Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 19:11:14 (7961)

2002-04-19 19:11:14# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frv. til laga um breyting á umferðarlögum og ég vil hefja mál mitt á því að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að ætla sér að afgreiða þetta mál ásamt með öðrum stórmálum á elleftu stundu á síðustu dögum þingsins, gefa því ekki eðlilegan tíma í nefnd og senda það ekki út til umsagnar. Vegna þessara vinnubragða tel ég að það sé algjört skilyrði að þingið gefi þessu máli hér þá umræðu sem það þarf. Þess vegna tek ég undir gagnrýni hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sem gagnrýnir að hæstv. dómsmrh. skuli ekki viðstödd þessa umræðu. Hér erum við að gera grundvallarbreytingar á ákveðnum þáttum umferðarmála og það er í sjálfu sér ekki alveg boðlegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra skuli ekki heiðra samkomuna með nærveru sinni við þessa umræðu. Hér eru sannarlega margar spurningar á lofti og eðlilegt að hæstv. ráðherra sé hér til staðar til að svara fyrir ýmis mál sem hafa vaknað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Spurningarnar hafa auðvitað vaknað í því nefndarstarfi sem fram fór og ég tek það fram, herra forseti, að ég sat nefndarfundi allshn. sem varamaður hv. þm. Ögmundar Jónassonar og kom þannig að þessu máli. Ég hef því kynnt mér það eftir fremsta megni, eftir því sem hægt er á þeim litla tíma sem gefinn er, sérstaklega þegar litið er til allra annarra stórmála sem hér liggja fyrir og bíða afgreiðslu.

Herra forseti. Þegar mál eru tekin til afgreiðslu í þingnefndum er eðlilegt að alþingismönnum gefist færi á að spyrja gesti, sem hafa þá áður gefið umsagnir um málin, ítarlega út úr um ákveðin atriði sem menn hafa spurningar um. Venjulega --- það þarf kannski ekki að segja hæstv. forseta það --- fara þessir fundir þannig fram að það eru einn til tveir, kannski þrír gestir, jafnvel fjórir í einu, en þegar svo hratt er unnið sem nú er gert vill það brenna við að á nefndarfundi sé boðaður fjöldi manns. Þegar níu manna nefnd situr við borð með kannski 10, 15, jafnvel 20, gesti eins og gerst hefur í ákveðnum málum í þessari vinnulotu sem nú stendur yfir verður umfjöllunin í nefndinni auðvitað mun yfirborðskenndari og alls ekki er hægt að ætlast til að nefndarmenn geti farið jafnítarlega ofan í einstök atriði mála og venjulega er gert. Ég fullyrði, herra forseti, að hér er afar óvenjulega að málum staðið og mér finnst mál af þessu tagi útheimta vandaðri vinnubrögð og ítarlegri umfjöllun, fyrst þingnefndarinnar og síðan hér á Alþingi.

Það sem hér um ræðir er náttúrlega það að verið er að leggja niður stofnun, kannski fyrirtæki öllu heldur, Skráningarstofuna hf., og stofna nýja ríkisstofnun, Umferðarstofnun, eins og hún heitir í frv. en allshn. hefur gert það að tillögu sinni að Umferðarstofnun verði kölluð Umferðarstofa. Á þessum sömu dögum erum við að rúmstera frekar með stofnanaflóru ríkisins. Við fjöllum hér um tillögu um það að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður, að Umhverfisstofnun verði stofnuð, að Náttúruvernd ríkisins verði lögð niður, Hollustuvernd ríkisins verði lögð niður og breytt verði um nafn á Landgræðslunni.

[19:15]

Við erum nú stödd við þessa umræðu þar sem Umferðarstofnun og Umhverfisstofnun hafa verið til umræðu á sama tíma í tveimur ólíkum nefndum. Allt þetta nafnabrengl er orðið hálfþvælið og nafnaruglingur og þegar þingmenn voru farnir að gera sér grein fyrir því að það yrði kannski óljóst hvort símadömur væru að svara hjá Umhverfisstofnun eða Umferðarstofnun þá var sú snilldarlausn fundin að láta þessa Umferðarstofnun bara heita Umferðarstofu. Það mundi þá eiga samhljóm í nafni þeirrar stofnunar eða þess fyrirtækis sem verið er að leggja niður, þ.e. Skráningarstofu hf. Þetta er nú kannski ekki mergurinn málsins. En það er margt svolítið skondið, jafvel fyndið, við þetta frv. því að hér á sér stað einhvers konar afturábakeinkavæðing.

Ég átti orðastað við hæstv. dómsmrh. í aðdraganda fjárlagaumræðu vegna fjárlaga fyrir árið 2002 vegna ökuprófa og breytts fyrirkomulags, hugmynda um breytt fyrirkomulag á ökuprófum. Greinilegt var að þar átti að hagræða og breyta út af því kerfi sem við höfum rekið varðandi ökuprófin. Síðan hef ég satt að segja ekki fylgst neitt sérstaklega með þessum málaflokki, herra forseti. En það var ljóst í máli hæstv. dómsmrh. í aðdraganda fjárlaganna að uppi væru hugmyndir um einhvers konar útboð þjónustunnar við ökuprófin, þ.e. einhvers konar einkavæðing ökuprófa á Íslandi. Auðvitað gagnrýndi ég það harðlega á þeim tíma sem við fjölluðum um það.

Í umfjöllun um þetta mál kemur síðan í ljós --- og ég hefði kannski átt að heyra það einhvers staðar í fréttum en það er nú oft þannig að ýmislegt fer fyrir ofan garð og neðan hjá manni --- en það kom sem sagt í ljós í þessari umræðu að þann 1. apríl sl. tók fyrirtækið Frumherji til starfa, og hafði verið falið það verkefni að sjá um ökuprófin, að því er mér skilst, fyrir hönd Umferðarráðs því að í þingnefndinni ræddi framkvæmdastjóri Umferðarráðs um þetta fyrirbæri, þennan Frumherja og stöðuna eftir að samið var við Frumherja um framkvæmd ökuprófanna.

Herra forseti. Það er gagnrýnisvert að hægt skuli að einkavæða ökupróf á Íslandi nánast þegjandi og hljóðalaust án þess að um það fari fram nokkur efnisleg umræða í sölum Alþingis eða í fjölmiðlum. Ekki er loku fyrir það skotið að eitthvað hafi komið um þetta í fjölmiðlum. En ég fullyrði að umræðan um einkavæðingu ökuprófa á Íslandi hefur ekki verið tekin enn þann dag í dag. Hún var heldur ekki tekin í þetta sinn, þegar allshn. hafði þetta frv. til umfjöllunar, enda var lítill tími til að fara djúpt ofan í saumana á þessu máli.

Ég sagði afturábakeinkavæðing. Já, Skráningarstofan hf. verður lögð niður með þessu frv. og í staðinn tekur til starfa ríkisstofnunin Umferðarstofa.

Starfsfólk Skráningarstofu hf. skrifaði alþingismönnum bréf --- ég man nú ekki hvort það var í byrjun apríl eða lok mars --- þar sem fram komu áhyggjur þess af þeim áformum sem Skráningarstofa hf. hafði þá heyrt eitthvað um. Í þessari lotu núna, eftir að frv. kom fram, fékk allshn. Alþingis sérstakt bréf frá þessu sama starfsfólki. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er alltaf erfitt fyrir alþingismenn að fá erindi frá starfsfólki sem situr eða starfar í skjóli ríkisins og sinnir ákveðnum lögbundnum verkefnum og það er alltaf sorglegt að finna þegar stjórnvöld búa til óöryggi í ranni starfsfólksins sem reynir auðvitað eftir fremsta megni að sinna sínum störfum vel.

Áform hæstv. dómsmrh. um breytingar á þessu fyrirkomulagi og á þessari stofnanaflóru valda eðlilega óöryggi hjá starfsmönnum Skráningarstofu. Þess vegna skrifar starfsfólkið allshn. bréf og vill benda á ákveðin atriði í frv. sem kunna að orka tvímælis og þurfa kannski einhvers konar umsagnir frá þeim aðilum sem þetta mál varðar. En vegna tímaskorts var ekki hægt að taka ábendingum frá þessu ágæta starfsfólki og ekki var hægt að leita þeirra umsagna sem eðlilegt hefði kannski verið. Ég vil geta þess hér að starfsfólk Skráningarstofunnar segir í niðurlagi bréfsins til nefndarinnar að því finnist vera byrjað á þessu máli á öfugum enda. Þannig sé lagt fram frv. sem geri ráð fyrir því að stofnuð verði ákveðin verkefnisstjórn sem verði falið það verkefni að taka ákvarðanir um vistun verkefna sem nú eru unnin hjá Skráningarstofnunni hf. og Umferðarráði.

Það er alveg rétt hjá þessu ágæta starfsfólki að auðvitað hefði verið skynsamlegra að skipa þessa verkefnisstjórn fyrst. Kannski hefði átt að skipa einhvers konar starfshóp eða verkefnisstjórn meðan verið var að semja frv., sem hefði þá átt að fara yfir stöðu og stjórnsýslu umferðarmála áður en frv. var samið og lagt fram. Ég tek því undir þá gagnrýni starfsfólks Skráningarstofu að hér sé verið að byrja á öfugum enda og hér sé verið að gera tilraun til að lögfesta einhverjar niðurstöður einhverrar væntanlegrar verkefnisstjórnar sem er ekki fugl í hendi í dag, herra forseti. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar, ekki frekar en þau vinnubrögð sem beitt er þegar lagt er til að Þjóðhagsstofnun sé lögð niður enda gagnrýndum við þingmenn stjórnarandstöðunnar það harðlega á fundi Alþingis í gær.

Herra forseti. Það er allsendis óvíst hvort nokkur hagræðing skapist með þessum lögum. Það viðurkennir fjárlagaskrifstofa fjmrn. sem gefur umsögn með frv., enda er kannski alls ekki ætlun hæstv. dómsmrh. eða stjórnvalda að skapa hagræðingu. Frekar má segja, eðli málsins samkvæmt, að stjórnsýsluhlutverk af því tagi sem hér er um fjallað ætti eðlilega að vista hjá ríkisstofnun en ekki hjá hlutafélagi úti í bæ. Ég vil því taka skýrt fram að ég er í sjálfu sér alls ekki mótfallin því að málaflokkurinn sé vistaður hjá ríkisstofnun. Ég var hins vegar ekki sátt við það á sínum tíma þegar Skráningarstofa var stofnuð og ég upplifði það að verið væri að einkavæða hluti, stjórnsýsluhlutverk sem ætti eðli máls samkvæmt heima hjá stjórnsýslustofnun. Ef hægt er að segja að menn séu að hverfa frá villu síns vegar þá lýsi ég yfir ánægju minni með að þessi málaflokkur skuli nú vistaður í framtíðinni hjá ríkisstofnun en ekki hjá hlutafélagi.

Hins vegar verðum við að horfast í augu við raunveruleikann, herra forseti. Það starfar fólk hjá Skráningarstofu og það hefur ekki einasta hlutverki að gegna sem lýtur að umferðarmálum því að í vörslu Skráningarstofu hf. eru sömuleiðis ýmis tölvukerfi sem eru í eigu ríkisins. Hægt er að nefna það hér að þetta er t.d. tölvumiðstöð dómsmrn. sem kölluð er TMD þar sem tengd eru saman tölukerfi lögreglu og sýslumanna landsins. Einnig munu héraðsdómstólarnir vera tengdir inn á þetta víðnet TMD sem vistað er hjá Skráningarstofu hf. Sömuleiðis er þarna vegabréfakerfi og gagnagrunnur Útlendingaeftirlitsins og Schengen-gagnagrunnurinn. Það er alveg ljóst að starfsemi Skráningarstofu lýtur ekki bara að umferðarmálum og ökutækjaskráningu og slíku heldur eru aðrir tölvugagnagrunnar þar vistaðir og auðvitað fór talsverður sá tími sem nefndin þó gaf sér í umræðuna í að skilgreina það fyrir hv. þm. sem eiga sæti í allshn. hvaða hlutverki þessi Skráningarstofa gegndi í raun og veru.

Ég verð að segja að starfsfólk Skráningarstofu sem kom fyrir nefndina kom auðvitað afskaplega vel fyrir og málflutningur þess var mjög trúverðugur og --- ég man ekki íslenska orðið yfir ,,sympatískur``. En eins og ég segi þá skil ég að ákveðið óöryggi skuli vera til staðar og ég skil gagnrýni þeirra sem starfa fyrir fyrirtækið á stjórnvöld þó svo að ég sé því ekki fylgjandi að Skráningarstofan verði áfram hlutafélag með þau verkefni sem eðli málsins samkvæmt að mínu mati ættu að heyra undir opinbera stjórnsýslustofnun.

Eitt af því sem vekur óöryggi hjá starfsmönnum Skráningarstofunnar er, eins og kemur fram í frv., að einhverjir þættir af starfi Skráningarstofunnar gætu verið boðnir út í framtíðinni. Hvað ýtir undir þennan ótta hjá starfsfólkinu? Jú, það eru orð sem koma fram í 7. gr. frv., herra forseti, og hljóða svo:

,,Umferðarstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.``

Já, starfsfólk Skráningarstofu hf. er uggandi um að kannski eigi að taka einhverja þætti undan þeirri starfsemi sem þar hefur farið fram og bjóða út.

Á fundum nefndarinnar vorum við reyndar fullvissuð um það, eins og hægt er að fullvissa nefndarmenn í þingnefndum, að slíkt væri ekki í bígerð hjá ríkisvaldinu, að ekki væri yfirvofandi frekari útboðsstefna eða einkavæðing í þessum málaflokki þó svo að öllum væri kunn útboðsstefna ríkisstjórnarinnar. Um það var fjallað að kannski væri mögulegt að bjóða út á þessu sviði einhvers konar hönnun hugbúnaðar, en sagt að engin áform væru um að bjóða út tölvukerfin.

Þetta vil ég að komi fram hér, herra forseti, því að ég tel okkur í þingnefndinni hafa fengið í gegnum skilaboð frá ráðuneytisstarfsfólkinu fullvissu þess að slík áform væru ekki uppi og það er nauðsynlegt að ramma þau inn hér og sjá til þess að enginn gangi hér gruflandi í þeim efnum.

Aðrir sem gáfu allshn. konar umsagnir um það mál sem hér er um fjallað voru í raun bara Ökukennarafélag Íslands sem kom með tvö bréf til nefndarinnar. Nefndin tók til umfjöllunar ákveðna þætti sem Ökukennarafélagið hefur verið að reyna að vekja athygli á. Ökukennarafélagið vill auðvitað leggja ríka áherslu á að haft sé samráð við það og gagnrýndi að í aðdraganda frv. hefði það verið ónógt. Það ítrekaði að eðlilegt væri að leita til félagsins með samráð um setningu reglugerðar sem setja þarf samkvæmt 2. gr. frv. Svo gagnrýndi Ökukennarafélagið ákveðna þætti sem koma fram í 3. gr. frv.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fjallaði um þá gagnrýni í ræðu sinni þegar hún fylgdi málinu úr hlaði og segja má að nefndin hafi tekið til athugunar þessi gagnrýnisatriði og leggur fram brtt. um það atriði, þ.e. hvernig löggildingu þeirra starfsréttinda sé háttað. Tel ég að Ökukennarafélagið geti þannig vel við unað og að hlýtt hafi verið á þau atriði sem það bar hvað helst fyrir brjósti.

Herra forseti. En nú er rétt að ítreka það að engum var gefinn kostur á að gefa umsagnir um þetta mál. Og hvað vitum við nema fólk sem starfar innan þessa málaflokks úti á akrinum hafi athugasemdir sem hefðu kannski leitt til alveg jafneinfaldra leiðréttinga og þær athugasemdir sem komu frá Ökukennarafélaginu? Það vitum við ekki og fáum aldrei að vita vegna þess að svigrúmið sem ríkisstjórnin gefur fyrir vinnslu málsins er ónógt til þess að við getum sent málið út.

Nú höfum við fjallað lengi dags um umferðaröryggisáætlun og við höfum fjallað um þýðingu þess að sem flestir komi að stefnumótun í umferðaröryggismálum. Auðvitað eru umferðaröryggismál hluti af umferðarmálum í stóru samhengi og ef það er mikilvægt að almenningur, frjáls félagasamtök og aðrir komi með öflugum hætti að gerð umferðaröryggisáætlunar þá er ekki síður mikilvægt að þeir aðilar komi að samningu frv. eins og þess sem hér er til umfjöllunar. Áhugafólki um umferðarmál og umferðaröryggismál er því ekki mikil virðing sýnd með þessum vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Ég fullyrði, herra forseti, að við erum að brenna inni með það að fá athugasemdir frá vel meinandi fólki, fólki sem hefur betri yfirsýn en við sem hér sitjum, fólki sem vill ráða okkur heilt og hefur eflaust frjóar hugmyndir og gæti gert þetta frv. þannig úr garði að miklu meiri sómi væri að en raun ber vitni.

[19:30]

Herra forseti. Í umfjöllun nefndarinnar var örlítið fjallað um atriði sem fram kom í umræðunni fyrr í dag um umferðaröryggisáætlun, þ.e. vistun málaflokksins. Nefndin var upplýst um að í Svíþjóð hefðu menn á sínum tíma lagt bæði umferðarmálin sem slík og umferðaröryggismálin undir samgrn. og Vegagerð. Greint var frá því að erfiðleikar Svía væru fram til þessa fólgnir í því að sú rödd sem við erum vön að heyra frá Umferðarráði heyrðist lítt eða illa í Svíaríki. Þess vegna var mælt með því að málaflokkurinn væri vistaður á tveimur stöðum, þ.e. að hinar mýkri hliðar hans heyri undir dómsmrn. áfram og harðari hliðin, sem snýr að mannvirkjagerð, vegáætlunum og samgöngumálum, heyri undir samgrn.

Þessi sjónarmið hafa tekist svolítið á. Auðvitað er aldrei hægt að skilja alveg þarna á milli en umræðan um vistun málaflokksins er engu að síður þýðingarmikil. Það skiptir máli að hún fari fram, m.a. vegna þess að það skiptir okkur öll máli að rödd Umferðarráðs heyrist skýrt og greinilega í gegnum allan þann glymjanda sem okkur er boðið upp á í samfélagi nútímans. Umferðarráð hefur gert það sem í þeirra valdi hefur staðið til að láta þann boðskap heyrast sem þeim er ætlað að útbreiða samkvæmt lögum. Það kom fram í máli framkvæmdastjóra ráðsins, Óla H. Þórðarsonar, þegar hann kom fyrir nefndina að hann telur Umferðarráð hafa verið fjársvelt hingað til og það skorti fjármagn til þess að reka þann áróður sem nauðsynlegur er á hverjum tíma í þessum málaflokki. Framkvæmdastjórinn lét í ljós ákveðnar áhyggjur varðandi það að ef hrista ætti upp í málaflokknum yrði auðvitað að skoða fjármagnið til málaflokksins á sama tíma.

Þannig er allt á sömu bókina lært í þessu máli. Umræðan er sú hin sama og fram fór varðandi Þjóðahagsstofnun og sama umræða og fram fór í umhvn. varðandi Umhverfisstofnun. Það er auðvitað enginn tilgangur í því, herra forseti, að rúmstera til í stofnanaflóru ríkisins algjörlega formsins vegna án þess að því fylgi það vítamín sem fólgið er í auknu fjármagni til viðkomandi málaflokks.

Framkvæmdastjóri Umferðarráðs kvartaði sömuleiðis undan því að hið nýskipaða Umferðarráð sem nú starfar skyldi ekki fá tækifæri til að veita umsögn um málið. Það hefði sannarlega verið verðugt verkefni fyrir nýskipað ráð að takast á við að gefa umsögn um nákvæmlega þetta mál. Ef vel hefði verið að verki staðið og málið hefði komið fram tímanlega í þinginu þá hefði þessu nýja Umferðarráði auðvitað verið falið það verkefni. En eins og ég segi förum við á mis við góðar hugmyndir víða að og örugglega frá hinu nýskipaða Umferðarráði einnig.

Sumir hafa gagnrýnt að Umferðarráð eigi áfram að vera til samkvæmt þessu frv., það eigi áfram að vera jafnstórt. Sumir hafa nú haft það á orði svona í gegnum tíðina að Umferðarráð sé óttaleg risaeðla í kerfinu. Það er kannski svolítið til í því og væri svo sem hægt að hafa langt mál um það. Ég held að vilji þeirra sem komu fyrir nefndina hafi staðið til að leyfa nú risaeðlunni að hreyfa sig og fá nýtt blóð í kroppinn. En kannski hefðum við fengið nýjar hugmyndir ef við hefðum fengið inn nýtt og ferskara fólk á fundi nefndarinnar. Ég fullyrði, herra forseti, að það er fullt af ungu fólki sem er nýkomið með ökupróf í dag sem hefur hugmyndir til málanna að leggja. Ef alþingismenn sinntu því hlutverki að efna til umræðu og fræðslu líka úti í samfélaginu með málflutningi sínum hér á Alþingi hefðum við auðvitað getað fengið til fundar við nefndina ungt, áhugasamt fólk sem hefði kannski nýja sýn á málaflokkinn, gæti fært okkur inn nýja vinkla og ég sakna þess að það fólk skuli ekki hafa haft möguleika eða tækifæri til að koma fyrir nefndina.

Eitt af því sem kom til umfjöllunar í nefndinni kom einnig til tals í umræðunni fyrr í dag um umferðaröryggisáætlunina en það voru störf rannsóknarnefndar umferðarslysa. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson gerði 11. gr. í frv. að umtalsefni hér áðan. Hann áttaði sig kannski ekki á því að sú grein fjallar auðvitað um nefnd sem starfar í dag samkvæmt 114. gr. umferðarlaganna sem við nú störfum eftir. Hún hefur starfað frá árinu 1996 og verið skipuð þremur mönnum. Nefndin hefur aðsetur hjá Umferðarráði og heyrir til dóms- og kirkjumrn. Það er alveg ljóst að nefndin hefur afskaplega veigamiklu hlutverki að gegna. Það er hennar að ákveða hvaða flokkar umferðarslysa eru rannsakaðir, t.d. banaslys í umferðinni eða vissir flokkar annarra alvarlegra umferðarslysa og hvernig unnið skuli að þeirri rannsókn.

Það er auðvitað deginum ljósara, herra forseti, að nefnd eins og rannsóknarnefnd umferðarslysa verður að hafa nægilegt fjármagn til þess að starfa og nægilegan styrk til þess að sinna hlutverki sínu. En það er greinilegt á umræðunni sem fram fór í allshn. að þar hefur talsvert skort á og hlýtur að þurfa að efla þá nefnd til muna í hinu breytta landslagi umferðarmála sem við horfum fram á.

Herra forseti. Ég hef nú stiklað á stóru í því sem fram kom hjá gestum allshn. þegar fjallað var um þetta frv. í nefndinni og tæpt á gagnrýni minni á þetta mál. Ég legg gífurlega áherslu á að stjórnvöld efni til öflugrar samvinnu við almannasamtök, áhugafélög og einstaklinga. Ég held að það væri alveg þess virði að skoða hugmyndafræði Árósasamningsins. Þó að sá samningur eigi við um frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála þá held ég að umferðarmálin geti í ákveðnu tilliti flokkast undir umhverfismál. Hugmyndafræðin sem Árósasamningurinn gengur út á er auðvitað í fullu gildi hvað varðar þann málaflokk sem hér er fjallað um. Ég held að samtal stofnana ríkisins og almennings í þessum málaflokki sé alveg lífsnauðsynlegt.

Ef við ætlum í alvöru að færa umferðarmál til betri vegar þá held ég að við sækjum næringuna fyrst og fremst út á akurinn til fólksins, til þeirra sem þurfa að komast áfram í umferðinni. Ég tel lífsnauðsynlegt að þar séu mynduð tengsl og myndað frjótt og gjöfult samstarf. Ég tel að við getum horft fram á jákvæða tíma í þróun umferðarmála og umferðaröryggis á Íslandi og ég treysti því auðvitað, herra forseti, að einmitt það sé hér lagt upp með.

Læt ég þá lokið þessari fátæklegu umfjöllun um umferðarlögin. Ég hefði satt að segja viljað hafa hana lengri og ítarlegri, hefði viljað sjá að hér væri áhugi á dýnamískri samræðu um málið. En í ljósi anna og erfiðleika við að koma málum hér á dagskrá, herra forseti, látum við þetta nægja að sinni.