Breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:43:09 (7975)

2002-04-20 10:43:09# 127. lþ. 124.23 fundur 622. mál: #A breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)# þál. 15/127, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það mál sem við ætlum að ræða í næstu viku virðist a.m.k. í mikilli andstöðu við það sem við erum að samþykkja hér. Reyndar hef ég grun um að málið sé í andstöðu við þær samkeppnisreglur sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja og geti hugsanlega verið í andstöðu við þær. Það hafa komið fram mörg sannfærandi rök í umræðunni fyrir því að svo kunni að vera. Ég hlýt að spyrja hv. form. utanrmn. hvort nefndin hafi ekki örugglega gengið úr skugga um að þetta sé þannig. Er það ekki örugglega þannig að ríkisstjórnin sé búin að kanna ítarlega að um það sé ekki að ræða að við skuldbindum okkur í dag til að framfylgja reglum sem við ætlum hugsanlega að brjóta strax á mánudag eða þriðjudag? Ég tel mikilvægt að hv. ríkisstjórn horfi á það sem hún er að gera í samhengi og skuldbindi sig ekki til að framfylgja ákveðnum ákvæðum í alþjóðasamningum einn daginn en ætli svo að fara fram hjá þeim daginn eftir. Það þarf að liggja ljóst fyrir að fram hafi farið einhver könnun á þessu þannig að ekki verði slíkt tjón sem þetta gæti falið í sér.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að miðað við þennan texta hér, varðandi það að binda þessa ríkisaðstoðarreglur í ákveðið kerfi, er m.a. verið að heimila afturköllun með vöxtum. Þá hljóta menn nú að velta alvarlega fyrir sér hvort þetta sé ekki of mikil áhætta, þ.e. að veita þessa ríkisaðstoð án þess að það liggi algerlega ljóst fyrir að hún verði heimil.

Ég kalla eftir því frá hv. frsm. nefndarinnar, sem er jafnframt þingflokksformaður Sjálfstfl., hvort ekki hafi örugglega verið gengið úr skugga um að þetta sé ekki svona, að það sé fullkomlega búið að skoða það ofan í kjölinn.