Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:10:45 (7983)

2002-04-20 11:10:45# 127. lþ. 124.25 fundur 636. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál. 17/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni hið ágætasta mál þar sem verið er að koma á skilagjaldi eða úrvinnslugjaldi á notaðar bifreiðar og verið að reyna að koma því umhverfismáli í sæmilegar horfur. Það er stórt þrifnaðarmál, ef ég leyfi mér að orða það svo, miðað við það hvernig Íslendingar hafa umgengist slíka hluti fram undir þetta. Það þarf ekki annað en aka hér um borg og bæi eða sveitir til þess að sjá að víða er mikil mengun af bílhræjum og ekki bara sjónmengun, heldur er líka um að ræða í sumum tilvikum að hættuleg efni geta farið úr rafgeymum, mengað jarðveg o.s.frv.

Herra forseti. Það er að vísu miður að heimavinnan er langt á eftir og umhvrn. upplýsti að það verði fyrst með haustinu eða á haustþingi að unnt verði að vænta löggjafar eða frv. þar sem heimildir stofnast til gjaldtökunnar og lagarammi verður settur um rekstur úrvinnslu- og skilakerfisins.

Við verðum að vona að vel takist til í þeim efnum og að ekki fari of mikill tími til spillis. Það er einnig mikilvægt, herra forseti, að kerfið taki sem fyrst til notaðra bifreiða þannig að ekki verði bara um að ræða kerfi sem smátt og smátt kemur til sögunnar í gegnum nýjar bifreiðar sem koma inn í landið og taka gjaldið á sig heldur verði um að ræða virkt kerfi sem taki sem allra fyrst til allra skráðra bifreiða. Það mun vera ætlunin samkvæmt því sem upplýst var í hv. þingnefnd um þetta mál og verður að treysta á að svo sé.

Herra forseti. Reyndar er ástæða til að minna á í þessu sambandi að því miður fer ekki hjá því að það læðist að manni sá grunur að við séum óvenju aftarlega á merinni hvað varðar upptöku tilskipana á sviði umhverfismála. Það hefur staðið í mönnum af einhverjum ástæðum, annaðhvort vinnunnar vegna eða þá af pólitískum ástæðum, að taka hér upp ýmis ákvæði sem tengjast t.d. umbúðum og eðlilegri gjaldtöku þar sem sá greiðir sem mengar eða sá sem er að selja varning í umbúðum tekur á sig þær skyldur sem því eru samfara að taka við þeim aftur o.s.frv. Íslendingar virðast ekki sérstaklega framarlega í röðinni þegar kemur að þessum hlutum af einhverjum ástæðum. Það finnst mér að sjálfsögðu miður, herra forseti. Því ættum við að reyna að leggja metnað okkar í að vera í fararbroddi þeirra ríkja sem taka á þessum þáttum umhverfismálanna og ættum auðvitað ekki að þurfa að gera hvert hæti í þeim efnum vegna þess að á okkur sé þrýst utan frá til þess. Það væri ákaflega gaman að sjá eitthvað gerast á sjálfstæðum íslenskum forsendum í þessum málum.

Þegar maður fer að velta því fyrir sér þá er eiginlega merkilegt að t.d. í þessu tilviki skuli þetta ekki hafa verið innleitt fyrir lifandis löngu síðan úr því menn hafa þó komið sér upp skilvirku skilagjaldskerfi á umbúðum undan gosdrykkjum og öðru slíku og starfrækt það með ágætum um árabil. Af hverju í ósköpunum hafa menn þá ekki útfært þetta gagnvart fleiri vöruflokkum, t.d. þeim hér sem í hlut á, þ.e. bifreiðum með öllu því sem þeim fylgir, þ.e. að koma þeim í lóg eða endurnýta þær eins og kostur er?

Herra forseti. Ég fagna þessari tilskipun. En mér þykir miður að heimavinnan skuli liggja svona langt á eftir.