Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:18:36 (7968)

2002-04-20 10:18:36# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta finnst mér alveg stórkostlegt, þegar á að skýra þá hagsveiflu sem hefur farið yfir heiminn allan, aukinn hagvöxt sem gerir vart við sig í öllum okkar viðskiptaríkjum, skýra hann á grundvelli EES-samningsins, þess vegna hafi aukinn hagvöxtur orðið í heiminum. Íslendingar hafa notið þeirrar hagsveiflu ekki síður en aðrar þjóðir þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér hefur setið og hefur því miður séð til þess að góðærinu hefur verið mjög misskipt á milli þegnanna.

Það er alveg rétt að þegar samningur er gerður þá þarf maður að undirgangast þær skyldur sem hann setur manni á herðar, ég tek alveg undir það að sjálfsögðu. Við mátum það svo á sínum tíma mörg að skyldurnar væru það þungar að heildarpakkinn yrði okkur ekki til góðs þegar hann væri gerður upp og frá þessu hef ég ekki hvikað. Verst þótti mér þó að sú ríkisstjórn sem þá sat skyldi meina þjóðinni að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan samning, það þótti mér afar slæmt og gagnrýnivert. Og mér finnst það eins gagnrýnivert á árinu 2002 eins og mér þótti það fyrr á tíð þegar samningurinn var keyrður hér í gegn.

En varðandi orkubúið þá finnst mér það alveg furðulegt ef mönnum finnst það í alvöru vera í lagi að innleiða tilskipanir á borð við þá sem við sitjum nú uppi með í orkugeiranum, ef það hefði verið hægt að tryggja okkur undanþágu sem betur hefði staðið vörð um íslenska hagsmuni. Þá hefði okkur að sjálfsögðu verið í sjálfsvald sett hvað við gerðum. En ákvörðunin hefði verið okkar en ekki skriffinnanna í Brussel.