Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:05:13 (8000)

2002-04-20 12:05:13# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Nei, herra forseti, ég held að enn komi fram misskilningur. Ég held að þessar skilgreiningar sem þarna eru dregnar upp vísi til þeirra aðstæðna að réttindin samkvæmt þessum lögum gildi ekki. Þær verða ekki yfirfærðar og notaðar til þess að taka af mönnum rétt sem þeir hafa samkvæmt öðrum samningum eða önnur lögvernduð réttindi. Ég held að það sé ekki þannig. (PHB: Þetta eru nýrri lög.) Já, en þar með er ekki sagt, þó að lög séu mismunandi gömul, herra forseti, að yngri lög upphefji sjálfkrafa ákvæði annarra laga. Þau þurfa þá að gera það með pósitífum hætti. Það þarf að taka það fram að þessi lög komi í staðinn fyrir eða gildi um aðstæður sem annars staðar er fjallað um.

Það er alls ekki hægt að gefa sér yfirfærslu eða lögjöfnun af því tagi sem hv. þm. gerir þarna. Ég held að það sé ekki rétt. Væri eitthvað hæft í þessu væri það akkúrat dæmi um að við hefðum þurft að skoða þetta betur. Það var nú m.a. það sem ég sagði, að mér fyndist ansi stórt á stykkinu að ákveða að íslenski sjávarútvegurinn eins og hann leggur sig, þ.e. allur fiskiskipaflotinn, sé undanþeginn án þess að farið sé betur yfir það mál.

Varðandi atvinnuleysið í Evrópusambandinu og þessa kenningu sem mér finnst hv. þm. rekja til umfangsmiklla og íþyngjandi reglna á vinnumarkaði í Evrópu, þá er það hin bandaríska kenning. Þetta er frjálshyggjukenningin, um að velferðarkerfið og regluverkið sé svo hamlandi fyrir atvinnulífið að þar sé ekki hægt að halda uppi fullri atvinnu. En hvernig stendur þá á því að einmitt mestu velferðarríkjum sögunnar, Norðurlöndunum, hefur gengið betur með sinn umfangsmikla rétt launamanna og sitt umfangsmikla velferðarkerfi? Þar er ekki atvinnuleysið sem sums staðar er niðri í Evrópu. Ég held að þetta sé ofureinföldun hjá hv. þm.

Auðvitað er öllum ljóst að ef atvinnulífinu er íþyngt út í hið óendanlega lætur eitthvað undan að lokum en það að tryggð séu mannsæmandi réttindi á vinnumarkaði á ekki á nokkurn hátt að vera á kostnað þess að hægt sé að halda uppi fullri atvinnu.