Samningur um vörslu kjarnakleyfra efna

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:18:34 (7985)

2002-04-20 11:18:34# 127. lþ. 124.26 fundur 686. mál: #A samningur um vörslu kjarnakleyfra efna# þál. 18/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá utanrmn. um till. til þál. um aðild að samningi um vörslu kjarnakleyfra efna.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um vörslu kjarnakleyfra efna sem gerður var í Vínarborg 3. mars 1980.

Samningur um vörslu kjarnakleyfra efna er á meðal þeirra samninga sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem hryðjuverkasamninga. Hann hefur tvenns konar markmið. Annars vegar gerir hann tilteknar kröfur um hvernig vörslu kjarnakleyfra efna sem nota skal í friðsamlegum tilgangi skuli háttað þegar slík efni eru flutt milli landa. Hins vegar mælir hann fyrir um hvers konar ráðstafanir aðildarríki skuli gera vegna ólögmætra athafna með kjarnakleyf efni þegar þau eru flutt milli landa eða eru í notkun, geymslu eða flutningi innan lands.

Aðild að samningnum kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur dómsmálaráðherra þegar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.