Breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:48:05 (7978)

2002-04-20 10:48:05# 127. lþ. 124.23 fundur 622. mál: #A breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)# þál. 15/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ætli ég reyni þá ekki að hafa ræðu mína svona sjónarmun lengri en ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var.

Ég tel að það sé fullkomlega gilt að taka hér upp umræðu um frv. um ríkisábyrgð, hina stórfelldu ríkisábyrgð til fyrirtækisins deCODE í tengslum við þessa breytingu. Það er að vísu þannig að frv. um þá ríkisábyrgð er nokkuð sérkennilegt um margt, m.a. vegna þess að það víkur til hliðar lögunum um ríkisábyrgðir og aftengir þau gagnvart ríkisábyrgðinni til deCODE í öllum greinum nema einni, 5. gr. þeirra laga sem gilda um ríkisábyrgðir og fjallar um eftirlitshlutverk ríkis\-ábyrgðarnefndar eftir að ábyrgð hefur verið veitt. En tengsl þess máls við hinn evrópska rétt og hlutverk Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, eru náttúrlega augljós. Þau eru m.a. vegna þess að við 1. umr. deCODE-málsins viðurkenndi hæstv. fjmrh. að það kynni að vera álitamál hvort sú aðstoð stæðist hinar evrópsku reglur. Og ég hef skilið það svo að ekki sé útilokað að farið verði fram á forúrskurð áður en ábyrgðin verður veitt. Um er að ræða heimildarlög, svo sérkennilegt sem það nú er, þar sem fjmrh. fær vald til þess að taka upp pennann og skrifa 20 milljarða ávísun ef honum sýnist svo, og ákvæðum laganna um ríkisábyrgð og áhættumat og annað því um líkt er ýtt til hliðar. Það getum við út af fyrir sig gagnvart hinum íslensku lögum að svo miklu leyti sem það brýtur þá ekki hinn evrópska rétt sem við erum skuldbundin af. Og það er alveg ljóst að það gæti komið til kasta Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, að meta það hvort ábyrgðin til deCODE væri samrýmanleg ákvæðum um ríkisaðstoð, því ríkisábyrgð er ekkert annað en ríkisaðstoð eða stuðningur og það gæti gerst annað hvort eftir á með því að málið væri kært eða það gæti gerst í gegnum það að farið yrði fram á forúrskurð.

Ég er ekki í neinum vafa um að ábyrgðin mun flokkast, ef hún verður veitt, sem ríkisaðstoð, ríkisstuðningur. Álitamálið er þá hvort hún er heimil vegna þess að um sé að ræða þannig þróunarstarfsemi, stuðning við rannsóknir eða þróun eða nýsköpun af því tagi sem heimilt er að styðja sérstaklega með opinberum fjármunum. Og það mun alls ekki verða einfalt mál að meta, fyrir nú utan öll hin álitamálin sem tengjast þá fordæminu og jafnræðisreglu gagnvart öðrum o.s.frv.

Um efni þessarar þáltill. hins vegar þröngt séð, þá er í sjálfu sér ekkert annað um það að segja en að hér er á ferðinni uppfærsla á tilskipun sem byggir á þeim megin\-grunni að ákvæði ESA séu sambærileg við systurstofnanirnar í hinni stoðinni hjá Evrópusambandinu. Og það út af fyrir sig held ég að sé engin spurning að ætlunin er að tryggja í anda tveggja stoða kerfisins fræga, að eftirlitsheimildirnar séu þarna að öllu leyti samrýmanlegar.

Ákvæðin sem síðan gilda um þetta almennt og að hluta til er breytt hér gætu líka mögulega átt eftir að koma við sögu í þessu deCODE-ríkisábyrgðarmáli eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir benti á, t.d. ákvæði um endurgreiðslur á ólögmætri ríkisaðstoð. Segjum að ábyrgðin verði veitt. Hún er umreiknuð í fjárgildi vegna lægri fjármagnskostnaðar við þessa fjármögnun talin vera af stærðargráðunni 3--4 milljarðar kr. ef umreiknað er yfir í beina peninga sem ríkisábyrgðin er talin lækka fjármögnunarkostnað á þessum 35 milljarða pakka yfir eitthvert árabil, þá er hægt að fá út tölur af þessari stærðargráðu.

Segjum að þetta verði flokkað sem ríkisaðstoð upp á 3,5 milljarða og svo komi í ljós í kærumálum eftir ár eða tvö að þetta hafi verið ólögmætt. Þá ber samkvæmt ákvæðunum hér að endurgreiða aðstoðina og með vöxtum. Og þá að sjálfsögðu kemur ESA heldur betur við sögu og mögulega dómstóllinn einnig.

Það er því ekki nema eðlilegt að menn nefni þessi mál hér í samhengi og æskilegt hefði auðvitað verið að tími hefði unnist til þess, bæði í utanrmn. eða þá í samstarfi við efh.- og viðskn. að fara yfir þetta mál.

Eins þekki ég ekki til, ég játa að ég hef ekki haft tíma til að setja mig inn í það nákvæmlega, hvaða lagabreytingar koma til með að leiða af þessu. Fljótt á litið gefur maður sér að það hljóti að þurfa að breyta lögunum um ríkisábyrgðir, þeim lögum sem þar um gilda, það er a.m.k. ljóst að það þarf að vera hægt að fullnusta niðurstöður sem kunna að verða á grundvelli þessara reglna, t.d. að sækja hina ólögmætu ríkisaðstoð með vöxtum o.s.frv. Einnig væri fróðlegt að vita í hvaða samhengi hin almennu ákvæði núgildandi laga frá 1991 eða 1992, ef ég man rétt um ríkisaðstoð, eru í þessu sambandi.

Fyrir nú utan, herra forseti, hvað það væri fróðlegt í sögulegu samhengi að rifja upp umræðurnar sem urðu um það mál á sínum tíma þegar ný ríkisstjórn ætlaði að brjóta heldur betur í blað og hætta öllu sukki og óráðsíu í sambandi við ríkisábyrgðir sem verið hefði og hverfa frá sjóðasukki og fortíðarvanda og nú skyldi brotið í blað og nýir tímar innleiddir. Til þess að undirstrika þetta enn frekar voru sett inn í lögin um ríkisábyrgðir sérstakur kafli um áhættumat, að það skyldi aldrei veita eina einustu krónu í ríkisábyrgð nema það væri alveg sérstaklega metið hver áhættan væri í því sambandi. Mér er þetta nokkuð minnisstætt því um þetta voru fluttar eldlegar ræður af valdhöfunum sem þá voru komnir á stólana, þ.e. hæstv. forsrh., Davíð Oddsson og meðreiðarsveinar hans á þeirri tíð.

Nú ber svo við á því herrans ári, anno domini 2002, að þau lög eru bara einfaldlega tekin úr sambandi þegar það hentar og á að skutla einu stykki 20 milljarða ríkisábyrgð hér út á silfurfati og sérstaklega hlýtur kaflinn um áhættumat að teljast áhugaverður í þessu sambandi, því ef eitthvað er stórt í sniðum, þá er það 20 milljarða ríkisábyrgð til eins fyrirtækis eða það sem veðjað er á eina viðskiptahugmynd, ef svo má að orði komast.

Herra forseti. Ég held að ég láti þessar athugasemdir mínar nægja.