eigi að ráða ríkjum og ætlar síðan að skaffa 20 milljarða ríkisábyrgð til handa sérstökum vinum sínum í henni Reykjavík. (Gripið fram í.) Það truflar mig ekkert sérstaklega þó að Sjálfstfl. fari fram með það sem sérstakt gæluverkefni og það truflar mig ekkert sérstaklega sem samfylkingarmann að horfa framan í þann veruleika að ríkisbúskapurinn sé með þeim hætti að aldrei fleiri hafa unnið hjá ríkinu, aldrei meiri peningar runnið til ríkisins úr buddum landsmanna. (Gripið fram í.) Þó að Sjálfstfl. haldi því fram að hann sé flokkur frelsisins og einkaframtaksins er þetta bara alveg eins og --- ja, ég veit það varla --- eins og eitthvað sem er á hvolfi. Það stendur auðvitað ekki steinn yfir steini. (GuðjG: Hvað með tillögur Samfylkingarinnar?)

Kem ég þá að tillögum Samfylkingarinnar --- af því að við vorum í samanburðarfræðum heldur það ekki vöku fyrir mér þó að barátta okkar í Samfylkingunni fyrir raunverulegri samkeppni hér á markaði til hagsbóta fyrir neytendur fari mjög fyrir brjóstið á Sjálfstfl., þessum unnanda frelsisins í viðskiptum sem vill múlbinda allt fyrir sérstaka vini sína, og styrking Samkeppnisstofnunar í þeim efnum. Það truflar mig ekkert sérstaklega.

Samfylkingin kemur algerlega til dyranna eins og hún er klædd, og hv. þm. veit auðvitað miklum mun betur þegar hann skoðar í heild tillögur okkar við síðustu fjárlagagerð, veit hvernig þær litu út. Þær hefðu verið til útgjaldalækkunar fyrir almenning í þessu landi. (GuðjG: Fimm og hálfur milljarður.) (Forseti hringir.) Það er alveg sama, herra forseti, hvað hv. þm. hrópar af hliðarlínu, við á miðjunni, í framlínunni, vitum betur.