Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:25:13 (8003)

2002-04-20 12:25:13# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Athugasemdir mínar við málfar og þýðingar hér eru ekki sprottnar af því að ég óttist sérstaklega að merking sé óskýr eða réttaróvissa skapist vegna þess að þýðingar séu ekki vandaðar í þeim skilningi, það óttast ég í sjálfu sér ekki. Mér er líka fullkomlega ljóst að því ágæta fólki sem glímir við þessar þýðingar í Þýðingamiðstöðinni eða hvar sem það nú er, er mikill vandi á höndum. Það er langt frá því alltaf einfalt að vinna slíkt verk.

En maður hlýtur samt að leyfa sér að gera athugasemdir þegar málfar er þannig að það jaðrar við að vera meiðandi að sjá það á prenti. Mér finnst t.d. koma til greina bara einföld umorðun á þessum setningum, þegar menn segja ,,fyrirtæki er einstaklingur``, mér er alveg sama þó að það komi síðan komma og eitthvert framhald. Ef menn bara segðu: Fyrirtæki getur þýtt eða getur tekið til eða þýðir samkvæmt lögum þessum eða vísar til einstaklings, opinbers aðila, fyrirtækis o.s.frv.

Eða í 4. tölul. þegar sagt er: ,,Aðilaskipti eru aðilaskipti á efnahagslegri einingu o.s.frv.``, að segja þá frekar: Með aðilaskiptum í lögum þessum er átt við að efnahagsleg eining skipti um eiganda o.s.frv. Þá er þetta strax orðin nokkurn veginn nothæf setning en ekki svona dapurleg málfræði eða málfarslega bjöguð framsetning.

Og þetta er kannski vandinn. Þarna er væntanlega valin samnings- eða tilskipunaraðferðin að nafnorðið er þarna fremst og síðan er prjónað aftan við það. Því er spurning hvort menn ættu ekki að láta eftir sér að setja þetta í hendurnar á málfarsráðunaut eða góðum íslenskumanni þegar merkingarlega er búið að þýða hlutina, að umorða þá og endursemja þannig að þetta sé svona sæmilega frambærilegt.