Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:33:46 (7992)

2002-04-20 11:33:46# 127. lþ. 124.31 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, Frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu breytinga á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar breytinga á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl sem samþykktar voru á 25. aukaþingi aðila stofnunarinnar í Washington 17. nóvember 2000.

Með breytingum á samningnum er alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl einkavædd og fyrirtækið INTELSAT sett á stofn, auk alþjóðlegrar eftirlitsstofnunar, ITSO. Samkvæmt greinargerð með tillögunni telur samgönguráðuneytið að samningurinn kalli ekki á lagabreytingar hér á landi og var sá skilningur staðfestur af fulltrúa utanríkisráðuneytis á fundi nefndarinnar.

Ekki er gert ráð fyrir að stofnun eftirlitsstofnunar hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir þau ríki sem aðild eiga að samningnum enda er gert ráð fyrir að fjármunir komi frá fyrirtækinu til reksturs hennar.

Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir með fyrirvara.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.