2002-04-20 11:01:46# 127. lþ. 124.24 fundur 623. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn (öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum o.fl.)# þál. 16/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu því að hér á að fullgilda viðbótartilskipun sem varðar réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og styð fyrirvaralaust að það verði gert með þeim hætti sem þáltill. gengur út á. Enginn vafi leikur á því að þessi réttur eða sú vernd sem starfsmenn samkvæmt þessum reglum njóta í sviptingum á hlutabréfamarkaði með fyrirtæki eða þegar þau eru að sameinast og renna saman, eitt er að kaupa annað o.s.frv., skiptir mjög miklu máli. Í vaxandi mæli, held ég, eru þær breytingar sem óvænt verða á högum starfsmanna tengdar slíkum sviptingum frekar en kannski því að fyrirtækin sem slík hverfi af sjónarsviðinu eða mönnum sé sagt upp. Mjög gjarnan verða einmitt breytingar á högum manna í tengslum við slíkar hræringar í atvinnulífinu. Þá er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að starfsmenn standi ekki uppi varnarlausir, að réttindi þeirra yfirfærist og að ákvarðanir sem örfáir menn í krafti fjármagns eða eignarhalds á fyrirtækjum geta tekið á einni nóttu, geti ekki gert starfsmenn tugum, hundruðum eða þúsundum saman réttlausa. Til þess er þetta regluverk upp sett, að tryggja að ákvæði kjarasamninga varðandi kaup og kjör, ráðningarfestu og annað því um líkt, haldist eftir því sem verða má. Það er að sjálfsögðu hið besta mál, herra forseti, og þó fyrr hefði verið, að taka þessa tilskipun hér inn.

Hitt verð ég að segja, því miður, af því þannig vill til að ég sit jafnframt í félmn. þar sem til umfjöllunar er frv. til laga um nauðsynlegar breytingar vegna tilskipunarinnar, að þar hef ég fyrirvara á einfaldlega vegna þess að ég er ekki sannfærður um að þar hafi heimavinnan verið unnin nógu vel til þess að útfæra þennan rétt og ákveða að hvaða marki við setjum hann í sumum tilvikum rýmri hér inn í okkar löggjöf en tilskipunin að lágmarki gerir. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst heldur leiðinlegt að verða vitni að þessu aftur og aftur þegar verið er að taka hér inn ýmsar tilskipanir sem tengjast félagslegum réttindum eða rétti launamanna, þ.e. að þá man ég varla eftir einu einasta tilviki þar sem mönnum hefur þótt koma til greina að útfæra hér hlutina þannig með sjálfstæðum hætti að í einhverjum tilvikum væri verið að færa mönnum rýmri rétt en við værum að lágmarki skuldbundin til.

Sá misskilningur má alls ekki vaða uppi, herra forseti, að við höfum ekkert sjálfræði í þessum efnum. Það höfum við að sjálfsögðu. Við getum litið á tilskipun af þessu tagi sem lágmark og síðan útfært í löggjöf okkar ríkari rétt eftir því sem okkur sýnist ástæða til. Fyrir því geta verið fullgildar íslenskar ástæður að eitthvað sem ekki er tryggt í tilskipun af þessu tagi og sett er af Evrópusambandinu eða samstarfi aðila hins Evrópska efnahagssvæðis, geti átt rétt á sér á Íslandi.

Ég ætla að nefna mjög gott dæmi úr þessari tilskipun hér, þ.e. það efnisatriði að flotinn, fiskiskipafloti og hafskipafloti landsmanna verður undanþeginn þessum réttindum með öllu nánast eins og hann leggur sig því hér er orðið hafskip skilgreint þannig að það sé í raun skip sem komist út á sjó, aðeins út fyrir bláfjörurnar. Þetta er sem sagt ekki hafskip í þeim skilningi að það sigli á heimshöfunum, heldur er fyrst og fremst um að ræða öll stærri skip, hafgangandi skip og ljóst er að t.d. stærstur hluti fiskiskipaflota okkar lendir þar af leiðandi sjálfkrafa undir þessu úr því að sú skilgreining er tekin upp.

Herra forseti. Hefði ekki verið ástæða til þess í undirbúningi þessa máls, að sjálfsögðu í samráði við aðila vinnumarkaðarins og þá ekki síst samtök sjómanna, að fara yfir það hvort þessi mikilvæga stétt á vinnumarkaði landsins ætti að vera þarna undanskilin þó svo að þessi tilskipun sé þannig úr garði gerð úti í Evrópu? Þar eru menn væntanlega fyrst og fremst að hugsa um kaupskipaflotann vegna ýmissa sérákvæða og alþjóðlegra ákvæða sem gilda um hann, m.a. alþjóðlegrar skipaskráningar og slíkra hluta sem geta gert það að verkum að það væri jafnvel snúið mál að koma þessum réttindum við að öllu leyti gagnvart þeim.

En þetta hefur það í för með sér, ef ég hef skilið þetta mál rétt, að tilskipunin svona upp tekin með þá hugsun að leiðarljósi, að því er virðist, að hvergi sé tryggður nema blálágmarksréttur sem hún felur í sér, þýðir þetta gagnvart íslenskum sjómönnum. Mér finnst í raun og veru varla hægt annað, herra forseti, en að þetta fái a.m.k. einhverja umræðu þegar málið kemur hér fyrir, bæði núna þegar þessi tillaga hlýtur hér umfjöllun og er til seinni umræðu og síðan þegar lagafrv. kemur á dagskrá, sem væntanlega verður á næstunni, og það á að útfæra í löggjöf okkar réttinn sem á tilskipuninni byggir.

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að koma þessum sjónarmiðum og þessum fyrirvara mínum á framfæri. Hann tengist ekki upptöku tilskipunarinnar sjálfrar sem slíkrar, sem hér er lögð til í þáltill. efnislega heldur fyrst og fremst útfærslunni sem kemur þá á dagskrá þegar lagafrv. sjálft verður hér til umfjöllunar.